Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:06:59 (449)

2002-10-10 12:06:59# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um skattaparadís. Það er rétt. Skattar hafa verið lækkaðir á fyrirtæki og fjármagnstekjur sem hefur gert það að verkum að þessir skattstofnar hafa vaxið svo um munar. Fólk flytur ekki lengur tekjurnar úr landi þegar það hefur miklar tekjur, hagnaður fyrirtækja er ekki fluttur úr landi eins og gerðist. Fyrirtækin flytja ekki sjálf starfsemina úr landi vegna skatta. Þau eru meira að segja farin að koma til baka til landsins og leggja ríkissjóði til tekjur. Og nú er það spurning mín til hv. þm.: Vill hún hafa háa skatta og engar tekjur ríkissjóðs þannig að við getum ekki staðið undir velferðarkerfinu? Þá væri allt atvinnulífið í dróma og engin fyrirtæki gætu borgað há laun. Hvort vill hv. þm. það eða að atvinnulífið sé í fullum blóma, fólk flytji arðinn heim, hafi hann hérna heima, borgi af honum skatt, leggi ríkissjóði til miklar tekjur, fyrirtækin geti borgað há laun og starfsmennirnir mikla skatta? Launin hafa hækkað sem aldrei fyrr í Íslandssögunni. Hvort vill þingmaðurinn þetta eða hitt, drómann?