Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:38:53 (341)

2002-10-08 15:38:53# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:38]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Í upphafi, áður en ég kem að nokkrum þeim atriðum sem hv. 3. þm. Suðurl. gerði að umtalsefni, finnst mér rétt að taka fram nokkur atriði um íslenska heilbrigðiskerfið.

Það er þrennt sem einkennir íslensku heilbrigðisþjónustuna:

Hún er mjög góð í alþjóðlegum samanburði.

Hér er afar fært fagfólk.

Aðgengi hér og réttur sjúklinga til þjónustu er með því besta sem gerist í heiminum.

Þetta eru afar einföld grundvallaratriði en þau eru ekki mjög spennandi í fréttum eða flokkssamþykktum Samfylkingarinnar.

Staðreyndir eru að hér eru til að mynda fleiri læknar á hverja 100.000 íbúa en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum þar sem staða þessara mála er hvað best í heimi. Læknisheimsóknir á íbúa eru hér fleiri en annars staðar á Norðurlöndum. Við Íslendingar erum ávallt fyrstir þjóða til að taka upp nýjustu og oft dýrustu lyfin. Hér er algengara og umfram allt almennara en annars staðar að fólk fari í flóknar læknisaðgerðir. Hér er almennara en annars staðar að boðið sé upp á dýrar aðgerðir þar sem aðrar þjóðir nota ódýrari úrræði. Þannig mætti lengi telja.

Niðurstaðan er sú að óvíða eru lífslíkur betri en hér. Barnadauði er hér hvað lægstur í heimi og það er sannfæring mín að almenn lífsgæði sjúklinga séu með besta móti hér. Þetta er raunar staðfest hvað eftir annað í alþjóðlegum samanburði og þetta hefur okkur Íslendingum tekist í stóru og fámennu landi.

Virðulegur forseti. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa upp á síðkastið gert harða hríð að heilbrrh. Hv. varaformaður Samfylkingarinnar, hv. 3. þm. Suðurl., hefur nú skipað sér í sömu sveit. Hv. 7. þm. Reykv. gerði á flokkssamkomu mikið úr þeirri uppgötvun sinni að heilbrigðisþjónustan væri í uppnámi vegna þess sem hann kallaði mistök tveggja ráðherra framsóknarmanna sem haldið hafi um stjórnartaumana í heilbrrn. um hríð. Af þessu tilefni og af þeim orðum sem hér hafa fallið af hálfu hv. málshefjanda er rétt að rifja upp ástandið í heilbrigðismálum þegar ráðherra Framsfl. kom að þeim málaflokki fyrir nokkrum árum. Aðkoman í heilbrrn. var í meira lagi sérstök. Ráðuneytið var eins og skúta sem lent hafði í hafvillum með rá og reiða. Það kom í hlut nýs ráðherra framsóknarmanna, fyrirrennara míns, að endurskipuleggja allt innra starf ráðuneytisins. Samskipti við lækna í landinu voru við frostmark vegna erfiðustu deilu sem heilbrigðisyfirvöld hafa lent í við lækna og samtök þeirra, einkum sérfræðilæknafélagið, um árabil.

Í þessu felst enginn dómur eða mat á þeim tillögum sem deilt var um. Það var raunar stefna þáv. ríkisstjórnar ef rétt er munað og ég ætla mér ekki að hafa skoðun á því hverjum mátti kenna um deilurnar, sérfræðilæknamönnum eða heilbrrh. En deilurnar voru staðreynd og þær höfðu eitrað samskipti heilbrigðisyfirvalda og lækna.

Það er fjarri þeim sem hér stendur að skilgreina stöðuna sem uppi var vorið 1995 sem algjört uppnám í heilbrigðisþjónustunni. Fólk fékk hér sína þjónustu, fagfólkið sinnti sjúkum, en vissulega blasti við alvarlegur vandi, vandi sem þurfti að taka á og afstýra þeirri stórstyrjöld við sérfræðilækna sem blasti við.

Það hefur ávallt verið vandi í heilbrigðisþjónustunni og það hefur ávallt verið hlutverk heilbrrh. að reyna að leysa hann. Vandamál á þessu sviði jafngildir ekki upplausn og óáran eins og ætla mætti af orðum hv. 3. þm. Suðurl. og annarra sem hafa tjáð sig opinberlega um heilbrigðismálin undanfarið.

