Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:06:40 (321)

2002-10-08 14:06:40# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er vilji meiri hluta hv. Alþingis og ríkisstjórnar að einkavæða og selja ríkisfyrirtæki og nota andvirðið til að lækka skuldir ríkissjóðs og þar með vaxtagreiðslur hans eða að fara í nytsamar framkvæmdir víða um land.

Orsök þessarar þáltill. er úrsögn eins nefndarmanns úr einkavæðingarnefnd og ummæli hans sem ekki hafa verið studd rökum eða sönnuð enn sem komið er. Nú er spurning mín til hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar sú hvort hann telji eðlilegt að einn nefndarmaður í einkavæðingarnefnd eigi að hafa meira vald en hv. Alþingi og ríkisstjórn til þess að koma markmiðum sínum fram.