Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:10:35 (324)

2002-10-08 14:10:35# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Um hvar völd eiga að liggja erum við hv. þm. Pétur H. Blöndal bara aldeilis ósammála. Ég held að stór hluti þjóðarinnar átti sig á því að sú formúla sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vill fylgja leiðir til samþjöppunar valds á örfárra manna hendur. Hún minnkar t.d. möguleikana úti í samfélaginu á því að vera með fjölbreytilegt atvinnulíf. Örfáir aðilar á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins hafa í krafti valda sinna, þ.e. peningalegra valda, keypt upp fyrirtæki og dregið úr fjölbreytileika fyrirtækjaflórunnar á undanförnum árum. Þetta er öllum ljóst. Það er gert með aðferðum hins peningalega valds og þetta gildir um allt, flutninga, verslun. Það er bara að nefna það. Þarna er því greinilega skoðanaágreiningur og við gerum okkur öll grein fyrir því. En þess konar valdasamþjöppun viljum við ekki hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði þar sem peningarnir ráða öllu á örfárra manna höndum.