Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:53:21 (333)

2002-10-08 14:53:21# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að vekja eftirtekt á því að það er skýr greinarmunur á afstöðu þingmanna hv. Samfylkingarinnar annars vegar og hins vegar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til einkavæðingar. Hv. þingmenn VG eru þeirrar skoðunar að það eigi undir engum kringumstæðum að einkavæða það sem þeir kalla almannaþjónustufyrirtæki. Ég vil að það komi alveg ljóst fram, herra forseti, að Samfylkingin er í grundvallaratriðum ekki á móti því að fyrirtæki í samkeppnisrekstri en í eigu ríkisins séu almannavædd, þ.e. að þau séu sett yfir á markað og færð með þeim hætti í hendur einkaaðilum. Það verður hins vegar að gerast eftir skýrum leikreglum, opnum og gegnsæjum.

Það sem þingmenn Samfylkingarinnar og reyndar Frjálslynda flokksins og VG eru algjörlega sammála um er að undir engum kringumstæðum beri að einkavæða heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Við sáum nú brotlendingu einkavæðingar menntakerfisins hjá Sjálfstfl. í Hafnarfirði, í Áslandsskóla. Við höfum líka séð erlendis hvernig einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur farið með gæði þjónustu. Ég nefni þetta í uppahfi máls míns, herra forseti, vegna þess að ég vil að það sé alveg ljóst að ákveðinn stefnumunur er þarna annars vegar hjá Samfylkingunni og hins vegar Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sem ber fram þetta þingmál.

Ég vil líka að það komi skýrt fram, herra forseti, að ríkisstjórnin og háttalag hennar hefur í reynd komið óorði á einkavæðingu. Hv. þm. Jón Bjarnason rakti niðurstöður skoðanakannana sem sýndu glöggt þá breytingu sem orðið hefur á nokkurra ára skeiði á viðhorfi almennings til þess að selja t.d. bankana. Ekki eru mörg ár síðan að það var a.m.k. glöggur meiri hluti fyrir því. Hins vegar hafa mál skipast þannig af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að ekki nokkur maður getur fellt sig við það vinnulag sem þar hefur verið haft í frammi. Gildir þá einu hvort við erum að ræða um bankana eða Landssímann.

Nú vitum við að einkavæðingarferlið allt saman er helbert klúður hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er væntanlega þess vegna sem hæstv. forsrh. tiplar á tánum út úr húsinu þegar við viljum fá hann til umræðunnar, eins og sjálfsagt er, um þetta mál. Hæstv. forsrh. er sá sem ber hina formlegu ábyrgð á einkavæðingarnefnd. Það er hún sem er undir í þessu þingmáli hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og það hefði verið eðlilegt að hæstv. forsrh. kæmi hingað til þess að skiptast á skoðunum við þingheim um þetta mál. Ég spyr, herra forseti: Er hæstv. forsrh. ekki í húsi?

(Forseti (ÍGP): Hæstv. forsrh. er ekki í húsi samkvæmt tölvunni sem ég er með fyrir framan mig.)

Herra forseti. Ég hef ekki lagt það í vana minn að óska eftir því að hæstv. ráðherrar væru fluttir í böndum til umræðunnar og ég ætla ekki að gera það núna. En ég vil lýsa þeirri skoðun minni að þetta mál er svo mikilvægt og alvarlegt eins og því er nú komið fyrir atbeina vinnulags trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarnefnd að það er fullkomlega eðlileg krafa sem ég hygg að hv. þingmenn VG hafi flutt hér fram fyrr í dag um að hæstv. forsrh. væri viðstaddur þessa umræðu.

