Áfengislög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 17:15:36 (569)

2002-10-15 17:15:36# 128. lþ. 10.11 fundur 23. mál: #A áfengislög# (framleiðsla innlendra léttvína) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[17:15]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998. Meðflutningsmenn mínir á þessu frv. eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir.

1. gr. frv. er reyndar eina efnisgrein þess fyrir utan gildistökuákvæðið og hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. og 2. mgr. 6. gr. skal heimilt að framleiða án leyfis vín úr innlendum berjum, ávöxtum eða jurtum til eigin neyslu sem í eru að rúmmáli minna en 15% af hreinum vínanda.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Í greinargerð segir að tilgangur frumvarpsins sé að gera þeim sem vilja og getu hafa til kleift að framleiða vín úr innlendum ávöxtum og jurtum og að þeir megi bera það fram án þess að slíkur heimilisiðnaður teljist lögbrot. Flutningsmenn telja að rétt sé að lagfæra áfengislögin þannig að framleiðsla léttvíns úr tilgreindum hráefnum verði leyfð. Með því aukna frelsi sem hér er lagt til gæti innan fárra ára orðið til þekking við gerð matarvína sem kynni síðar að verða séríslensk framleiðslu- og verslunarvara, t.d. vín úr hreinni náttúruafurð eins og íslenskum berjum.

Frv. sama efnis hefur áður verið flutt í hv. Alþingi en ekki hlotið afgreiðslu. Sá sem hér stendur lítur svo á að framleiðsla á léttvínum sé í raun hið sama og matargerð. Ég geri lítinn greinarmun á því hvort fólk framleiðir saft eða léttvín til að nýta með mat. Ég lít svo á að ef slík heimilisframleiðsla sem þetta frv. gerir ráð fyrir yrði leyfð gæti þróast á nokkrum árum markverð reynsla til að framleiða matarvín sem ég, eins og ég sagði áðan, lít svo á að gætu einfaldlega orðið hluti af matvælaframleiðslu þessa lands.

Herra forseti. Ég held að vínmenning Íslendinga hafi breyst verulega á síðustu árum og áratugum og ekki sé ástæða til að líta á létt vín sérstaklega sem vímugjafa þótt vissulega megi með góðum vilja ná einhverjum árangri í því að verða ölvaður, herra forseti. En þá þurfa menn að leggja sig dálítið fram við það og eru þá í raun að neyta vína í allt öðrum tilgangi en matarvínum er ætlaður, þ.e. með mat. Ég held samt að vínmenning Íslendinga hafi breyst verulega á undanförnum áratugum enda hafa Íslendingar verið að kynnast siðum og venjum annarra þjóða þar sem þeir eins og íbúar annarra landa sem þeir hafa heimsótt hafa haft frjálsan aðgang að léttvínum og jafnvel sterkari vínum einnig. Ég held að það sé að mestu leyti liðin tíð að Íslendingar sem fara í utanlandsferðir fari bæði fullir út og komi fullir heim. Oft var sagt í gamla daga að menn færu á sérstakar uppskeruhátíðir til annarra landa til þess að eiga frjálsan aðgang að áfengi. Þetta held ég að sé að miklu leyti breytt, herra forseti. Það er helst ef menn taka sér fyrir hendur ferðalög á bjórhátíðir í Þýskalandi að þeir séu eingöngu í því að smakka vín, enda ferðin þá til þess gerð. Það eru oft sérstakir sælkerar sem ákveða að fara í þær ferðir og ekki eru þeir endilega neitt drukknari en aðrir. Ég held því að öllu samanlögðu, herra forseti, að við getum talað um notkun léttvína og matarvína eins og hverja aðra vöru með mat. Við þurfum ekki lengur að tala um þetta sem eitthvað sem beri að forðast eða fela. Ég hygg að landsmenn hafi öðlast talsverða reynslu af því að umgangast vín með eðlilegum hætti á undanförnum árum.

