Orka um sæstreng

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:41:30 (378)

2002-10-09 13:41:30# 128. lþ. 7.96 fundur 163#B orka um sæstreng# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Nú í morgun bárust fréttir af því í útvarpi að Landsvirkjun og norski olíurisinn Statoil og veitufyrirtækið Statnet hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um að kanna hagkvæmni þess að leggja sæstreng héðan sem gæti flutt 600 megavatta orku til Noregs. Það er nauðsynlegt fyrir þingið að iðnrh. upplýsi þingheim um þessi áform, hvernig staða mála er og jafnframt að gera þinginu grein fyrir því hvernig vinna stendur varðandi rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í landinu, forgangsröðun verkefna.

Núverandi áform um virkjanir og sölu rafmagns þýða í grófum dráttum að hugsanlega séum við með þessu nýtilkomna verkefni að ráðstafa allri nýtanlegri orku í landinu hvað varðar vatnsafl og jarðvarma, þeim 30 teravattstundum sem talið er í fljótu bragði að hægt sé að virkja í landinu. Auðvitað eru þessar 30 teravattstundir teygjanlegt hugtak en sé tillit tekið til náttúruverndarsjónarmiða telja margir að þetta sé talan. Það er því nauðsynlegt fyrir þingheim að fá að vita hvert hæstv. iðnrh. stefnir í þessu máli og um stöðu þessa nýja verkefnis, þ.e. flutnings á orku um sæstreng til Evrópu.