Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:05:33 (586)

2002-10-16 14:05:33# 128. lþ. 12.2 fundur 138. mál: #A reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það er nú gott að sjá alla þessa hv. þm. Samfylkingarinnar, þá sömu og tóku þátt í umræðunni um fyrirspurnina hér áðan, það er gott að sjá áhuga þeirra á málefnum löggæslu í landinu. Ég hlýt að fagna því og hlýt að treysta á samvinnu þeirra í þessum málum í framtíðinni.

En varðandi fyrirspurn hv. þm. þá held ég að hún beri þess merki að nokkurs misskilnings gæti. Ég tel rétt að undirstrika það að umrætt reiknilíkan hefur aldrei verið hugsað sem einhver töfraformúla um hvað sé hin eina rétta fjárveiting til lögregluembættanna. Þetta líkan hefur verið hugsað sem hjálpartæki við undirbúning í fjárlagavinnu til þess að tryggja að sem flest mikilvæg sjónarmið um fjárþörf hvers embættis komi fram.

Það er engin spurning að þetta er flókið verkefni sem skýrir þann tíma sem þessi vinna hefur tekið. Það er hins vegar ekki þar með sagt að fjármál og skipulag lögreglunnar hafi ekki verið til skoðunar á meðan. Eins og komið hefur fram hér áður hefur raunhækkun á fjárframlögum til löggæslu t.d. verið um 30% á sl. fimm árum og þá eru hvorki taldar með hækkanir til sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli né ríkislögreglustjóra, og þessi raunhækkun hefur farið til eflingar löggæslunnar á ýmsum sviðum.

Í frumvörpum til fjárlaga og fjáraukalaga má sjá að stefnt er að því að veita aukið fé til embætta á Suðurlandi, þar af 50 millj. til lögreglunnar á Selfossi og fleira er að finna þar, t.d. 15 millj. sem eiga að fara sérstaklega í að styrkja smærri sýslumannsembætti svo ég nefni þetta atriði sérstaklega. Því er fráleitt af hv. þingmönnum að tala hér eins og engum ráðstöfunum hafi verið hrint í framkvæmd til þess að styrkja löggæsluna í landinu á meðan þetta reiknilíkan hefur verið í vinnslu.