Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:05:45 (448)

2002-10-10 12:05:45# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:05]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Lágtekjufólki er sýnd fullkomin lítilsvirðing með þeim ummælum sem hv. þm. ber á borð. Hv. þingmanni svelgist ekki á því að búa hér til skattaparadís fyrir fjármagnseigendur og stórfyrirtækin með margra milljarða tekjutapi fyrir ríkissjóð. Á sama tíma svelgdist honum heldur ekki á því að skattpína lágtekjufólk. Og það er hneisa að bera á borð svona spurningu: Vilja menn ekki að láglaunafólk taki þátt í kostnaði við velferðarkerfið? Lágtekjufólk tekur þátt í því með því að borga 14--24,5% í virðisaukaskatt af matvælum sem það hefur ekki efni á að kaupa. Það er fullkomin lítilsvirðing við fólk hvernig hv. þm. talar, og að segja að hér sé bara um námsmenn að ræða og heimvinnandi fólk er heldur ekki rétt. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef hér frá kjararannsóknarnefnd voru 16.000 manns sem voru á vinnumarkaðnum með tekjur undir 90 þús. kr. fyrir fulla dagvinnu. Þetta er því fullkomin rökleysa sem hér er borin á borð fyrir láglaunafólk og ég hef skömm á þessum málflutningi.