Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 15:24:22 (478)

2002-10-10 15:24:22# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á að fram hefðu komið tillögur um greiðslur í lífeyrissjóðinn sem m.a. yrðu teknar af meðafla, þ.e. að þær mundu þá falla inn í lífeyrissjóðinn. Ég er sammála honum og hv. flm. um að eðlilegt er að leita leiða til að efla Lífeyrissjóð sjómanna og auka greiðslur inn í hann. En hvort þetta er eina leiðin vil ég ósagt láta. Það hlýtur að mótast af aðilum, þ.e. útgerðarmönnum og sjómönnum hvernig á verður haldið.

Ég hef lengi setið í stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna. Ég er alveg sammála því að grípa þurfi til einhverra ráðstafana. Þá hef ég, eins og ég hef sagt áður, fyrst og fremst talið eðlilegt að samningsaðilar vinni þá vinnu. Gangi það ekki upp er það umhugsunarefni hvernig á eigi að taka. (ÁSJ: Er það ekki margreynt?)