Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:50:44 (528)

2002-10-15 13:50:44# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:50]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir að vekja máls á þessum vanda. Gríðarleg samþjöppun í sjávarútvegi hefur margar hliðarverkanir eins og mönnum er kunnugt, aðallega hin stóru og miklu byggðaáhrif. Auðvitað höfum við öll áhyggjur af þróun mála en það er ástæða til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hyggist í einu og öllu láta hægt og rólega undan þrýstingi og kröfum stórútgerðarinnar um svokallaða hagræðingu.

Fyrir þinginu voru í fyrra uppi hugmyndir um að hækka þakið upp í 50%, aflahlutdeild í sumum tegundum, t.d. í karfa og grálúðu. Það var að vísu lækkað niður í 35% en hins vegar er alveg ljóst hvert stórútgerðarmenn stefna í þessum efnum. Hagræðingin lætur ekki þar við sitja vegna þess að á borðunum eru kröfur frá stórútgerðinni, t.d. um hagræðingu hvað varðar mannafla, þ.e. sjómennina. Hagræðingin nær til þeirra sem stunda þennan útveg. Það verður ekkert staldrað við þarna. Hér er allt lagt undir með gríðarlegri byggðaröskun í kjölfarið og minni réttindum sjómanna, að manni sýnist. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að það er nauðsynlegt fyrir hið háa Alþingi að leggja niður fyrir sér hvert við stefnum í þessum málum.

Eins og alkunna er er ég og flokkur minn að sjálfsögðu algjörlega ósammála þeirri þróun sem er í gangi. Við viljum endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu eins og kunnugt er, þ.e. með kvótabindingu við sjávarbyggðir þannig að þær séu ekki upp í vindinn ef mönnum á hlutabréfamarkaði dettur í hug að skipta um eignarhald á einni nóttu. Þetta er það sem fólk er að upplifa núna, jafnvel í sjávarbyggðum sem töldu sig tiltölulega öruggar, nú síðast á Akranesi.