Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 14:16:02 (470)

2002-10-10 14:16:02# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem farið hefur fram á þessum degi um skattfrelsi lágtekjufólks. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Ögmundi Jónassyni, 13. þm. Reykv., og Guðjóni A. Kristjánssyni, 4. þm. Vestf., sem lýstu stuðningi flokka sinna við þetta mál. Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að enginn stjórnarliði hefur séð ástæðu til að sitja undir þessari umræðu, hvað þá að fara í ræðustól, nema Pétur Blöndal, talsmaður sjálfstæðismanna.

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafði uppi alveg makalausan málflutning í ræðum sínum og það er alveg ljóst að þeir sem hafa hlýtt á þennan málflutning hafa heyrt að hér hefur verið tekist á um grundvallaratriði í þjóðfélaginu sem er sanngirni og réttlæti í skattkerfinu og eðlileg og sanngjörn skipting tekna í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Allir ættu að geta verið sammála um að enginn á að þurfa að búa við það eða una því að eiga ekki fyrir nauðþurftum. En því miður, herra forseti, eins og við höfum farið í gegnum hér í dag, búa allt of margir við það að eiga ekki fyrir nauðþurftum frá degi til dags.

Það var auðvitað makalaust að hlusta á hv. þm. Pétur Blöndal í morgun þegar hann spurði hvort menn vildu ekki að láglaunafólk tæki þátt í kostnaði við að halda uppi velferðarkerfinu. Hér var hv. þm. að tala til fólks sem á oft og tíðum ekki fyrir matnum sínum en er gert að greiða 10--11 þús. kr. á mánuði í skatt til ríkissjóðs og sveitarfélaga af sultarlaunum sínum. Þá gleymdi hv. þm. því auðvitað að þetta fólk greiðir vissulega skatt þótt ekki sé verið að skattpína það í gegnum tekjuskattskerfið með því að greiða háan skatt af nauðþurftum, bæði af matvælum og öðrum nauðsynjavörum.

Hv. þm. Pétur Blöndal hafði mörg orð um að alveg væri nauðsynlegt að lækka verulega skatta á fjármagnseigendur og fyrirtæki vegna þess að það mundi skila meiru í ríkissjóð en þegar verið væri að skattpína fyrirtækin eða fjármagnseigendurna. Það mætti auðvitað líka heimfæra þetta á láglaunafólk ef það byggi ekki við svona skammarlega lág laun í þjóðfélaginu. Það er öllu þjóðfélaginu til skammar að bjóða stórum hluta fólks upp á 90.000 kr. laun, og ef ekki væri verið að skattleggja þetta fólk gæti það auðvitað keypt meira og borgað meiri virðisaukaskatt til samfélagsins. Ég held að það sé alveg staðreynd, herra forseti, að lágu launin í þjóðfélaginu eru orðin vandamál þegar fólk getur ekki keypt brýnustu nauðþurftir.

Mikið hefur verið rætt um lífeyrisþega, aldraða og öryrkja í þessari lotu enda býr stór hluti þeirra við það að þurfa að greiða skatt af lífeyri sínum sem hann gerði ekki á árinu 1995. Viss hópur hefur gert það eftir að þessi ríkisstjórn tók við, og hér hefur verið farið nokkuð yfir kjör þeirra einstaklinga. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt, hverju sem þessi ríkisstjórn heldur fram, að kjör þeirra hafa dregist verulega aftur úr kjörum annarra þjóðfélagshópa, og þetta er fólkið sem hefur ekki fengið sinn hluta af góðærinu. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem ég óskaði eftir fyrr á þessu ári, kom í ljós að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hafði aukist um rúm 11% á árunum 1995--2001 en kaupmáttur lágmarkslauna hafði aukist á sama tímabili um rúm 42%. Aukning á kaupmætti lágmarkslauna er því 28% umfram aukningu á kaupmætti lífeyris- og tekjutryggingar á árabilinu 1995--2001. Það er ástæða til að draga þetta hér fram og halda til haga þeirri réttlátu kröfu sem Öryrkjabandalagið setur fram á Evrópuári fatlaðra 2003 að a.m.k. verði komið til móts við þá kröfu Öryrkjabandalagsins að lífeyrisgreiðslurnar haldi í við launavísitöluna. Núna vantar 7.000 kr. upp á að það gerist.

