Úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:40:52 (602)

2002-10-16 14:40:52# 128. lþ. 12.5 fundur 78. mál: #A úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:40]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja máls á þessu í sölum þingsins. Ég þakka jafnframt hæstv. ráðherra þau svör sem frá honum komu. En ég vil m.a. spyrja hvort búið sé að taka ákvörðun um það hvað verður um Vífilsstaði, á hvern hátt á að nýta það húsnæði og hvort það gæti komið þarna inn eða að Arnarholt yrði algerlega sérhæft vegna þessara sjúklinga. Ég held að einhvers staðar hljóti að liggja fyrir upplýsingar um þá aðila sem eru heima, t.d. heilaskaðað og mikið hreyfihamlað ungt fólk í umsjón foreldra. Ég kannast við, eins og ég veit að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerir einnig, að foreldrar þessa fólks kvarta undan því að fá ekki næga aðstoð. Ég held að þarna sé verkefni sem þurfi að skoða alveg sérstaklega af hálfu ráðuneytis sem gæti í samstarfi við Þroskahjálp og hugsanlega Öryrkjabandalagið gert heildarúttekt og fundið þau ráð sem duga.