Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:06:53 (500)

2002-10-14 16:06:53# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í raun er óviðunandi að ár eftir ár skulum við ræða hér frv. til fjáraukalaga án þess að ráðherrar láti svo lítið að láta sjá sig í salnum nema hæstv. fjmrh. sem að sjálfsögðu situr sína vakt og hefur gert undanfarin ár með prýði og verður væntanlega sama sagan hér í dag. Þetta verður að sjálfsögðu til þess að ég verð að spyrja hæstv. fjmrh. um ýmis efni sem eðlilega snúa að öðrum ráðherrum, en ég vænti þess að hæstv. fjmrh. geti örlítið hjálpað okkur til í því að auka vitneskju okkar um einstaka liði sem vekja athygli þegar frv. til fjáraukalaga er skoðað.

Fyrst ber fyrir augu athyglisverðar tillögur varðandi fjárveitingar vegna ófyrirséðra atburða, en það er heimsókn forseta Kína til landsins síðasta sumar. Verður að segjast að það er með ólíkindum að svo viðamikil heimsókn skuli verða með svo stuttum fyrirvara að ekki sé hægt að gera ráð fyrir henni í fjárlögum komandi árs, því ef ég man rétt var forseti Kína á ferðinni hér í júnímánuði, þannig að það var nú ekki einu sinni á seinni hluta ársins sem hann kom. Við sjáum að sú heimsókn hefur kostað ríkissjóð miðað við þær tölur sem eru í frv. til fjáraukalaga rétt tæpar 40 millj. kr. og skiptist það á milli tveggja ráðuneyta og svo embættis forseta Íslands.

Þetta eru þó litlir fjármunir ef við miðum við þann kostnað sem fram kemur að þurft hafi að greiða vegna ráðherrafundar NATO, þ.e. eingöngu löggæslu vegna þess fundar, því enn er bætt við þær 50 milljónir sem áætlaðar voru á fjárlögum til þess og nú er liðurinn kominn upp í tæpar 70 millj. kr.

Fleira vekur athygli, herra forseti, m.a. það að hæstv. ráðherrar skuli ekki hafa meiri fyrirhyggju í endurnýjun bíla sinna en svo að þeir vita ekki þegar við göngum frá fjárlögum í desembermánuði að það sé á dagskrá næsta árs, en í frv. til fjáraukalaga kemur í ljós að a.m.k. tveir hæstv. ráðherrar eru í bílahugleiðingum, annars vegar er það hæstv. forsrh. og hins vegar hæstv. landbrh. Og það vekur auðvitað athygli og væri fróðlegt ef hæstv. fjmrh. gæti upplýst okkur um það hvernig á því stendur að gert er ráð fyrir að bifreiðakaup hæstv. forsrh. kosti 2,5 millj. kr. en bifreiðakaup hæstv. landbrh. 3 millj. kr. Við almennir þingmenn sem fylgjumst nú ekki svo náið með bílaflota hæstv. ráðherra erum forvitnir að vita hver skýringin er á því að hæstv. forsrh. kemst frá þessu með lægri upphæð en hæstv. landbrh. En fyrst og fremst vekur athygli að fyrirhyggjan skuli ekki vera meiri í þessum ráðuneytum en svo að ekki sé hægt að hafa slíkar upphæðir í fjárlögum, eða þá að bíða mætti til fjárlaga næsta árs með að endurnýja bílaflotann. En fróðlegt væri ef hæstv. fjmrh. veit skýringar á því af hverju svo mjög lá á þessari endurnýjun.

Herra forseti. Af því ég hef staldrað aðeins við forsrn., þá er hér athyglisverður liður þar sem óskað er eftir 10 millj. kr. fjárveitingu vegna kostnaðar við ráðgjöf á sviði efnahagsmála og virðist vera fyrst og fremst um að ræða greiðslu til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og er sérstaklega tilgreint að um sé að ræða rannsóknarverkefni sem snýr að byggðaþróun á Íslandi. Það er auðvitað afskaplega ánægjulegt að hæstv. forsrh. skuli enn hafa áhuga á byggðaþróuninni þrátt fyrir að sá málaflokkur hafi verið færður frá forsrn. til iðnrn. og vonum við að þetta rannsóknarverkefni eigi eftir að skilja eftir sig merkar upplýsingar sem nýtast í því að vinna gegn þeirri óheillavænlegu byggðaþróun sem við höfum þurft að lifa við allt of lengi. Enn er spurt um skýringar á því hvernig á því standi að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessu í fjárlögum.