Það er líka ljóst að frá 1995 til 1. okt. 2000 hefur grunnlífeyrir og tekjutrygging hækkað um nálægt 25% en launavísitalan hins vegar um 41,5% á sama tíma. Það er þessi munur sem Öryrkjabandalagið talar núna um fyrir hönd félaga sinna og mælist til þess að ríkisstjórnin komi til móts við og bæti þeim það sem þar vantar upp á.

Mér fannst alveg makalaust að hlusta á fulltrúa stjórnvalda halda því fram í fréttum í gær að kaupmáttur lífeyris haldi nú í við kaupmátt lágmarkslauna. Þetta er auðvitað fjarstæða. Og útreikningarnir sem stjórnvöld beita, og ekki í fyrsta sinn, eru að taka allar lífeyrisbætur, hverju nafni sem þær nefnast --- hæstu lífeyrisbætur --- og reikna út frá þeim kaupmáttinn. Og hvað eru margir ellilífeyrisþegar, aldraðir og öryrkjar með alveg fullar bætur, þ.e. líka með sérstaka heimilisuppbót? Ellilífeyrisþegarnir eru 387 og öryrkjarnir 514. Fjöldi elli- og örorkulífeyrisþega skiptir auðvitað þúsundum, þeir eru 20.000--30.000, en innan við 1.000 bótaþegar eru með alveg fullar bætur og út frá þeirri tölu reikna síðan stjórnvöld að kaupmáttur þeirra sé sá sami og lágmarkslauna. Þetta er auðvitað óboðlegur málflutningur.

Ég vil ræða skattamálin í víðara samhengi en út frá skattlagningu á lágtekjufólk vegna þess að hér hefur verið spurt hvar taka eigi tekjurnar til að mæta meintu skattatapi ríkissjóðs ef lágtekjufólk yrði ekki skattlagt.

Fyrst þeirri spurningu er varpað fram er full ástæða til að fara í örstuttu máli, herra forseti, yfir skattatillögur ríkisstjórnarinnar sem voru samþykktar hér fyrir líklega ári, samþykktir sem leiddu til verulegs tekjutaps ríkissjóðs. Og hverjir fengu þær skattaívilnanir og skattalækkanir sem þá voru uppi á borðinu? Það voru aðallega skjólstæðingar Sjálfstfl., þeir sem eiga fjármagnið og stórfyrirtækin í landinu. Þar var farið út í að lækka skattprósentuna á fyrirtæki úr 30% í 18% og ríkisskattstjóri hélt því þá fram að það mundi leiða til 3,7 milljarða kr. tekjutaps hjá ríkissjóði. Fjmrn. hélt því fram að það væri 2,7 milljarða kr. tekjutap. Og nú segja fjárlögin að þetta þýði á næsta ári að fyrirtækin greiði 2,2 milljörðum kr. minna í samneysluna en áður meðan einstaklingarnir greiða 5 milljörðum kr. meira.

Svo leyfa menn sér að barma sér mjög yfir því að eitthvert tekjutap geti orðið hjá ríkissjóði með því að létta sköttum af lægst launaða fólkinu.

Skattkerfið er nefnilega orðið vandamál í þessu þjóðfélagi, og tilfærslan í skattkerfinu ekki síst. Það er orðinn yfir 20% munur á skatthlutfalli milli skatta sem lagðir eru á laun og fjármagn og eignir í þjóðfélaginu. Skattbyrðin hefur verið færð af fjármagni og eignum yfir á vinnuafl, launatekjur, bætur og lífeyri. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir. Og staðan sem komin er upp er mjög hættuleg, að ekki sé talað um hvað hún er ósanngjörn.

