Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:32:02 (329)

2002-10-08 14:32:02# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægð með að hv. þm. hefur náð sér niður. En það sem ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á er að við erum að vinna samkvæmt opnu ferli og auðvitað getur alltaf verið gagnrýnivert á hvaða verði á að selja og eðlilegt er að það sé rætt og gagnrýnt. En málið er að við erum samkvæmt stjórnarsáttmála að selja ákveðnar eignir og við skulum síðan sjá til hvernig til tekst. Það er ekki útséð um það hvað varðar bankana.

En fyrst hv. þm. er að tala um að það sé byrjað á að rægja niður allan opinberan rekstur, þá held ég að hann geti ekki verið að tala um þá sem hér stendur í því sambandi eða fulltrúa Framsfl. almennt því við höfum ekki gert það. Við höfum hins vegar haldið því fram að full ástæða sé til að einstaklingar fái að spreyta sig í sambandi við ákveðinn rekstur sem einstaklingar geta rekið jafn vel og ríkið og jafnvel betur. Það er líka mjög í samræmi við breyttan heim og breyttar aðstæður á Íslandi þar sem við erum aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði, og erum í sjálfu sér í samkeppni við fyrirtæki í allri Evrópu, að við ástundum þá svipaðan rekstur og svipað rekstrarform og þar tíðkast.

Í sambandi við bankana þá er ekkert svo óskaplega langt síðan að ríkið þurfti að setja verulega fjármuni í Landsbankann meðan hann var ríkisfyrirtæki og ég held að það sé almennt ekki talið æskilegt. Ég trúi því að bankar geti verið vel reknir í höndum einstaklinga og einkaaðila og þar eigi ríkið ekki fyrst og fremst að koma að málum. Vinstri grænir hafa haldið því fram að þetta sé almenningsþjónusta en það er bara ekki svo að hægt sé að tala um bankarekstur sem almenningsþjónustu vegna þess að hann er í samkeppni við einkaaðila og við getum ekki sett kröfur á slík fyrirtæki umfram það sem hægt er að gera almennt.