Aðgerðir til verndar rjúpnastofninum

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:17:02 (363)

2002-10-08 17:17:02# 128. lþ. 6.5 fundur 11. mál: #A aðgerðir til verndar rjúpnastofninum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um aðgerðir til verndar rjúpnastofninum. Þetta er þskj. 11, 11. mál þingsins. Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að grípa tafarlaust til aðgerða til verndar rjúpnastofninum. Haustið 2002 skal leyfilegur veiðitími á rjúpu vara 1.--30. nóvember. Rannsóknir á viðgangi rjúpnastofnsins skulu efldar eins og kostur er og fylgst grannt með því hvort aukin friðun skilar sýnilegum árangri. Áður en veiðitími hefst haustið 2003 skal metið hvort grípa verði til enn frekari aðgerða, svo sem sölubanns eða alfriðunar stofnsins um eitthvert árabil.``

Efnisleg áhrif tillögunnar ef samþykkt yrði, herra forseti, eru ósköp einföld. Umhvrh. yrði falið að grípa tafarlaust til ákveðinna friðunaraðgerða og þá fyrst og fremst þeirra á þessu hausti að stytta tímann niður í einn mánuð, taka framan af hálfan mánuð í október og síðan desembermánuð aftan af.

Herra forseti. Menn deila ekki lengur um það að ástand rjúpnastofnsins er afar bágborið. Staðkunnugum mönnum á helstu varp- og uppeldisslóðum rjúpunnar, sem eru ekki hvað síst á Norðausturlandi, ber yfirleitt saman um að ástandið hafi versnað jafnt og þétt. Náttúrufræðistofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að ástæða sé til þess að hafa mjög alvarlegar áhyggjur af stöðu stofnsins og mun setja rjúpuna á válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Fjölmargir landeigendur, gamalreyndir veiðimenn, sveitarstjórnir og fleiri aðilar hafa látið málið til sín taka og sent frá sér ályktanir og áskoranir til stjórnvalda um að gripið verði til aðgerða. Ég nefni einn einstakling úr þessum hópi, Árna G. Pétursson, fyrrverandi ráðunaut á Vatnsenda á Melrakkasléttu, en hann hefur verið ódeigur baráttumaður fyrir aðgerðum í þessa veru og hóf baráttu fyrir því fyrir nokkrum árum að rjúpan yrði sett á válista.

Að sjálfsögðu er það svo, herra forseti, að skiptar skoðanir geta verið um hvaða aðgerðir séu vænlegastar þegar menn loks eru komnir að þeirri niðurstöðu að eitthvað verði að gera. Þar heyrast sjónarmið allt frá því einu að auka beri rannsóknir og eftirlit til þess að unnt sé að greina sérstaklega hversu stór þáttur veiðiálagið sé í afkomu stofnsins eða jafnvel hvort veiðar hafi yfir höfuð nokkur áhrif. Því hefur verið haldið fram alveg fram undir síðustu ár að svo sé. Ég hygg þó að þeim fari fækkandi sem ekki viðurkenna að veiðarnar spila þarna inn í og erlendir sérfræðingar bentu einmitt nýlega á það á ráðstefnu hér að þó að veiðar kunni að hafa lítil áhrif þegar stofninn er í góðu ástandi, þá gætu þær verið afgerandi þáttur í því að fækka í stofninum þegar hann er á niðurleið og ástandið er bágborið. Aðrar hugmyndir ganga út á það að banna t.d. sölu á villibráð, þar með talið rjúpum, enn aðrar að veiðar væru bundnar við tiltekinn fjölda á dag svo sem þekkt er úr ýmsum veiðiskap eins og úr laxveiðum og er þekkt úr fuglaveiðum í nágrannalöndum. Ég hygg t.d. að í Noregi gangi menn til rjúpna og megi eingöngu taka vissan fjölda fugla á degi hverjum. Enn aðrir, og þeim fer reyndar mjög fjölgandi nú, ganga svo langt að segja að ekkert minna dugi en alfriðun rjúpunnar um eitthvert árabil. Það sjónarmið heyri ég æ oftar af heimaslóðum mínum þar sem margir hafa fylgst með rjúpnastofninum um áratuga skeið og hafa af því miklar áhyggjur hversu gríðarleg fækkun hefur orðið í því kjörlandi rjúpunnar sem þó er á svæðinu frá Suður-Þingeyjarsýslu og norður um Norður-Þingeyjarsýslu og austur á Austfirði þar sem víðlend heiðalönd, ásar, mólendi og kjarrlendi hefur lengi lagt til eitt helsta kjörlendi rjúpunnar í landinu.

