Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:43:33 (421)

2002-10-10 10:43:33# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:43]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég held að í upphafi fundar sé viðeigandi að minnast alþjóðageðheilbrigðisdagsins og ég þakka fyrir það frumkvæði.

Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að bæta aðbúnað geðfatlaðra og mikið hefur verið unnið. En enn þá er margt ógert. Þetta er eins og með allt skipulag. Það þarf endurskoðunar við. Þarfir breytast, áherslur breytast og það þarf að koma til móts við þær.

Nú er yfirskrift dagsins: ,,Áhrif áfalla og ofbeldis á börn og unglinga``, og það er mjög viðeigandi yfirskrift. Í gær var fjárln. á fundi á Landspítalanum. Þar var m.a. farið yfir þá endurskipulagningu sem hefur farið fram á geðdeildum Landspítala -- háskólasjúkrahúss og þar var m.a. bent á að þær breytingar hafa leitt til bættrar aðstöðu fyrir geðfatlaða. Áherslur eru breyttar m.a. með því að færa meiri þjónustu yfir á göngudeildir.

Fyrir u.þ.b. tveim árum birtist skýrsla um stefnumótun í geðheilbrigðismálum. Það er viðamikil skýrsla sem við höfum mikið horft til þegar verið er að skoða mál geðheilbrigðisþjónustunnar í dag. Ég held að við eigum að draga hana fram enn og aftur til þess að skoða hvað þar er og hvað megi betur fara. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að styðja við bakið á frjálsum félagasamtökum sem sinna geðfötluðum. Tek ég þar sérstaklega fram Geðhálp og Geðrækt en Geðræktarverkefnið hefur núna verið starfandi í nokkur ár. Það hefur skipt miklu máli og breytt miklu fyrir þennan málaflokk.