Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:48:38 (541)

2002-10-15 14:48:38# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk ekki svar við því hvor yrði metin sterkari við feðrun barns, 2. gr. eða 10. gr., og vildi gjarnan fá svar við því hvor mundi vega þyngra. Þegar búið er að feðra barn sem getið er í hjónabandi, getur þá einhver annar upphafið þann úrskurð?

Síðan er spurningin um tæknilega útfærslu og þá ofur\-áherslu sem lögð er á kynforeldri. Það er dálítið undarlegt að frv. til barnalaga, sem á að fjalla um samskipti foreldra og barna að mínu mati, byrjar á móðerni og faðerni barns og síðan eru forræðismálin einhvern veginn sem aukagrein aftarlega í V. kafla, sem mér finnst vera aðalmálið. Ég er ekki sáttur við hvernig frv. er uppbyggt og á hvað menn leggja áherslu. Lögð er meiri áhersla á --- ja, hvað á ég að segja --- erfðafræðileg áhugamál einhvers en ekki samskipti og tilfinningar fólks. Það skiptir barn miklu meira máli hver það er sem annast það í uppeldinu heldur en hverjir eru kynforeldrar þess einhvers staðar úti í heimi.

Mér þykir miður hvernig frv. er uppbyggt, að slík ofur\-áhersla skuli vera lögð á þessa tækni og lögfræði en ekki á það sem virkilega skiptir máli í uppeldi barns.