Úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:33:20 (599)

2002-10-16 14:33:20# 128. lþ. 12.5 fundur 78. mál: #A úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Fyrir nokkru birtist í Fréttablaðinu frétt undir yfirskriftinni ,,Gleymdi hópurinn`` þess efnis að sérhæft hjúkrunarheimili vantar fyrir það unga fólk sem hlotið hefur varanlegan heilaskaða eða er það hreyfihamlað að það þarf ævilanga umönnun. Samkvæmt upplýsingum landlæknis er um að ræða ungt fólk sem hefur hlotið alvarlega höfuðáverka í slysum, er með langvinna taugasjúkdóma, svo sem MS-sjúklinga, og þá sem hlotið hafa svokallaðan framheilaskaða sem veldur ákveðnum hegðunartruflunum. Jafnframt kom fram hjá landlækni að enn hefði ekki verið gerð nein áætlun til að mæta þörfum þessa unga fólks með byggingu á sérhæfðu hjúkrunarrými þó að þörf væri á varanlegum úrræðum.

Þetta unga fólk er nú vistað inni á sjúkrahúsum. Margir liggja á endurhæfingardeildum og eru fastir þar. Einhverjum hefur verið komið fyrir á öldrunardeildum þar sem þeir eiga alls ekki heima, samkvæmt þessari frétt sem birtist fyrir nokkru. Fram kom að hér væri um að ræða ,,gleymda hópinn`` sem aldrei væri talað um.

Það er, herra forseti, tímabært að opna umræðu á Alþingi um þennan gleymda hóp, og ég spyr hæstv. heilbrrh.:

Hvað hyggst ráðherra gera til að leysa vanda ungs fólks sem hefur hlotið varanlegan heilaskaða og mikla hreyfihömlun og þarfnast sérhæfðs hjúkrunarrýmis?

Hvað eru margir í þessum hópi, sbr. 1. lið, hvar eru þeir vistaðir nú og hver eru varanleg úrræði sem þeir þurfa á að halda?

Telur ráðherra það forsvaranlegt að þetta fólk festist á endurhæfingar- eða öldrunardeildum?

Hve mikið kostar að leysa vanda þessa fólks með sérhæfðu hjúkrunarheimili og hver er kostnaður nú við vistun þessara einstaklinga?

Hve margir framangreindra einstaklinga, sbr. 2. lið, eru í umsjá aðstandenda og fá þeir nægjanlega hjúkrunar- og heimilisaðstoð?