Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:22:55 (455)

2002-10-10 12:22:55# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það væri efni í heilan þátt að ræða um þau ummæli sem voru rangtúlkuð á sínum tíma og ég sagði ekki, þannig að ég ætla ekki að fara nánar út í það.

En varðandi 91 þúsundkallinn og það sem ég hef kallað hérna lýðskrum. Það er náttúrlega ekkert annað en lýðskrum þegar menn segja það að þessi hópur manna borgi einn milljarð og lækka megi skatta á þá, búið. Það er bara ekkert búið vegna þess að þeir sem eru með 91 þús. kr. verða þá beittir miklum rangindum ef þeir ættu að fara að borga 8 þús. kr. í tekjuskatt fyrir þennan eina þúsundkall sem þeir hafa meira í tekjur. Það er ekki hægt. (Gripið fram í.) Þannig að menn verða að láta þetta deyja út og stærðfræðilega er það ekki hægt nema með því að auka jaðarskatta. Þetta veit hver einasti maður sem eitthvað hefur kynnt sér skattkerfið. Það veit hver einasti maður að það eykur jaðarskatta ef menn ætla að láta svona breytingu deyja út, eða þá að hún gengur yfir alla. Og þá fær hátekjumaðurinn náttúrlega slíka bót líka.

En talandi um lýðskrum þá stendur á síðu 4 í þessu plaggi, þar er talað um framfærslukostnað hjóna með tvö börn, 108 þús. kr., Ráðgjafarstofan áætlar 140 þús. kr. o.s.frv. Síðan stendur:

,,Ef miðað er við þá framfærsluþörf vantar um 50 þús. kr. til að lágmarkslaunin dugi fyrir brýnustu nauðþurftum fjögurra manna fjölskyldu.``

Hvað eru menn að segja? Menn gleyma öllu kerfinu í kring. Menn gleyma vaxtabótum, húsleigubótum, menn gleyma barnabótum í skattkerfinu, menn gleyma öllu vísvitandi og viljandi. Þetta er lýðskrum og ekkert annað. Þetta er lýðskrum og þessi tillaga öll er lýðskrum en ég væri til í að styðja hana ef henni yrði breytt og skoðuð yrðu rekstrarskilyrði skattgreiðenda á Íslandi almennt, og ég skora á hv. nefnd að gera það.