Orka um sæstreng

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:49:52 (382)

2002-10-09 13:49:52# 128. lþ. 7.96 fundur 163#B orka um sæstreng# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Málið var nú örlítið slitið í sundur. En það sem mér finnst slæmt í svörum hæstv. iðnrh. er að það kemur ekkert fram um stöðu vinnu um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir þingmenn að hér skuli vera sett upp og sett á sporið áform um uppbyggingu og nýtingu án þess að þingið hafi haft nokkra möguleika á því að forgangsraða hvernig fara á í orkunýtinguna í landinu. Þess vegna er það mjög mikilvægt að vinnu við þessa áætlun verði hraðað þannig að hið háa Alþingi eigi möguleika á því að hafa eitthvert val.

Því að ef menn ætla að halda áfram með þessum hætti og jafnvel að setja niður hugsanlegt orkuverð til að fara í slíka framleiðslu, núna nýjasta dæmið upp á 600 megavött, hver verður þá staða þingsins? Hún verður ákaflega slöpp, það gefur augaleið, því gróft reiknað má segja að hér sé verið að leggja drög að nýtingu á megninu af þeirri orku sem tiltæk er á auðveldan hátt í landinu. Það er því mjög mikilvægt að hæstv. iðnrh. upplýsi þingið um hvernig þessi mál standa hvað varðar vinnu við rammaáætlunina og hvenær við megum vænta þess að hafa eitthvað á blaði til þess að geta tekið afstöðu til þar að lútandi áður en lengra er haldið í því að ráðstafa eða gera plön um ráðstöfun orkulinda landsins til næstu örfárra missira.