Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu Landsbankans

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:36:39 (375)

2002-10-09 13:36:39# 128. lþ. 7.91 fundur 158#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu Landsbankans# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tel líka mjög mikilvægt að skýrsla Ríkisendurskoðunar liggi fyrir áður en menn taka einhverjar ákvarðanir um sölu Landsbankans. Ég hlýt að rifja það upp, herra forseti, að þegar krafa Samfylkingarinnar kom fram um að söluferlið yrði þegar í stað stöðvað, og þegar því var mótmælt í fjölmiðlum, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að söluferlinu væri eigi að síður fram haldið sögðu talsmenn ríkisstjórnarinnar að einungis væri um viðræður að ræða. Í því fólst að sjálfsögðu eins konar loforð um að ekki yrði af nokkurri sölu.

Ég hef nú spurt hæstv. ráðherra hvort hún geti sagt það hér fortakslaust að Landsbankinn verði ekki seldur áður en skýrslan kemur fram. Hæstv. ráðherra hefur svarað því með þeim hætti að hún telji mikilvægt að bankinn verði ekki seldur fyrr en svo sé, en getur hún fullyrt það? Getur hún fullvissað mig og aðra þingmenn um að Landsbankinn verði ekki seldur fyrr en öll kurl verða komin til grafar, fyrr en þingheimur hefur fengið tækifæri til að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar? Hún kvað ekki fortakslaust upp úr með það áðan. Hún sagði einungis að hún teldi það mikilvægt. En við vitum auðvitað að að tjaldabaki eru hörð átök milli Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu máli, og við vitum líka að Sjálfstfl. gerir það sem hann getur til að kúga Framsfl. í því. Það er mikilvægt fyrir okkur sem í þessum sal sitjum og störfum og það er mikilvægt fyrir þjóðina að það komi fram að Framsfl. og hæstv. viðskrh. sem fer með bankana muni sjá til þess að Landsbankinn verði ekki seldur fyrr en búið verði að leggja fram skýrslu Ríkisendurskoðunar. Getur hæstv. ráðherra fullvissað okkur um það?