Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:20:48 (454)

2002-10-10 12:20:48# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:20]

Kristján L. Möller (andsvar):

Ég hygg, herra forseti, að ég mundi gjarnan vilja hitta þann mann og taka hann með mér næst þegar ég fer í bíó og bjóða honum með ef 5 millj. kr. maður hefur ekki efni á að fara í bíó. Hvað má þá segja um aumingja fólkið sem er með strípaðar atvinnuleysisbætur, 75 þús. kr.? Heldur hv. þm. Pétur Blöndal að þeir aðilar hafi efni á að fara oft í bíó? Nei, ég frábið mér svona umræðu, herra forseti, eins og hér hefur komið fram.

Hv. þm. er enn þá að staglast á þessu bili, 90--91 þús. kr. Það er enginn vandi að búa til skattauppbót sem deyr út eftir því sem kemur nær þessum tölum. Það er enginn vandi að búa það til. Það hygg ég að stærðfræðingurinn Pétur H. Blöndal, hv. þm., geti gert og vilji sjá ef hann yfir höfuð vill fara þessa leið. En hv. þm. Pétur H. Blöndal er samkvæmur sjálfum sér í raun og veru og hefur bara á móti því að eitthvað sé verið að lagfæra skattastefnu gagnvart lágtekjufólki. Hann vill með öðrum orðum að ef eitthvað yrði gert þá verði sama skattkerfisbreytingin gerð fyrir fólk með undir 90 þús. kr. á mánuði eða milljón á ári og fólk með 5 eða 10 milljónir. Þessu er ég bara algjörlega ósammála.

Það er grundvallaratriði og ég hef sagt að þetta er bráðaaðgerð. Fyrsta aðgerð er að fara í þá breytingu sem kostar ríkissjóð minnst og gagnast þeim sem hafa það verst í þjóðfélaginu, þeim þjóðfélagshópum sem við erum hér að ræða um og hv. þm. sagði í frægri þingræðu einu sinni þegar við vorum að ræða um starfskjör aldraðra og öryrkja að það væri ekki endilega að tryggingabæturnar væru svo lágar heldur óregla annaðhvort vegna áfengis, eiturlyfja eða vegna fjármálaóreiðu sem skapaði mesta vandann hjá þessu fólki.

Man hv. þm. Pétur H. Blöndal eftir þeim umræðum sem voru ákaflega ósmekklegar inn í þær umræður sem þá voru um kjör og við skulum segja ,,starfsskilyrði`` aldraðra og öryrkja, af því að það er best að tala fyrirtækjamál við hv. þm. Pétur H. Blöndal?