Í skjóli einkavæðingarinnar eins og hún hefur verið rekin hér á landi þá hika ég ekki við að fullyrða að þar hefur grafið um sig það sem ég kalla spillingu. Ég kalla spillingu þá sjálftöku fjármuna sem við sáum hjá einstökum fulltrúum ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarnefndinni. Ég vísa til þess, herra forseti, að hinn burthlaupni fyrrverandi formaður nefndarinnar, Hreinn Loftsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrum trúnaðarmaður forsrh., skildi eftir sig heldur betur ferilinn sem ekki er hægt annað fyrir hönd skattborgaranna en sýta. Sá ágæti maður þáði fyrir störf sín á árabilinu 1996--2001 samtals rífar 16 millj. kr. En það sem er auðvitað skelfilegast við þetta er að formaður einkavæðingarnefndar keypti sérfræðiþjónustu af sjálfum sér sem á þessu bili nam meira en 10 millj. kr. Það finnst mér vera skelfilegt, herra forseti. Það finnst mér vera tilefni til þess að farið sé ofan í saumana á vinnulagi þessarar nefndar. Hvar í ósköpunum hefði þetta tíðkast annars staðar, herra forseti?

Ég vísa til þess að ágætur stjórnarformaður ríkisfyrirtækis sem varð uppvís að því að gera slíkt hið sama, bara í miklu minna mæli, hvarf frá störfum. Ég tel að það hafi fyrst og fremst verið vegna þessa. Það eitt að við skyldum síðan sjá svona gerast í þeirri nefnd sem hæstv. forsrh. ber ábyrgð á nægir auðvitað til þess að menn hljóta að krefjast þess að þessi nefnd og starfsemi hennar verði skoðuð í þaula.

Þegar kemur síðan að sölu bankanna, herra forseti, þá er hún líka samfelld sorgarsaga. Við sjáum núna hvernig sala bankanna er að leiða til þess að í viðskiptalífinu eru ýmis fyrirtæki að vængja sig, að klasa sig saman og leita pólitísks skjóls hjá þeim aðilum sem núna fara með völd í ríkisstjórninni. Þau eru að reyna að hrammsa til sín bita af kökunni. Auðvitað er það alveg út í hött þegar menn halda því fram að engin pólitík spili inn í það.

[15:00]

Við sáum hvað gerðist þegar í ljós kom að Landsbankinn var kominn á þá braut að allt benti til þess að hann mundi á endanum lenda í fangi góðra og gegnra sjálfstæðismanna. Áður en það ferli var á enda runnið var auðvitað hin gamla helmingaskiptaregla tryggð með því að vildarmenn Framsfl. í viðskiptalífinu fengu sitt gamla tryggingafyrirtæki keypt til baka, þ.e. VÍS. Að halda því fram að engin pólitík hafi spilað inn í þetta er helber barnaskapur, herra forseti.

Við sjáum líka þau miklu og hörðu átök sem núna geisa undir niðri um bankana tvo. Það liggur fyrir að hópur sem tengist Sjálfstfl. mun að öllum líkindum, ef allt gengur eftir sem vísbendingar hníga nú að, verða eigandi Landsbankans. Þá gerist það líka að upp eru risnir tveir vængir viðskiptafyrirtækja sem tengjast Framsfl. og vilja fá til sín Búnaðarbankann. Þá gerist það enn fremur í framhaldi af þessu að það verða átök sem leiða til þess að Gilding hf. festir sér stóran hlut í Búnaðarbankanum og maður spyr auðvitað: Með fjármagni hvers? Var það t.d. fjármagn sem var fengið að láni í Búnaðarbankanum sjálfum? Ég veit það ekki. Og allt þetta til að koma í veg fyrir að framsóknarmenn nái í þann skerf af kökunni sem þeir vilja.

Herra forseti. Ég dreg þetta hér fram vegna þess að ég tel að vinnulagið sem tengist einkavæðingunni hafi leitt til þessarar sérkennilegu atburðarásar í atvinnulífi landsmanna sem mér finnst vera ákaflega ógeðfelld. Hún ber og keim af tíma sem ég hélt að væri löngu liðinn, tíma þar sem fyrirtækjaklasar verða til og reyna að fá sér skjól hjá pólitískum flokkum.