Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:27:03 (457)

2002-10-10 12:27:03# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:27]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að rifja það upp að þegar lög voru sett á Alþingi um staðgreiðslu skatta, sem reyndar hafa verið betrumbætt nokkrum sinnum síðan, þá var ævinlega tekið fram og lá í rauninni til grundvallar í umræðunni að frítekjumörk yrðu hækkuð í takt við laun.

Nú er staðan sú að þó að við förum aðeins aftur til 1995 þá ættu frítekjumörk, ef þau hefðu hækkað í takt við laun, að vera 34% hærri en þau eru í dag. Þá leið hefur Sjálfstfl. ekki viljað fara. Hann hefur horft á það með augun rauð að lágtekjufólk í landinu fengi einhvern sérstakan ábata af skattalækkunum. Hann hefur frekar viljað fara þá leið að lækka álögur á fyrirtæki í landinu og lækka álögur á hátekjufólk og þeirra sem meira bera úr býtum. Og það hafa verið frá því að ég byrjaði hér á Alþingi og síðast á síðasta ári, minnir mig, samþykkt lög í þá veru.

Ég var ekki samþykk þeirri leið en hún var farin og hún hefur verið samþykkt á Alþingi og hún hefur haft sínar afleiðingar fyrir afkomu þeirra sem minnst bera úr býtum. Við sjáum þær afleiðingar þegar við lítum á fjölda þeirra sem sækja til hjálparstofnana í hverjum einasta mánuði til að hafa ofan í sig, fólk sem þarf að lifa á framfærslu hins opinbera. Það hljóta að vera þung spor.

Vegna þess að ég hef fylgst með þessu eins og fleiri, þá leggur Samfylkingin fram þessa tillögu í þeirri von um að þetta gæti orðið sáttatillaga, jafnvel þó að skattleysismörkin yrðu ekki almennt hækkuð eins og var vilji okkar margra hverra, þá yrði a.m.k. reynt að finna einhverjar leiðir til að það fólk sem ber svona lítið úr býtum raunverulega, sem er stór hópur t.d. aldraðra vegna þess að því miður bárum við ekki gæfu til að koma lífeyrissjóðamálum okkar nægilega snemma í það horf að þeir sem eru aldraðir í dag geti lifað áhyggjulaust af því sem þeir bera úr býtum úr lífeyrissjóðum. Það er um helmingur aldraðra sem er undir lágmarkslaunum í dag og mjög stór hópur tiltölulega, sérstaklega aldraðra kvenna, sem hefur ekkert sér til framfærslu nema lægstu ellilaun. Mér þykir ekki gott að horfa upp á þetta. Mér þykir heldur ekki gott að vita til þess að það er hópur öryrkja í landinu, þó að sem betur fer séu það ekki allir öryrkjar, sem hafa ekki einu sinni 90 þús. kr. á mánuði sér til framfærslu og þurfa að skipa þessar biðraðir hjá hjálparstofnununum.

Tillaga sú sem er hér lögð fram er um að hæstv. fjmrh., sá merki maður, skipi nefnd sem hafi það verkefni að finna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega tekjuskatt lágtekjufólks og lífeyrisþega sem hafa tekjur undir lágmarkslaunum.

[12:30]

Við gerum ráð fyrir því að með þessari tillögu sé sett undir þann leka sem hv. 10. þm. Reykv., Pétur Blöndal, nefndi hér sérstaklega, þ.e. að þarna væri verið að ívilna skattsvikurum. Ég reikna með að nefnd vitra manna og ábyrgra skipuð af hæstv. fjmrh. mundi finna leiðir til að finna það fólk sem virkilega þyrfti á þessu að halda. Ég treysti því. Það þarf að leita leiða, eins og hérna er tekið fram, til að endurgreiða þann skatt sem tekinn er af fólki sem allra lægstar hefur tekjurnar, annaðhvort með sérstökum frádrætti frá tekjum eða öðru móti.

Ég verð að segja að síðan ég settist á Alþingi þá hafa verið barðar bumbur, síðast í stefnuræðu hæstv. forsrh., þar sem fagnað er alls konar skattaívilnunum fyrir fyrirtæki og hátekjufólk sem hæstv. ríkisstjórn hefur samþykkt á undanförnum árum. Mér finnst kominn tími til að reyna að finna sérstaklega það fólk sem þessar ráðstafanir hafa bitnað á því þær bitnuðu á þessu fólki þegar tekin var sú ákvörðun einhvers staðar í lokuðu bakherbergi að framfylgja ekki loforði um að láta frítekjumörk hækka í takt við laun, heldur koma fram öðrum og annars konar skattaívilnunum sem kæmu öðrum til góða.

Ég vil líka minna á annað atriði sem sífellt var hamrað á þegar lög voru sett um staðgreiðslu. Þá átti ekki að vera sérstakur frádráttur fyrir börn á framfærslu en í staðinn átti fólk að fá barnabætur sem til að byrja með voru þokkalega ríflegar. Á undanförnum árum hefur verið höggvið í þessar barnabætur alveg stöðugt og nú er svo komið að þær eru varla til að tala um og meira að segja er búið að koma einhvers staðar inn reglugerðarbreytingu þannig að fólk sem eignast tvíbura, t.d. í mars, fær ekki barnabætur fyrr en í febrúar á næsta ári og þá mánuð fram í tímann í hvert sinn. Það er því næstum ár bótalaust. (Gripið fram í: Hvað segir fulltrúi skattgreiðenda ...) Þessi reglugerðarbreyting hefur verið gerð einhvers staðar í leyni án þess að nokkur viti af. Ég verð að segja að mér finnst til dæmis að þetta sé mjög (Forseti hringir.) brýnt að laga sem fyrst.