Herra forseti. Í forsrn. eru líka nokkrir gamlir kunningjar í tillögum sem snúa að forsrn. Sérstaka athygli vekur tillaga á bls. 66 um 14,6 millj. kr. fjárveitingu vegna uppgjörs á framkvæmdum við Þjóðhildarkirkju og bæinn í Brattahlíð á Grænlandi. Athygli vekur að í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002 skuli enn skjóta upp kollinum fjárhæðir vegna þessara um margt ágætu verkefna. En eins og fram kemur í texta er um að ræða uppgjör við Ístak vegna verkbreytinga árið 2000. Hér erum við að fjalla um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002. Og þetta er samkvæmt verksamningi við Vestnorræna ráðið dagsett 24.03.1998. Maður verður að spyrja hæstv. fjmrh.: Getum við átt von á því að upphæðir vegna þessara framkvæmda verði fastur liður í frv. til fjáraukalaga næstu árin?

Herra forseti. Hægt væri að velta ýmsu fyrir sér í fjáraukalagafrv. en við 1. umr. verður að stikla mjög á stóru og tína upp það sem vekur sérstaka athygli.

Einn liður vakti sérstaka athygli mína, en það kemur einna best fram á bls. 90 undir iðnrn., þar sem óskað er eftir 2,1 millj. kr. til að fjármagna rekstrarhalla af sýningunni Islandica 2001. Enn vek ég athygli á því að við erum að fjalla um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002. Síðan heldur áfram í textanum ,,... sem haldin var að frumkvæði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis og samgönguráðuneytis.`` Það er auðvitað afar athyglisvert að þessi mikilsverðu ráðuneyti skuli standa sjálf fyrir sýningu af þessari gerð og síðan skuli koma upp í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002 halli af þeirri sýningu upp á 4,2 millj. kr. Því miður, herra forseti, vannst mér ekki tími til að fletta því upp hversu miklu fjármagni var varið til þeirrar sýningar og þar af leiðandi hversu hátt hlutfall þessi halli er af kostnaði við sýninguna, en vonandi hefur hæstv. fjmrh. þær tölur við höndina. Ef ekki, þá verði þær sendar til fjárln. þannig að við getum farið yfir þetta mál.

Hér er sem sagt um heildarhalla upp á 4,2 milljónir að ræða. Það vekur líka athygli mína að það er 2,1 milljón hjá iðnrn. og síðan kemur 1 milljón hjá samgrn., en þegar ég grandskoða landbrn. sem miðað við þennan texta hefði þá átt að borga 1,1 milljón, þá finnst ekkert. Landbrn. virðist því hafa komið sér hjá að taka þátt í að greiða hallann af þessari sýningu eða á kannski eftir að ... (Gripið fram í.) Já. Það gæti líka verið að digrir sjóðir væru í landbrn. sem gætu nýst til þess, en ef ég man rétt var sýningin ekki síst tengd landbúnaði. En hæstv. fjmrh. upplýsir okkur vonandi um hverju þetta sætir.

[16:15]

Ég þóttist sjá hér hæstv. heilbrrh. Varðandi heilbrigðismálin þá kom fram í umræðunni að stærsti hluti þeirrar útgjaldaaukningar sem hér er gerð tillaga um tengist heilbrrn. Þar eru auðvitað fastir liðir eins og við höfum því miður ansi oft séð. Hér er t.d. lögð til 677 millj. kr. hækkun í lyfjaútgjöld sjúkratrygginga þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða sem eiga að skila 310 millj. kr. lækkun lyfjaútgjalda ársins, samkvæmt því sem fram kemur í frv. Væntanlega eru gefnar á því hinar hefðbundnu skýringar, um hækkun lyfjaverðs og mikla þróunar á þessu sviði en auðvitað væri fróðlegt að heyra hjá hæstv. heilbrrh. hvort enn megi vænta einhverra tilrauna til að halda þessum útgjöldum innan ramma fjárlaga.