Sú hugmynd sem mér heyrist langflestir taka undir og mæla með í öllu falli sem skynsamlegri aðgerð og menn hafa reyndar barist fyrir nokkur undanfarin ár er sú að stytta veiðitímann. Það sé einföld og árangursrík aðferð til þess að draga úr veiðiálaginu og sérstaklega með því að stytta tímann framan af hausti, taka framan af tímanum, þá vinnist margt í senn, bæði það að þá á rjúpan oft og tíðum minnsta undankomuleið, þá er landið viðkvæmast yfirferðar og margir landeigendur og sveitarstjórnir hafa miklar áhyggjur af vaxandi landspjöllum sem mikil umferð ökutækja á vegarslóðum, moldarslóðum, svo ekki sé talað um ef akstur er beinlínis stundaður utan vega, veldur á þessum viðkvæma árstíma þegar haustrigningar eru og áður en frost eða snjór er farið að hlífa landinu.

Nú háttar svo til, herra forseti, að vegna góðs tíðarfars er land alautt upp í hæstu fjöll og haldi svo sem horfir fram til 15. október sem veiðitíminn mundi hefjast að óbreyttu, þá þekkja menn það vel af reynslunni t.d. frá því í hittiðfyrrahaust að rjúpan á sér lítillar undankomu auðið þegar allar slóðir eru færar og hvergi snjódíll til að skýla henni, þá getur veiðin orðið gríðarleg á fyrstu dögum veiðitímans, ef svo heldur sem horfir. Ef ekki hefur gert hausthret til að þjappa rjúpunni saman og færa hana til, þá er hún jafnvel enn þá í varphópum og er auðveld bráð þeim sem aka um, ég tala nú ekki um ef menn keyra yfir fjöll og firnindi og jafnvel skjóta af bílunum.

Herra forseti. Tillagan gerir sem sagt ráð fyrir því að umhvrh. verði falið að grípa til slíkra aðgerða þegar á þessu hausti. Það er með öllu óviðunandi að því sé borið við haust eftir haust að ekki sé tími til aðgerða fyrr en að ári liðnu af því að menn láta 15. október ganga í garð ár eftir ár án þess að aðhafast nokkuð og segja svo þegar þannig er komið: Það er of seint að gera nokkuð í haust. Þetta var staðan í fyrra þegar ég á einum fyrsta degi þingsins lagði fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um nákvæmlega það hvort til stæði að grípa til einhverra aðgerða til verndar rjúpnastofninum á því hausti. Þá var beðið með að svara þeirri spurningu, því miður, eða það náðist ekki að svara henni fyrr en 15. október var genginn í garð, veiðitíminn hafinn og þá var eðlilega sagt: Það er a.m.k. ekkert hægt að gera í haust því að það er of seint. Nú virðist sami leikurinn aftur vera í bígerð og þó að það sé góðra gjalda vert að uppi séu hugmyndir eða plön um að grípa til aðgerða haustið 2003, þá mun það ekki hjálpa rjúpnastofninum á þessu hausti og það á reyndar að kjósa í millitíðinni og hver veit hvaða viðhorf nýr umhvrh. kann að hafa að hausti. Kannski þarf hann þá enn eitt árið í viðbót til að hugsa sinn gang og skoða málið.

Herra forseti. Nú liggja fyrir óyggjandi vísbendingar í þessu máli. Ég vísa þar í bréf Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er fyrsta fskj. með tillögunni og í fskj. II sem er úttekt Ólafs K. Nielsens á ástandi rjúpnastofnsins. Til viðbótar vísa ég í allar þær upplýsingar sem komið hafa fram á undanförnum nokkrum haustum, t.d. frá veiðimönnum, sveitarstjórnum og samtökum sveitarstjórnarmanna fyrir norðan og austan og í því sambandi bendi ég á fskj. III sem er samþykkt Eyþings, Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, og þar er aftur vitnað í erindi frá hreppsnefnd Svalbarðshrepps sem var lagt fyrir aðalfund Eyþings haustið 2001 þar sem heimamenn fara eindregið fram á aðgerðir, að stytta veiðitímann og færa fram þau rök að hluta til sem ég tíundaði áðan bæði varðandi veiðiálagið á fyrstu vikum veiðitímans og meðferðina á landinu og öðru slíku.

