Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:39:30 (419)

2002-10-10 10:39:30# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Í dag er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og af því tilefni er ástæða til að huga að þeim þáttum sem betur mega fara í þjónustu við þá fjölmörgu einstaklinga sem hafa greinst með geðvandamál og eiga við þann sjúkdóm að stríða.

Greind ofvirkni hjá börnum hefur aukist á undanförnum árum og hefur verið reynt að bregðast við þessari greiningu og hegðun eða greindri ofvirkni hjá börnum og unglingum með margvíslegum aðgerðum. Tengist það bæði heilbrigðisþjónustu, skóla og félagsþjónustu. En því miður virðast menn að svo stöddu ekki hafa verið náð þeim tökum á þjónustunni að hún hafi skilað sér nægilega til allra. Þetta á sérstaklega við um unga pilta, drengi sem eru haldnir ofvirkni og komnir á unglingsár. Því miður er ein af mörgum afleiðingum ofvirkni og þá sérstaklega hjá ungum drengjum sú að hátt hlutfall þeirra leiðist gjarnan út í neyslu á áfengi eða ólöglegum efnum og eru margir hverjir upprennandi fíklar. Þetta er ástand sem oft og tíðum er hægt að sjá fyrir, þ.e. hvert stefnir. En við höfum ekki það kerfi, aðhald eða stuðning við þessa aðila til þess að forða þeim frá að lenda í þessu fari. Því vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. hvort eitthvað sé í undirbúningi nú þegar til að tryggja þetta net í kringum unga ofvirka pilta sem eiga við hegðunarvandamál og ofvirkni að stríða til að forða þeim frá því að lenda í fíkniefnaneyslu og félagslegum vanda.