Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:45:14 (435)

2002-10-10 11:45:14# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um skattfrelsi lágtekjufólks. Þar segir að stefnt skuli að því að þeir sem hafi tekjur undir 90 þús. kr. á mánuði verði skattfrjálsir.

Í þeim hópi er náttúrlega fjöldi aðila. Það eru, eins og nefnt hefur verið, bótaþegar en þar eru líka námsmenn sem fá námslán sem ekki eru skattskyld og eru með miklu meiri ráðstöfunartekjur. Þar eru líka heimavinnandi einstæðir foreldrar sem eru í tengslum við aðila, það heitir víst tengsl, það heitir ekki sambúð lengur þegar fólk vill ekki búa saman af því að það ætlar að spara sér bætur og skatta eða fá aukabætur, og þar eru líka skattsvikarar sem telja fram hin svokölluðu vinnukonuútsvör. Af þessu fólki ætla menn að fella skatta. Síðan eru líka unglingar sem eru nýbyrjaðir á vinnumarkaði því að það eru nánast engir aðrir á lágmarkslaunum verkalýðshreyfingarinnar, sem eru 90 þús. kr., nema unglingar sem eru nýbyrjaðir í vinnu.

Í tillögunni er sagt að þetta kosti ríkissjóð 1 milljarð og ef það væri lausnin þá hefði ég ekkert á móti þessu. En það er ekki lausnin. Vegna þess að ef við ætlum að láta mann sem er með 90 þús. kr. eða lægra vera skattfrjálsan og síðan er annar sem þénar 91 þús. kr., þúsundkalli meira, á hann þá að fara að borga 7 eða 8 þús. kr. í skatta? Á hann að tapa 7 þús. kr. á því að hafa þénað þúsundkall? Nei, væntanlega ekki. Það þarf því að lækka skattana á honum líka. Og þá kemur maðurinn með 92 þúsundkallinn. Það verður væntanlega að lækka skattana á honum líka o.s.frv. Þetta er miklu stærra mál.

Ef menn ætla að gera þetta með því að hækka persónuafsláttinn einan sér þá kostar hækkun á persónuafslætti eða skattfrelsismarki um þúsundkall, ef við hækkum skattleysismörkin um þúsundkall græðir hver launþegi í landinu 380 kr. á mánuði en ríkissjóður tapar 1 milljarði á ári fyrir hvern þúsundkall sem skattleysismörkin eru hækkuð. Þetta er ekki einfalt mál.

Hins vegar ef menn ætla að fara þá leið, sem mér sýnist menn ætli að reyna að gera, að láta þau deyja út á einhverju tekjubili, segjum upp í 120 þúsundkall eða eitthvað svoleiðis, eða 110 þúsundkall, þá eru menn að auka enn frekar jaðarskatta í dæminu, jaðarskatta sem aðilar vinnumarkaðarins hafa bent á að séu fátæktargildrur sem gerir fólk að fátæklingum, fólk kemst ekki upp úr þeirri gildru. Vegna þess að ef það bætir við sig í tekjum eitthvað eilítið, þá er það allt tekið og rifið af í skatta og lækkun bóta. Þetta er akkúrat sá vandi og við erum að búa til fátæklinga með slíku kerfi. Ég segi því, herra forseti, að þetta frv. er í ætt við lýðskrum.

Síðan er rætt um skatta og fjárhagsaðstoð og ég spyr: Maður sem fær fjárhagsaðstoð og er með tekjur upp á 90 þús. kr. og annar, við skulum segja einstæð móðir eða einstæður faðir sem er að skúra á kvöldin og er líka með 90 þús. kr., af hverju ætti sá að borga skatta en ekki sá sem fær fjárhagsaðstoðina? Þessir einstaklingar með nákvæmlega sömu tekjurnar. Hvaða hugsun er á bak við þetta? Ég næ því ekki. Og að bætur séu einhvern veginn sérstaklega meðhöndlaðar í tekjum. Tekjur eru tekjur þegar þær eru komnar inn í heimilið, peningar til ráðstöfunar eru peningar til ráðstöfunar hvort sem þeir heita bætur, fjárhagsaðstoð, launatekjur, vaxtatekjur eða hvað það nú er. Ég get því ekki fallist á það að fjárhagsaðstoð sé einhvern veginn undanskilin sköttum.

