Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:45:00 (332)

2002-10-08 14:45:00# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um að einkavæðingarnefnd verði leyst frá störfum og frekari einkavæðing stöðvuð meðan verið er að fara yfir þessi mál, kanna hvernig unnið hefur verið, kanna hvað hefur farið úrskeiðis, kanna hvað betur mátti fara og einnig kanna hvað ætti kannski að hætta við að einkavæða. Það er full ástæða til þess eins og hér hefur verið rakið af hv. þm. sem þingmönnum sem hér hafa talað, sérstaklega Ögmundi Jónassyni flutningsmanni sem mælti fyrir tillögunni í upphafi umræðunnar.

Það er vert að gera hér grein fyrir því og draga athyglina að því að einn af hornsteinum þessarar ríkisstjórnar, eitt af meginatriðunum í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar var einkavæðing og sala á ríkiseignum, á almannaþjónustufyrirtækjum. Þetta er ítrekað í mörgum tillögum og mörgum skýrslum sem ríkisstjórnin hefur sent frá sér um einkavæðingaráformin. Gjarnan er hnýtt aftan við í þessum skýrslum, þessum ályktunum, að einkavæðingin auki samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu og að markaðsöflin séu miklu betri og meiri trygging fyrir skynsamlegri nýtingu og ráðstöfun þessara verkefna. Látið er að því liggja og því er haldið fram í gögnum sem ríkisstjórnin sendir frá sér um einkavæðingarmálin að einkavæðing almannaþjónustunnar dragi úr áhrifum sérhagsmunahópa og að einkavædd fyrirtæki hafi meiri möguleika til að greiða góðu starfsfólki laun o.s.frv. Margt sem þarna er dregið fram á að vera svo miklu betra við einkavæðinguna heldur en í samrekstrinum.

Herra forseti. Einavæðingin og sala á almannaþjónustufyrirtækjum eru eða hafa verið ein af meginmarkmiðum þessarar ríkisstjórnar og einn af hornsteinum stjórnarsáttmálans. Að þessu hefur líka verið unnið oft af meira kappi en forsjá eins og dæmin sanna og hér hefur verið rakið. Við minnumst umræðunnar og ákvörðunar um sölu á Landssímanum. Landssímann skyldi selja hvað sem tautaði og raulaði, þó svo að Landssíminn sæti orðið uppi með jafnvel þrjá forstjóra á launum og þó að menn sætu uppi með svo mikla spillingarumræðu, spillingarvef að þjóðinni ofbauð. Meira að segja ofbauð einnig einstökum stjórnarmönnum í Landssímanum eigin nærvera þar og sögðu sig úr stjórn. Þetta hafa verið hornsteinar hjá þessari ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. á þessum árum.

Það var ekki þessum flokkum að þakka að ekki tókst að selja Símann. En sem betur fór var það þjóðin, almenningsálitið sem barðist hart gegn sölu Landssímans. Ég hygg að það hafi ráðið mestu um að við höfum Landssímann enn í ríkiseigu, þó að við vildum geta beitt honum enn þá sterkar í þágu almannahagsmuna vítt og breitt um landið.

Herra forseti. Þessi einkavæðing er búin að vera einn af meginþáttum ríkisstjórnarinnar. Gerðar hafa verið skoðanakannanir meðal þjóðarinnar um hvaða afstöðu hún hefði til þessara áforma og fyrirætlana ríkisstjórnarinnar. Gerð var skoðaðanakönnun um afstöðu þjóðarinnar til sölu Landssímans. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð óskaði eftir því við Gallup að þessi könnun yrði gerð og hún var gerð í mars í ár.

Fram komu afdráttarlaus skilaboð. Yfir 60% þjóðarinnar sem afstöðu tóku vildu að Síminn yrði áfram í opinberri eigu, voru andvíg því að hann væri seldur. Þetta voru afdráttarlaus skilaboð þvert á stefnu Framsfl. og Sjálfstfl. Það var líka athyglisvert, herra forseti, varðandi Framsfl. sem hefur stutt svo dyggilega þessa einkavæðingu og gert hana að baráttumáli sínu, eins og við heyrðum hjá hæstv. viðskrh. áðan, að þegar kjósendur eða stuðningsmenn Framsfl. voru spurðir um afstöðu þeirra til sölu á Landssímanum þá vildu 64% af þeim sem lýstu sig stuðningsmenn Framsfl. að Landssíminn væri í opinberri eigu, voru andvíg sölunni, 64%. En hæstv. viðskrh., ráðherra Framsfl., vill ekki taka tillit til sjónarmiða stuðningsfólksins heldur veður áfram í einkavæðingarblindni sinni. Þegar litið er síðan til íbúa hinna dreifðu byggða utan höfuðborgarsvæðisins þá eru milli 70 og 80% af íbúum utan höfuðborgarsvæðisins andvíg sölunni, vilja að Landssíminn sé áfram í opinberri eigu. Engu að síður var mikill meiri hluti í öllum landshlutum fyrir því að svo skyldi vera.

Í hvers þágu voru þá stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., að vinna við þetta eitt af meginmarkmiðum sínum í ríkisfjármálum, þvert á vilja þjóðarinnar? Þjóðin veit hvað hún vill þegar hún er spurð.

Gallup gerði einnig nýverið, nú bara í ágúst, september, skoðanakönnun um afstöðuna til sölu á ríkisbönkunum. Sala þeirra er jú búin að vera í löngu ferli. Engu að síður eru úrslitin þar þau að af úrtakinu voru 42% andvíg sölunni en einungis 37% fylgjandi sölu á bönkunum. Meiri hluti þeirra sem afstöðu tók, talsvert ríflegur meiri hluti, var andvígur sölu á ríkisbönkunum. En þetta er búið að vera eitt af keppikeflum þessarar ríkisstjórnar. Einnig hér er ríkisstjórnin að vinna í andstöðu við vilja þjóðarinnar.

Herra forseti. Þessu til viðbótar er sú umræða sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum, þessi mikla og gífurlega spillingarumræða sem hefur tengst þessari einkavæðingu. Því er fyllilega ástæða til að staldra hér við og fara yfir málin, kanna stöðuna og gera betur, hætta við að einkavæða almannaþjónustu og taka upp skipulögð vinnubrögð þar sem einkavæðing og sala gæti verið réttlætanleg.