Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:04:46 (335)

2002-10-08 15:04:46# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, sem og Samfylkingin, að það hefði átt að stöðva núverandi söluferli bankanna, a.m.k. á meðan Ríkisendurskoðun eða annar hlutlaus aðili væri að grafast fyrir um þær alvarlegu ásakanir sem Steingrímur Ari Arason, trúnaðarmaður fjmrh. í einkavæðingarnefnd, bar fram. Sá ágæti fulltrúi sem þá hafði setið allra karla lengst í nefndinni, hartnær 11 ár, stóð upp og hratt frá sér borðum víxlaranna með þeim orðum að hann hefði aldrei áður kynnst slíkum vinnubrögðum. Það eru fyrir mér nægilega harðar fullyrðingar til þess að ég vil ekki taka neina ábyrgð, eða minn flokkur, á því söluferli sem hefur verið í gangi þó að við séum í grundvallaratriðum ekki þeirrar skoðunar að halda beri bönkunum í eigu ríkisins. Við teljum að á meðan þessar fullyrðingar Steingríms Ara Arasonar eru óhraktar sé einkavæðingarnefnd eins og hún er skipuð í dag rúin öllu trausti almennings, og ætti ekki að njóta trausts stjórnmálamanna. Þar af leiðir að hún er óbær til þess að halda áfram þessu söluferli. Það eitt út af fyrir sig hefðu allir skynsamir menn átt að geta sameinast um, jafnvel þó að þeir hefðu ekki viljað ganga eins langt og lagt er til með þessari tillögu. En jafnvel við það skirrist ríkisstjórnin. Hún lætur söluferlið halda áfram og þar með get ég ekki annað sagt en svo að hún gefur sér fyrir fram niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og ómerkir þar með þá vinnu fyrir fram.

Herra forseti. Það eru vinnubrögð sem ég get ekki sætt mig við, og ekki Samfylkingin heldur.