Síðan er annað mál, herra forseti, sem ég vildi nefna. Hvernig stendur á því að menn líta svo niður á fólk sem er með lágar tekjur að þeir treysta því ekki til að taka þátt í kostnaðinum við samfélagið? (ÖJ: Taka þátt í...?) Taka þátt í kostnaði við samfélagið, taka þátt í velferðarkerfinu. Segja við fólk: Þú ert svo óburðugur að þú getur ekki tekið þátt í velferðarkerfinu. Þú átt ekki að borga neitt. Þetta er líka sjónarmið. Þetta er spurning um sjálfsvirðingu þeirra sem eru með lágar tekjur.

Svo er hitt, herra forseti, eftir því sem skattar eru hækkaðir eða prósentan, þeim mun lægri verða tekjur ríkissjóðs. Þetta er svo merkilegt. Ef tekjuskatturinn væri 100% á allar tekjur þá mundi enginn vinna og tekjur ríkissjóðs yrðu núll. Þetta er þekkt fyrirbæri. Og þetta gerðist einmitt þegar fjármagnstekjuskatturinn var lækkaður úr 48% niður í 10% að tekjur ríkissjóðs sjöfölduðust, af því að það seldi enginn eignir þegar helmingurinn fór í skatta. (Gripið fram í.) Þetta er einmitt það sem menn hafa bent á að mikil skattlagning lækkar tekjur ríkisins. Og nú er spurningin: Viljum við fá tekjur inn í ríkissjóð til þess að standa undir velferðarkerfinu eða viljum við ná í þessa andskota sem hafa háar tekjur? Eru þetta öfundarskattar? (Gripið fram í: ... lækka á lágtekjufólki.) Vissulega, en það skiptir engu máli fyrir þá sem borga enga skatta. Auðvitað eigum við að reyna að stefna að því að lækka skatta sem allra mest og hafa skattana sem flatasta.

Ég held að það sé annað vandamál sem við glímum við. Það eru hjón sem eru með þrjú börn undir sjö ára aldri. Hvað gerist með slíka fjölskyldu, hafa menn skoðað það? Þegar fólk er með þrjú börn undir sjö ára aldri þurfa þau öll barnaheimilispláss ef makarnir vinna báðir, sem þýðir það að annar makinn verður að vera heima. Það kostar 60 þús. kr. á mánuði að hafa þrjú börn á barnaheimili og það borgar sig engan veginn að báðir makarnir vinni. Þá gerist það að yfirleitt er það konan, því miður, sem situr heima og annast þessi þrjú börn. Hvað gerist þá? Þá þarf einn aðili að vinna fyrir fimm munnum. Og hvað þýðir það? Hann verður að hafa mjög háar tekjur. Það þýðir ekkert fyrir hann að vinna fyrir minna en 200 þúsundkall á mánuði hvernig sem hann fer að því. (Gripið fram í.) Og þá lendir hann í miklum sköttum. Ef hann skyldi nú fá 300 þús. kr., sem er nauðsynlegt, þá lendir hann í hátekjuskatti og fjölskyldan fær engar barnabætur og engar vaxtabætur eða húsaleigubætur af því að það er allt saman skert. Ég hugsa að menn ættu að skoða þetta dæmi ekki síður en það dæmi sem menn eru að nefna hérna. Það eru nefnilega orðin mjög erfið lífskjör hjá fólki sem hefur mjög góðar tekjur en er eitt að sjá fyrir stórri fjölskyldu.

Ég er alveg sammála því að það væri mjög gott og þarft að taka inn í umræðuna endurskoðun á skattkerfinu en þá í allt aðra veru, lækka skattana, herra forseti, og reyna að hemja útgjöld ríkissjóðs sem vaxa og vaxa með sífellt auknum kröfum, sérstaklega þeirra aðila sem hér eru að leggja fram frv. um auknar bætur og bætur til fólks sem jafnvel er hátekjufólk, eins og umræðan um öryrkjadóminn sýndi berlega.