Virðulegur forseti. Umræður um heilbrigðisþjónustuna undanfarið hafa einkennst af flokkspólitískri sannfæringu eða rétttrúnaði, af einskærum áhuga eða hugsjón, af beinhörðum einkahagsmunum eða af staðreyndum eins og Ríkisendurskoðun hefur lagt fram í skýrslum sem málshefjandi vék að í máli sínu. Stofnunin sendi frá sér fyrir skemmstu tvær skýrslur sem hv. málshefjandi hefur mjög vitnað til. Önnur er úttekt á rekstri heilsugæslunnar í Reykjavík og ber heitið Fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Hin fjallar um starfsemi sérfræðilækna og tekur til samskipta og samninga þeirra sem gerðir voru við Tryggingastofnun ríkisins á árunum 1998--2001.

Ég tel rétt að heilbr.- og trn. Alþingis sem er þverpólitískur hópur alþingismanna taki nú þessar skýrslur til skoðunar og dragi af þeim ályktanir. Það er sá vettvangur sem þessar skýrslur eiga að ræðast á og það tel ég réttu leiðina. Þessar skýrslur eru báðar mjög vandaðar og hefur verið mikið verk í þær lagt. Ég tel að það sé skylda þingsins að taka þær nú til umræðu. Heilbr.- og trmrn. og ég sem forustumaður þar erum reiðubúin að leggja þeirri umræðu lið hér í Alþingi. Það tel ég rétt að sé gert.

Í sérfræðiskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram, með leyfi forseta, að: ,,... af ýmsum ástæðum hefur Tryggingastofnun ríkisins því ekki fullkomið vald á þróun útgjalda vegna sérfræðilæknishjálpar ...`` svo vitnað sé orðrétt til skýrslunnar.

Þar kemur líka fram að: ,,... verulegar breytingar urðu á starfsumhverfi sérfræðilækna með nýjum samningum við Tryggingastofnun í mars 1998 ...`` svo aftur sé vitnað orðrétt til skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta.

Þessar breytingar á svokölluðu starfsumhverfi knúðu sérfræðilæknar fram með kjaraaðgerðum sínum sem hófust í júní árið áður á ekki ósvipaðan hátt og sérfræðilæknum tókst að gera að engu áform ríkisstjórnarinnar sem hér sat árin 1991--1995 um tilvísanaskyldu.

[15:45]

Og samningar sem heilbrigðisyfirvöld neyddust til að gera í kjölfarið, í mars 1998, eru ein meginástæðan fyrir hinni miklu kostnaðaraukningu sem orðið hefur vegna sérfræðilækninga fram til ársins 2002. Það má einnig lesa í þessari skýrslu.

Ég vík nú, virðulegur forseti, að Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi og spítölunum almennt og þeim vanda sem þar er við að etja.

Hafi hv. þm. nefnt frv. til fjáraukalaga í framsöguræðu sinni fór það fram hjá mér og það segir sína sögu því að þar eru lagðar til hvorki meira né minna en 1.200 millj. kr. til að leiðrétta uppsafnaðan halla á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi. Þau mál eru auðvitað í skoðun hér ásamt öðrum málum varðandi spítalana í landinu. Þar er vissulega við vanda að etja en hins vegar hefur verið gerð grein fyrir ástæðum hans við fjárlagaumræðuna sem fór hér fram í vikunni. Ég ætla því ekki að eyða mínum stutta tíma í að gera grein fyrir því enda er mér ætlað á tólf mínútum að fara yfir heilbrigðiskerfið í landinu eins og það leggur sig. Ég vil nota þær mínútur sem eftir eru til að fara yfir ástandið í heilsugæslunni í landinu.

