Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:00:37 (443)

2002-10-10 12:00:37# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf jafngaman af því þegar menn segja: ,,Sannleikurinn er sá eða staðreyndin er...`` Það er eins og þeir segi ella ekki sannleika eða staðreyndir.

Þarna er einn misskilningur. Ég var að tala um mánaðarlaun. Ég var að tala um mánaðarlegan persónuafslátt en ekki árlegan. (JÁ: Mánaðarlegan?) Já. Ef þetta er árlegur persónuafsláttur er þetta allt annað mál. Það má lækka hann um þúsundkall, og þá lækka tekjur ríkissjóðs um 150 millj., hárrétt hjá hv. þm. En þá erum við að tala um miklu lægri tölur. Þá erum við að tala um kannski 700 kr. á mánuði. Það er miklu lægri tala þannig að við verðum að halda okkur við það að tala annaðhvort um mánaðarlegar eða árlegar tölur. Ef mánaðarlegur persónuafsláttur er lækkaður um þúsundkall fyrir hvern Íslending eru það 12 þús. kr. á ári. Þá tölu þarf að margfalda með fjölda skattgreiðenda og þá fær maður tæpan milljarð.