Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:24:42 (456)

2002-10-10 12:24:42# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:24]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vissi að þegar við færum að tala um rekstrarskilyrði aldraðra og öryrkja að þá mundi hv. þm. aðeins kveikja á perunni og koma til umræðu betur í þessu máli. Hann kýs hins vegar að tala hér um hugmynd sem hreyft er til þess að finna leiðir í gegnum skattkerfið í eftiráálagningu eða fyrir fram eða með sérstakri skattauppbót til þeirra sem eru undir 90 þús. kr., það kallar fulltrúi Sjálfstfl., sá eini sem hefur komið hér í þessa umræðu, talsmaður flokksins í skattamálum og velferðarmálum, lýðskrum. (PHB: Ég er fulltrúi skattgreiðenda.) Og fulltrúi skattgreiðenda. Þetta kallar hv. þm. lýðskrum.

Ég skal koma að því kannski örlítið seinna, í seinni ræðu minni, við skulum ræða það þá betur, vegna þess að ég heyri það að við erum búin að finna hér tungutakið til að ræða um vanda aldraðra og öryrkja með því að tala um rekstrarskilyrði þeirra. Við getum farið að skiptast á skoðunum öðruvísi en hér hefur verið.

Þetta er ekki lýðskrum, herra forseti, þetta eru beinar tillögur jafnaðarmanna á Alþingi sem vilja láta kanna þessa leið, hvaða leið er færust og best í gegnum skattkerfið til að afnema skatta sem ríkissjóður hefur og er að fá af þessu lágtekjufólki, þann milljarð sem er að koma frá þessu lágtekjufólki og ríkisstjórnin er að hæla sér af núna í þessu gula sólskinsfjárlagafrumvarpi.

Ég ætla segja hér rétt í lokin, herra forseti: Það var ekki nein rangtúlkun fréttamanna á því sem hv. þm. sagði hér fyrir einu eða tveimur árum í umræðum um aldraða og öryrkja, þegar hann talaði um að flestallir hefðu það gott en það væru ansi margir sem hefðu það bágt vegna óreglu, annaðhvort vegna áfengis, eiturlyfja eða vegna fjármálaóreiðu. Þannig var umræðan afgreidd á þeim tíma af hv. þm. Pétri Blöndal, þannig var hún afgreidd. Og ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að það er skömm að því þegar hv. þm. lætur sér slík orð um munn fara á hv. Alþingi, hvernig hann talar um lágtekjufólk og þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu.