Neysluvatn

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 10:54:37 (648)

2002-10-17 10:54:37# 128. lþ. 13.3 fundur 13. mál: #A neysluvatn# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[10:54]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um till. til þál. um neysluvatn. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir að koma fram með þetta mál. Það fjallar um að Alþingi samþykki að beina því til ríkisstjórnarinnar:

1. að neysluvatn verði skilgreint sem auðlind í lögum,

2. að málefni þess verði vistuð á einum stað í stjórnsýslunni og

3. að stuðlað verði að útflutningi á fersku neysluvatni í samstarfi við vatnsútflutningsfyrirtæki og sveitarfélög.

Ég held að þessi tillaga sé allrar athygli verð og ég vil þakka hv. þm. fyrir að hafa unnið svo vel í hendurnar á hinu háa Alþingi upplýsingar um málið sem hér er fjallað um. Þessi þáltill. er mjög vel gerð og hefur verið lögð í hana mikil vinna.

Mig langar til að drepa á örfá atriði. Við Íslendingar áttum okkur kannski ekki á því, vegna þess að við höfum svo greiðan aðgang að neysluvatni, hversu mikilvæg auðlind þetta er. Ég er heils hugar sammála hv. þm. um að við verðum að velta þessu fyrir okkur og skoða á hvaða leið við erum. Vatnsnotkun okkar er mjög mikil. Ég vil nefna sem dæmi að t.d. iðnaðarhönnun í landinu, svo sem eins og í fiskvinnslu, byggir á gríðarlega mikilli vatnsnotkun vegna þess náttúrlega hve greiður aðgangur er að auðlindinni. Þetta er notað til flutninga eins og við vitum innan fiskvinnslufyrirtækja þar sem aðrar lausnir væru notaðar ef ekki væri svo greiður aðgangur að vatninu. Við þurfum stöðugt að hugsa um þessi mál á öllum vígstöðvum vegna þess að þó að vatnið sé í sjálfu sér aðgengilegt þá er kostnaðarsamt að leggja pípur og virkja þessar auðlindir. Umræða um þetta mál er því mjög mikilvæg að mínu mati.

Það er mikilvægur punktur sem hv. þm. Katrín Fjeldsted kemur inn á, þ.e. að vatnsskortur er fyrirsjáanlegur í heiminum. Við stöndum frammi fyrir því og síðast í fréttum í gær voru fréttir af átökum Ísraelsmanna og Líbana um aðgang að vatni á því landsvæði. Hér að mínu mati eigum við gríðarlega möguleika á að koma til liðs. Mér er sagt að í allra nánustu framtíð eigum við möguleika á því t.d. að fara í útflutning á iðnaðarvatni, þ.e. vatni sem er notað til landbúnaðar og iðnaðar í þeim löndum sem eru vatnslítil þannig að þær vatnslindir sem eru til ráðstöfunar væru þá frekar notaðar til drykkjar fyrir fólkið í viðkomandi löndum.

Staðan er t.d. þannig í heiminum í dag, eftir Exxon Valdez slysið í Ameríku, að öllum tankskipum sem flytja olíu er gert að hafa gríðarlega ballest, sem sagt neðarlega í skipunum, þannig að þau eru ævinlega með fleiri milljónir lítra af sjó til að skapa ballest í skipunum. Þarna er gríðarlegur möguleiki inn á hafnir, t.d. stórhöfnina Rotterdam, sem þjónar Evrópu í ríkum mæli með olíu, að koma vatni á þá pósta til iðnaðarframleiðslu eða sem sagt það sem kallað er ,,iðnaðarvatn``. Ég ítreka að það er ekki lakara en annað vatn en það er notað í iðnað og áveitur. Þetta eru hlutir sem þarf að skoða mjög alvarlega. Það háttar þannig til að þessi skip, þessi flutningsgeta, er einmitt inn á þau lönd sem standa hvað verst að vígi varðandi vatnsbúskap, eðli málsins samkvæmt. Þetta eru olíuframleiðsluríkin þar sem stórvöntun er á vatni.

Þarna getum við, jafnframt því að skapa útflutningsmöguleika í framtíðinni í ríkum mæli, stuðlað að friðvænlegri heimi. Að margra mati geta átökin um vatnsforðann, sérstaklega á þeim svæðum þar sem olíuframleiðslan er mest, leitt til ófriðar. Ég held að við verðum að velta þessu mjög alvarlega fyrir okkur. Það væri kannski betra að bisnessmenn okkar, íslenskir viðskiptamenn, væru uppteknari af því að kortleggja þessa möguleika en að reyna að komast yfir í einkavæðingarferlið með kaupum á því sem sett er á sölutorg innan lands. Þarna er um milljarða- og tugmilljarðamöguleika að ræða og ég er sannfærður um að þetta verður ein af okkar styrkustu stoðum þegar til framtíðar er litið. Möguleikarnir eru gríðarlegir. Það hafa opnast möguleikar vegna breyttra aðstæðna, m.a. vegna breyttra krafna um flutning á olíu um heimshöfin. Það hafa komið upp möguleikar út af ballest í skipum sem gera þetta miklu fýsilegra núna en það var fyrir nokkrum missirum.

Ég styð þessa tillögu, virðulegi forseti, heils hugar og þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir að koma fram með frv. Ég býst þó við að fjallað verði um það í nefnd hvar eigi að vista þetta mál. Það getur verið að það komi upp t.d. að málið eigi að vistast annars staðar en hjá Orkustofnun. Ég veit það ekki. Ég varpa því svona fram. Ég held að það þurfi að skoða í meðförum nefndarinnar. Málið í heild sinni er hið besta mál og tími til kominn að velta því sér á þann hátt sem hv. þm. Katrín Fjeldsted leggur til.