Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 13:58:08 (317)

2002-10-08 13:58:08# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvaða ástæða sé í rauninni á bak við þessa tillögu. Hér er sagt að leysa eigi einkavæðingarnefnd frá störfum og frekari einkavæðing stöðvuð. Megintilgangurinn með tillögunni er að ekki verði af neinni einkavæðingu neins staðar. Það á ekki að losa fjármuni úr Landsbankanum, Búnaðarbankanum eða neinum opinberum fyrirtækjum.

Ég vona að öllum sé ljóst, sérstaklega þingmönnum úti á landi, að með sölu á þessum fyrirtækjum ríkisins er verið að reyna að losa fjármuni til að geta farið í mjög mikilvægar framkvæmdir, sérstaklega úti á landi. Það er verið að tala um að gera jarðgöng, vegabætur og alls konar framkvæmdir sem koma ekki síst landsbyggðinni vel. Mér sýnist með þessum málflutningi að það eigi einfaldlega að reyna að koma í veg fyrir það. Hér er verið að hjakka í því hvort nefndarstörf hafi verið með einhverjum ákveðnum hætti eða hvort þetta hafi ekki gengið eftir alveg nákvæmlega eins og prótókollurinn segir til um.

Það er verið að rannsaka það. Ríkisendurskoðun er að rannsaka þetta, það fer ekkert á milli mála. Hv. þingmenn Vinstri grænna vita mætavel að Ríkisendurskoðun mun mjög fljótlega skila skýrslu um það hvernig þetta allt hefur farið fram. Það er reyndar allt annað mál og kemur þessu kannski ekki beint við. Aftur á móti langar mig, herra forseti, að hv. þingmaður segi mér hvað þeir meina í rauninni með þessari tillögu.