Herra forseti. Mig langar að ræða nokkrar tölur sem tengjast heilbrigðismálunum. Annars vegar varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem lögð er til 108 millj. kr. fjárveiting, fyrst og fremst til að mæta kostnaði vegna EES-samnings um lágmarkshvíld. Eins og fram hefur komið í umræðum hefur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri ekki treyst sér til að gera stofnanasamninga við starfsfólk sitt af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa ekki talið sig hafa fjármagn til þess á meðan ýmsar aðrar heilbrigisstofnanir hafa hins vegar gert slíka samninga. Spurningin er hvort þær séu þá betur settar. Þar kem ég raunverulega að því sem ég ætlaði að gera að aðalumræðuefni en það er Landspítali -- háskólasjúkrahús. Það kemur í ljós að lagt er til að framlag til reksturs sjúkrahússins hækki samtals um 1.200 millj. kr. Hér er síðan nokkur sundurliðun og m.a. talað um að 306 millj. kr. séu halli vegna svokallaðra S-merktra lyfja. En miðað við pappíra og sundurliðanir á stöðu Landspítala -- háskólasjúkrahúss er svolítið erfitt að átta sig á hvað er nákvæmlega verið að bæta með þessum 1.200 millj. kr. Uppsafnaður halli sjúkrahússins um áramótin 2001/2002 var 880 millj. kr. Áætlaður halli af rekstrinum árið 2000 er um milljarður kr. en hallinn vegna S-merktu lyfjanna um 330 millj. kr. Í þessu frv. til fjáraukalaga gert ráð fyrir að til að mæta þessu séu lagðar til 1.200 millj. kr. Þá stendur enn út af borði um milljaður kr. og þess vegna er nauðsynlegt að spyrja hæstv. heilbrrh., þar sem hann situr nú í salnum ásamt hæstv. fjmrh., hvað er í raun verið að bæta með þessum 1.200 millj. Er verið að bæta hallann sem var um áramótin 2001/2002 eða er hér fyrst og fremst verið að huga að árinu 2002? Er bæta hluta af hallanum um áramótin 2001/2002? Hvernig þessi tala, 1.200 millj. kr. í raun og veru fundin? Það er auðvitað nauðsynlegt að átta sig á þessum útreikningi.

Hér er einnig önnur tala sem tengist heilbrrn. þ.e. varðandi hjúkrunarheimili. Á bls. 82 í frv. kemur fram að lagt sé til 487 millj. kr. viðbótarframlag til dvalar- og hjúkrunarheimila. Það er eðlilegt að spurt sé vegna þess að það er ekki skýrt í frv. hvernig þessi tala er fundin, hvort hér er aðeins verið að bæta halla ársins 2002 eða horft fleiri ár aftur í tímann.

Það er líka athyglisvert sem fram kemur örlítið neðar varðandi það hvernig fyrirhugað er að skipta þessu framlagi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að framlaginu verði skipt milli þessara stofnana með hliðsjón af reiknilíkani sem verið er að innleiða og tekur mið af umönnunarþyngd stofnana ...`` o.s.frv. Er það þá rétt skilið miðað við þennan texta að þetta reiknilíkan sé ekki fullunnið, að enn sé unnið að því og þrátt fyrir það hafi menn getað fundið þá tölu sem ég nefndi áður? Hæstv. heilbrrh. skýrir þetta væntanlega fyrir okkur á eftir.

Herra forseti. Aðeins að lokum. Ég hef áður við svipaðar umræður spurt um samning við Læknavaktina í Reykjavík. Ef ég man rétt hafa svörin yfirleitt verið þau að það stæði til að endurnýja þann þjónustusamning sem gerður var árið 1998. Ég verð að segja, herra forseti, að það virðist full þörf á því af þeirri einföldu ástæðu að í þessum samningi var gert ráð fyrir 17.000 komum sjúklinga á ári. Talan virðist stöðugt halda áfram að hækka. Hér segir: ,,Samkvæmt upplýsingum frá Læknavaktinni er áætlað að komur sjúklinga verði um 53.000 á þessu ári ...`` Þannig er fjöldinn komin ansi langt frá upphaflegum samningi 1998. Það er fastur liður í frv. til fjáraukalaga að leitað er eftir auknum upphæðum til að greiða þessa viðbót. En það sem forvitnilegast er varðandi þetta er nokkuð sem ég vona að heilbrrh. geti upplýst okkur um: Hvað veldur því að ekki er hægt að endurnýja þennan þjónustusamning við Læknavaktina? Er einhver fyrirstaða fyrir hendi hjá Læknavaktinni sjálfri eða ganga samningaviðræður svo erfiðlega að ekki hefur náðst niðurstaða í þá samninga?