Það hefur komið fram að heilsugæslulæknar í Hafnarfirði og Reykjanesbæ hafa sagt upp störfum. Kröfur þessa hóps hafa verið að fá gjaldskrársamning við Tryggingastofnun ríkisins eins og samið er um í samningum Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins. Ég hef ekki viljað verða við kröfum þessa hóps vegna þess að það er skoðun mín að með því væri boðið heim hættu á því að heilsugæslan í núverandi mynd brotnaði niður, eða þverfaglegt skipulag hennar. Hópur heilsugæslulækna hefur krafist þess um hríð að fá samning við Tryggingastofnun á sama grundvelli og sérfræðilæknarnir og þeir hafa farið með það mál fyrir samkeppnisráð, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og héraðsdóm. Þeir hafa haldið því fram að um mannréttindabaráttu væri að ræða. Niðurstaða málarekstursins sem hér var drepið á hefur í stórum dráttum orðið sú sem lýst var í úrskurði samkeppnisráðs en þar segir um efnisleg deilumál aðila, með leyfi forseta:

,,Af hálfu heilbrigðisyfirvalda er ekki talið þjóðhagslega hagkvæmt að hið opinbera byggi og reki með miklum tilkostnaði heilsugæslustöðvar sem þjóni öllu landinu en taki jafnframt þátt í rekstrarkostnaði sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna sem starfa í rauninni í samkeppni við kerfið sjálft.``

Og síðan segir í úrskurðinum, með leyfi forseta:

,,Hið opinbera ber bæði rekstrarlega og fjárhagslega ábyrgð á því grunnkerfi sem er við lýði í heilbrigðisþjónustu í dag. Sú ábyrgð hvílir á ríkinu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Starfsmenn grunnþjónustunnar eru starfsmenn ríkisins, og bera þær skyldur og hafa þau réttindi sem ríkið setur og fylgja þjónustunni. Eins og hverjum öðrum atvinnurekanda er ríkinu bæði skylt og nauðsynlegt að takamarka útgjöld sín eins og kostur er. Gildir það jafnt þegar ríkið þarf tímabundið að kaupa þjónustu sjálfstætt starfandi heimilislækna meðan ekki er unnt að uppfylla ákvæði um þjónustuskylduna á heilsugæslustöðvum. Atvinnurekandi, í þessu tilfelli hið opinbera, verður að geta metið og ráðið því sjálfur hve marga starfsmenn og launþega hann hefur á launaskrá hjá sér.``

Miðað við núverandi tvískiptingu í heilbrigðiskerfinu og með tilliti til þess að löggjafinn hefur ákveðið að rekstur grunnþjónustunnar sé að öllu leyti í höndum hins opinbera er ekki um eiginlegan samkeppnismarkað að ræða. Hið opinbera er bæði rekstraraðili þjónustunnar og greiðandi að stærstum hluta. Heilsugæslulæknar og annað starfsfólk grunnþjónustunnar eru launþegar hins opinbera. Þar af leiðandi eiga engin viðskipti sér stað á milli ríkisins og heilsugæslulækna. Sama á við um samninga Tryggingastofnunar ríkisins við Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur um þjónustu heimilislækna utan heilsugæslustöðva. Þeir samningar bera með sér öll einkenni launþegasamninga en ekki verktakasamninga eins og samningar Tryggingastofnunar við aðra sérfræðinga.

Að teknu tilliti til ofangreinds er ekki hægt að fallast á að um samkeppnismarkað sé að ræða í skilningi samkeppnislaga. Allar aðgangstakmarkanir nýrra aðila að markaðnum eru í raun afleiðing þess skipulags sem ríkjandi er.

Í niðurstöðu í deilu heilsugæslulækna og TR á sínum tíma hefur afstaða heilbrigðisyfirvalda falist. Það þýðir hins vegar ekki að heilbrrh. hafi lýst sig tilbúinn til að einfalda eða gera launakerfi heilsugæslulæknanna sveigjanlegra. Því hefur heilbrrh. marglýst yfir og lýst yfir fylgi við tillögur um blandað kerfi.

Heilsugæslulæknar fóru sjálfir fram á að komast undir kjaranefnd að afloknum hörðum kjaraátökum. Sú skipan mála bindur hendur heilbrigðisyfirvalda og gerir þeim erfitt um vik að hlutast til um kjör heilsugæslulæknanna. Samtök þeirra hafa ítrekað verið innt eftir því hvort lagabreyting sem færði þá aftur undan kjaranefnd mundi hugnast félaginu án þess að klár svör fengjust. Heilbr.- og trmrh. á von á því að kjaranefnd kveði nú upp úrskurð sem höggvi með einhverju móti á þann hnút sem samskipti heilsugæslulæknanna hafa verið í. Er það von mín að svo verði á allra næstu dögum.