Þessar skattabreytingartillögur ríkisstjórnarinnar á sínum tíma urðu til þess að sprenging varð í fjölda og aukningu á einkahlutafélögum vegna þess að menn sáu skattahagræðið af því að nýta sér þessar skattabreytingar sem ríkisstjórnin stóð fyrir. Það er ástæða til að rifja upp hér --- af því að spurt er hvar Samfylkingin ætli að taka peninga til þess að lækka skatta á lágtekjufólki --- að Samfylkingin lagði þá til að tekjuskattur á fyrirtæki yrði aðeins lækkaður úr 30% í 25% í staðinn fyrir 18%. Þótt farin hefði verið sú leið að lækka skatta á fyrirtæki einungis niður í 25% hefðum við engu að síður staðið betur, og samt hefðu fyrirtæki hér á landi staðið betur skattalega séð en önnur fyrirtæki. Innan OECD-landanna hefðu skattar á fyrirtæki verið lægstir á Íslandi þó að ekki hefði verið gengið svo langt að fara niður í 18%. Og það að fara með skattana á fyrirtækjum niður í 25% hefði kostað ríkissjóð 1,1 milljarð í staðinn fyrir 2,7 milljarða tekjuskattslækkun á fyrirtækin samkvæmt tillögum stjórnarflokkanna. Þar hefði sparnaðurinn orðið verulegur, 1,6--1,9 milljarðar. Við erum hér að ræða um tillögur sem kosta einn milljarð, þ.e. ef skattar á lágtekjufólk væru lækkaðir verulega, en stjórnarflokkarnir sjá ofsjónum yfir því.

Það er líka ástæða til að nefna það --- vegna þess að hv. þm. Pétur Blöndal hélt því fram að skattalækkanir á fyrirtæki og fjármagn mundu auka tekjur ríkissjóðs, skila sér betur í atvinnulífinu o.s.frv. --- að ríkisstjórnin fór auðvitað kolvitlausa leið. Hún lækkaði tekjuskatt á fyrirtækjum alveg niður í 18% en um leið hækkaði hún tryggingagjaldið sem hefur komið sér afar illa fyrir smá og meðalstór fyrirtæki. Vitlausari skattastefnu en stjórnarflokkarnir beittu sér fyrir í fyrra er því vart hægt að finna.

Við höfum farið hérna í gegnum skattana á fjármagnseigendur. Við í Samfylkingunni beittum okkur fyrir því að skoðað yrði að fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður úr 10% í 16% en það yrði gert með sérstöku frítekjumarki þannig að fjármagnstekjur einstaklinga að 100.000 kr. og hjóna eða sambýlisfólks að 200.000 kr. yrðu ekki skattlagðar. Miðað við álagningu síðasta árs hefði það þýtt að þeim hefði fækkað sem greiða fjármagnstekjuskatt úr 78.000 einstaklingum í 22.000 eða um 56.000 manns með þessari breytingu. Þá hefðum við verið að hlífa tiltölulega litlum og hóflegum sparnaði við fjármagnstekjum en sett aðeins meiri skatt á þá sem eiga hinar raunverulegu fjármagnstekjur, þ.e. hækkað úr 10% í 16%.

Og hvað hefði þetta þýtt, herra forseti, í tekjum fyrir ríkissjóð? Það hefði þýtt 1,7 milljarð í viðbótartekjur fyrir ríkissjóð ef við hefðum farið þessa leið, aukið lítillega skatta á hina raunverulegu stóreignamenn í þjóðfélaginu, hlíft hóflegum sparnaði og átt samt eftir 1,7 milljarða til þess t.d. að lækka skatta á lágtekjufólki. Þetta er það sem við köllum, herra forseti, sanngjarna og réttláta skattlagningu í þjóðfélaginu.

Við vildum líka, herra forseti, afnema skattlagningu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og stíga fyrsta skrefið í því að afnema stimpilgjöld sem eru mjög óréttlátur skattur, ekki síst gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum og fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið.

Þetta eru okkar tillögur, herra forseti, og með þeim er ég að sýna fram á --- af því að hv. þm. Pétur Blöndal er alltaf að tala um að hérna sé bara lýðskrum á ferðinni og ég veit ekki hvaða orð hv. þm. hefur notað yfir það --- að með tilfærslum í þjóðfélaginu er hægt að létta sköttum af lágtekjufólki án þess að auka byrðar á ríkissjóð.

Ég sé að tími minn er að verða búinn, herra forseti. Ég fullyrði að vilji er allt sem þarf í því efni að fara þessa leið sem við bendum á. Við erum að biðja um að hér í þinginu setjist menn yfir það að reyna að ná sátt um það að finna leiðir til að lækka eða afnema skatta á lágtekjufólki. Við erum að tala um fólk sem ekki á til hnífs og skeiðar út mánuðinn og þarf að leita til hjálparstofnana þar sem veruleg aukning hefur orðið á fjölda þeirra sem þangað leita.

Herra forseti. Ég tel mig vera að tala fyrir sanngirnis- og réttlætismáli og ég vona að það hljóti hljómgrunn hér í þinginu.