Sömuleiðis hef ég undir höndum frá sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps mjög sambærilega tillögu sem samþykkt var þar síðsumars 2001 þegar menn þóttust sjá að enn eitt tímabilið færi í hönd þar sem ástand stofnsins væri mjög dapurt og þá var skorað á umhvrn. að grípa til aðgerða og stytta veiðitímann um 3--4 vikur frá því sem nú er og hann hæfist sem því næmi seinna að haustinu. Ég held, herra forseti, að ástæða sé til að taka mark á þeim eindregnu óskum og ábendingum heimamanna sem þarna eiga í hlut. Það hefur lengi verið talið að á því landshorni stæði þó stofninn einna skást fyrir utan kannski afmörkuð svæði á Vestfjörðum og einstöku stöðum öðrum þar sem fjarlægð eða ógreiðar samgöngur hafa búið til einhver griðlönd fyrir rjúpuna. En undanfarin haust hefur það þó verið þannig að veiðimenn hafa helst talið góðrar veiði von á norðaustanverðu landinu og flykkjast nú þangað unnvörpum af þeim sökum þannig að þau svæði þar sem ástandið var þó helst þolanlegt taka núna á sig langmest veiðiálagið og miðað við kenningar fræðimanna má þá búast við því að einnig þar láti stofninn mjög hratt undan síga. Ég held að menn verði líka að hafa í huga þegar ástandið nú er borið saman við fyrri tíð að aðstæður eru gjörbreyttar. Áður gengu menn til rjúpna frá byggð og utan þess svæðis sem var aðgengilegt mönnum yfirleitt með göngu á degi hverjum úr byggð átti rjúpan sér griðland. Sem sagt, allt miðhálendi landsins og öræfin þegar lengra kom frá byggð. Nú er þessi staða gjörbreytt. Fjallaskálar inn um allt hálendi eru fullir af veiðimönnum strax frá fyrsta degi og með tilkomu ökutækja og vegarslóða sem hafa verið að opnast nánast upp um allt hálendið er staðan að þessu leyti alveg gjörbreytt. Rjúpan á sér varla nokkurs staðar neitt griðland lengur nema svæðið hér á suðvesturhorninu, á Reykjanesi, sem umhvrh. að vísu, svo öllu sé til haga haldið, hyggst stækka. Það er góðra gjalda vert en neikvæða hliðin á því máli er sú að þeir veiðimenn sem þar hefðu ella gengið til rjúpna fara þá annað og þá má ætla að veiðiálagið aukist enn á þeim svæðum sem opin eru. Að þessu slepptu eru það þá bara þjóðgarðarnir og einstöku lönd í einkaeigu sem eru friðuð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsöguræðu lengri. Ég þakka fyrir að skapaðar voru aðstæður til að tillagan mætti koma hér á dagskrá og fyrir því er sú gilda ástæða að eigi að aðhafast eitthvað í þessum efnum þarf að vinda bráðan bug að því. Ég leyfi mér því að vona og vænta þess að hv. umhvn. taki málið þegar fyrir og því verði vísað þangað að lokinni umræðu. Ég tel rétt að nefndin kanni það strax, helst í þessari viku hvort nokkrir meinbugir séu á því að stytta veiðitímann nú þegar í haust. Ég tel satt að segja hreint ábyrgðarleysi að gera það ekki. Og ef það er eitthvað erfitt viðfangs fyrir ráðuneytð eða þá aðila þá finnst mér að Alþingi eigi sjálft að taka af skarið. Það hefur áður gert það í málum af þessu tagi. Alþingi hefur sjálft iðulega gripið til sérstakra verndaraðgerða þegar svo hefur borið undir, hvort sem það hefur verið veiðibann á hvölum, friðun á rjúpu eða eitthvað annað sambærilegt. Nú er svo komið að mér finnst að menn eigi að taka af skarið í þeim efnum. Það getur ekki skaðað okkur á nokkurn hátt að grípa til tiltölulega mildilegra aðgerða af þessu tagi. Ég er sannfærður um að veiðimenn, sportveiðimenn sem og heimamenn, sem hafa gengið til rjúpna munu skilja hvers vegna út í slíkar aðgerðir yrði farið. Auðvitað kann að vera að einhverjir yrðu óánægðir með það að lítill aðlögunartími gæfist að slíkum breytingum en það getur varla talist alvarlegur ágalli á málinu borið saman við hitt að gera ekki neitt haust eftir haust þegar vísbendingarnar hafa hrannast upp jafnalvarlegar og raun ber vitni. Það sakar varla að hafa vaðið fyrir neðan sig og láta þá náttúruna eða öllu heldur í þessu tilviki rjúpuna --- og reyndar ekki bara rjúpuna því að fleira hangir á spýtunni, íslenski fálkastofninn og allt íslenska lífríkið --- njóta vafans.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. umhvn.