Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:04:15 (499)

2002-10-14 16:04:15# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Frv. til fjáraukalaga liggur nú fyrir og ber með sér enn einn vitnisburðinn um trausta efnahagsstjórn og ríkisfjármálin bera sömuleiðis vitni um að íslenskt efnahagslíf er að koma út úr skammvinnri lægð og við tekur vaxtarskeið sem nýtast mun atvinnulífi, velferðarkerfi og ríkissjóði.

Ég ætla ekki við þetta tækifæri að rekja margt af því sem snýr að rekstri ríkissjóðs og efnahagshorfum, ég gerði allítarlega grein fyrir viðhorfum mínum hvað það varðar við 1. umr. fjárlaga og er óþarfi að endurtaka það.

Frv. ber að venju með sér margvíslegar breytingar. Heildarniðurstaða frv. er vel innan þeirra marka sem við höfum séð dæmi um á síðustu árum. Tel ég að þar hafi verið gætt aðhalds og hófs um leið og ég ítreka það sem ég hef sagt áður um fjáraukalög að ríkisstjórn og Alþingi þurfa á hverjum tíma að gæta að því að fjáraukalög fari ekki fram úr eðlilegu viðmiði.

Frv. fer nú til fjárln. til skoðunar og umræðu. Að venju munu koma fram margvíslegar tillögur til breytinga og vænti ég góðs af samstarfi við nefndarmenn eins og áður hefur verið og við í fjárln. munum skila frv. hingað inn til endanlegrar afgreiðslu eftir þá vinnu.