Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:53:13 (436)

2002-10-10 11:53:13# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf jafnfróðlegt að hlýða á helsta talsmann Sjálfstfl. í trygginga- og velferðarmálum.

Mig langar til að spyrja hvort hann sé andvígur því að sett verði á fót nefnd sem kanni hvaða leiðir eru færar í þessum efnum, að bæta kjör þeirra sem eru með allra lægstu tekjurnar í þjóðfélaginu í gegnum skattkerfið. Út á það gengur þáltill.

Varðandi tilraunir til að búa til fátækt, eins og hv. þm. orðaði það, þá var ég að leggja áherslu á að atvinnulaus maður er með í bætur 73.765 kr. Sá maður er dæmdur til fátæktar. Öryrki sem ekki getur aflað neinna atvinnutekna getur hæst fengið 87.015 kr. Nú er það svo að Sjálfstfl., og þar á meðal hv. þm. Pétur H. Blöndal, hefur staðið gegn hækkunum á þessum bótum, atvinnuleysisbótunum og örorkubótunum. Og nú talar hann um tilraunir til að lækka skatta á þessa aðila sem tilraunir til að búa til fátækt. Vill hann skýra örlítið hvað hann á við?