Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:37:33 (418)

2002-10-10 10:37:33# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta eru mál sem þarf að ræða af yfirvegun en þetta eru líka mál sem kalla á að við öxlum ábyrgð öll saman. Sterk skilaboð voru í nefndaráliti með lögunum um málefni fatlaðra árið 1992 um að taka sérstaklega á í málum geðfatlaðra, þar biðu óþrjótandi verkefni og það var gert, herra forseti. Í kjölfarið var ákveðin sú stefnumörkun að veita sérstakt fjármagn í fimm ár til uppbyggingar áfangastaða, sambýla og annarra úrræða fyrir geðfatlaða.

Herra forseti. Í dag má segja að mesti þunginn hvíli á félagasamtökum sem sinna þýðingarmiklum stuðnings- og umönnunarverkum sem eru í boði í dag. Geðvernd, Geðhjálp og Rauði krossinn eru nöfn sem koma upp í hugann og ekki þarf að fjölyrða um hve þessi samtök inna þýðingarmikil verkefni af hendi. En það er ekki hægt að ýta ábyrgðinni yfir á frjáls félagasamtök. Það er okkar að axla þá ábyrgð að búa slíkum hópi sem geðfatlaðir eru í okkar samfélagi hinn besta aðbúnað.

Herra forseti. Ég hlýt að spyrja: Hvað líður stefnumörkun á hinum félagslega væng hjá þessari ríkisstjórn í málefnum geðfatlaðra? Hvernig má það vera að eftir átakið á árunum 1993--1997 hafi verið stoppað án þess að búið væri að ljúka þeim verkefnum eða sinna öllum þeim úrræðum sem við blöstu?