Í tillögu þessari er eingöngu verið að tala um að það verði gert heimilt --- það verði sem sagt ekki lögbrot --- að framleiða matarvín undir 15% styrkleika og til þess að stýra þessu svolítið í þann farveg sem ég tel æskilegastan og við flutningsmenn þá leggjum við upp með að í framleiðsluna verði helst notaðar íslenskar jurtir, ávextir eða ber til þess að gefa þessu þann sérstaka keim sem vissulega getur fylgt náttúruafurðum okkar. Ég tel að á fjölmörgum íslenskum heimilum, einkanlega í sveitum landsins, sé þekking á því hvernig beri að framleiða svona matarvín. En af eðlilegum ástæðum er farið hljótt með þetta. Jafnvel þó að fólk hafi dottið niður á framleiðslu afbragðs víns þá er það ekki löglegt og heiðarlegt fólk, venjulegt íslenskt fólk, er í raun að fremja lögbrot þegar það framleiðir sín eigin vín. Mér finnst því, herra forseti, meira en tímabært að menn þori að taka á þessu á hv. Alþingi.

Frv. gengur eingöngu út á að leyfa þessa framleiðslu á matarvínum. Hér er ekki verið að tala um að leyfa landabrugg eða að sjóða landa til þess að ná fram sterku víni eða öðru slíku. Hér er eingöngu verið að tala um það sem þekkist víða í dag á íslenskum heimilum, þetta er gert en er ekki löglegt. Eftir sem áður gæti svo viljað til --- það tel ég meira en líklegt --- á næstu árum, þ.e. ef þetta yrði leyft, að hér mundi skapast þekking sem gæti orðið til þess að einhver fengi áhuga á því að framleiða séríslenskt matarvín til sölu í vínbúðum. Reyndar er, herra forseti, þegar hafin slík framleiðsla á Íslandi, ég hygg norður á Húsavík. Þar er verið að framleiða matarvín sem selt er í íslenskum vínbúðum. En þetta frv. gengur ekki út á það. Þá eru menn komnir í allt annan farveg vegna þess að þá þurfa þeir auðvitað að vera með framleiðsluna í sérstöku húsnæði, vera með þjófheldar geymslur og uppfylla allar heilbrigðisreglugerðir og allt sem lýtur að framleiðslu söluvöru sem þeir bera ekki sjálfir á borð og fylgja ekki eftir til enda heldur eru að afhenda öðru fólki til sölu. Það dreifist auðvitað eins og önnur söluvara. Þá erum við komin í allt annan farveg, herra forseti, sem kemur ekkert nálægt því frv. sem við leggjum fram um, að leyfa það sem ég vil kalla heimilisiðnað eða réttara sagt matarframleiðslu á heimilum sem að vísu í þessu tilviki er dálítið áfeng.

Ef niðurstaðan yrði hins vegar sú, sem ég tel ekkert ósennilega, að fleiri en sá sem framleiðir á Húsavík dyttu niður á sérstakar uppskriftir eða framleiðslu sem gæti talist söluvara þá yrði auðvitað til þess að grípa, þ.e. ef fólk vildi framleiða raunverulega söluvöru, að fara í allt annan farveg með málið. Þetta færi þá undir ákvæði áfengislaganna um að heimaframleiðslunni yrði breytt í raunverulega framleiðslu á vöru sem væri ætluð til sölu. Þá kæmu auðvitað til ýmsar reglugerðir sem menn yrðu að uppfylla, t.d. heilbrigðisreglugerðir og geymslureglugerðir og ákvæði áfengislaga um öryggisgeymslu þannig að þar erum við að tala um allt annan farveg. Ég lít hins vegar svo á að það sé meira en líklegt, jafnvel í dag, að til sé fólk hér á landi sem hefur þróað sínar sérstöku uppskriftir við að framleiða vín og mundi e.t.v. vilja koma þeim á framfæri, þ.e. ef þetta yrði löglegt, til þeirra sem þá vildu kannski taka að sér að fara í atvinnurekstur við að framleiða slíkt. Nú er verið að tína ber um allt land til þess að senda norður á Húsavík til þess að framleiða þar vín og vonandi er það vísir að sérstakri vínframleiðslu sem mun vinna sér sess í framtíðinni og verða ein af stoðum atvinnulífs okkar. Við sem flytjum frv. teljum að hér sé verið að stíga ákveðið framfaraskref. Það þarf að liðka til í áfengislögunum til að þetta teljist ekki lögbrot. Ég tel eðlilegt að það frjálsræðisskref verði stigið sem frv. gerir ráð fyrir og tel að það mundi leiða til góðs. Ég hef ekki trú á því að hinn sérstaki áhugi Íslendinga á að framleiða góð matarvín úr íslenskum jurtum leiði íslensku þjóðina út í ofurdrykkju. Ég vona að sú tíð sé liðin.