Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 13:31:08 (460)

2002-10-10 13:31:08# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[13:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fram hafa farið fróðlegar umræður í morgun um þessa þáltill. Hún snýst um það að setja á nefnd sem eigi að reyna að finna leið til þess að bjarga fólki úr fátæktarklemmunni sem vissulega margir eru í. Flestir þeir sem eru auðvitað í svona klemmu eru undir þeim tekjumörkum sem þarna eru nefnd.

Það er auðvitað eðlilegt að menn deili um hvaða leiðir eigi að fara að þessu marki. Hins vegar kom mér svolítið á óvart að menn skyldu deila um hvort stefna ætti að þessu marki. Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að sjá að í velferðarþjóðfélagi eins og er á Íslandi eigi menn að sjá til þess að fólk hafi lágmarksframfærslu. Og með þessari tillögu er eingöngu verið að tala um slíka hluti. Verið er að tala um einhvers konar tryggingu ráðstöfunartekna til fólks þannig að það geti boðið sér og sínum mannsæmandi framfærslu.

Auðvitað er, eins og ég sagði, eðlilegt að menn greini á um það hvaða leið eigi að fara að þessu marki. Ég tel að skoða ætti mjög alvarlega að hækka persónuafsláttinn, einfaldlega vegna þess að það flækir ekki kerfið verði það gert. Mér þykir verra að menn skuli hafa kosið, í umræðunni sem hefur farið fram um persónuafsláttinn og frítekjumarkið, að slá ryki í augu fólks með alls konar tölum í þessu sambandi. Ef menn hækka persónuafsláttinn er hver þúsundkall sem hann hækkar á ári þúsundkall og ekkert annað því að skatturinn er lagður á og persónuafslátturinn er síðan dreginn frá. Ekki þýðir að koma með einhverjar tölur sem eingöngu eru fundnar út frá því hvað ríkissjóður muni lenda í að missa í tekjum heldur verða menn að hafa alveg samhengi í þessum hlutum.

Ég tel að vegna þess að um er að ræða mjög háar tölur --- ef við ætlum að koma til móts við þennan hóp sem við erum að tala um með því að hækka persónuafsláttinn hækkum við auðvitað persónuafsláttinn fyrir allan hópinn, ekki bara þessi 10% skattgreiðenda sem í raun er verið að tala um í þessari tillögu --- þurfi auðvitað á móti að hækka aðra skatta. Það er ekki verið að tala um einhverja heildarlækkun skatta heldur að færa skattbyrðina til. Ég tel að það sé út af fyrir sig ekki annað en tæknilegt vandamál.

Á undanförnum árum hafa menn þvert á móti talið það hlutverk sitt að hækka skatta á lágtekjufólk með því að láta persónuafsláttinn ekki halda í við verðlagið, og lækka síðan skattprósentuna á þeim sem kemur auðvitað helst þeim til góða sem mestar hafa tekjurnar. Sú stefna hefur verið uppi. Menn lækka síðan skatta á fyrirtæki og hafa fjármagnstekjuskatt lægri hér en fyrirfinnst á byggðu bóli. Auðvitað væri hægt að dreifa þeim álögum sem yrðu af því að hækka persónuafsláttinn sem allir græða á, ekki bara þeir sem eru með lægstu launin. Þeim byrðum væri hægt að dreifa á hina ýmsu skattstofna og rétta af vitleysuna sem komin er, t.d. þennan óskaplega mismun sem orðinn er á skattprósentunni milli þeirra sem eru með eigin rekstur og fólks sem vinnur og borgar skatta sem venjulegir skattgreiðendur. Ég held að þetta sé eðlilegasta leiðin núna, og þess vegna vex mér ekkert í augum þó að hverjar 10 þús. kr. sem persónuafslátturinn yrði hækkaður um kosti ríkissjóð umtalsverða fjármuni, þ.e. eins og sagt er frá þegar hæstv. fjmrh. eða hv. þm. Pétur Blöndal tala um hlutina. Ég tel að ekki eigi að tala þannig um þá. Ég tala um að færa skattbyrðina til en ekki láta hana gufa upp eins og þeir gera þegar þeir ræða þessi mál.

Til að reyna að koma umræðunni aðeins upp úr þessum hjólförum hef ég lagt fram fyrirspurn í þinginu til fjmrh. um hver hin raunverulegu áhrif hækkunar skattfrelsismarkanna eða persónuafsláttarins yrðu. Það er búið að dreifa þeirri fyrirspurn hér og ég vonast til að svar fáist við henni innan tíðar þannig að það þurfi þá ekki að deila um það lengur hver áhrifin af þessu yrðu.

Til er önnur leið í þessu máli. Mér finnst að vel megi skoða hana. Hún er sú að hverfa frá þessu blandaða kerfi sem við erum núna með og skoða þann möguleika að búa til flata skattprósentu að stærri hluta en nú er og hækka þá bætur á móti til að tryggja þessa afkomu sem við auðvitað verðum og eigum að tryggja láglaunafólki í þessu landi og þeim sem eiga kannski ekki möguleika á tekjum. Ég útiloka þá leið ekki og mér finnst ástæða til að menn skoði hana í þessu samhengi.

Ég tel að það eigi að fara eftir þessari tillögu. Ég legg eindregið til að Alþingi samþykki hana og ég tel að nefndin eigi að hafa alla þessa möguleika undir sem hér hafa komið upp í umræðunni. Ég legg eindregið til að hann verði skoðaður gaumgæfilega, þessi síðasti möguleiki sem ég nefndi, að menn hverfi frá blöndun og fari yfir í að hafa skattprósentuna flatari, á stærra svæði en nú er, og hverfa á móti frá bótum sem menn þurfa ekki ef þeir hafa hærri tekjur.