Neysluvatn

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:06:29 (650)

2002-10-17 11:06:29# 128. lþ. 13.3 fundur 13. mál: #A neysluvatn# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um neysluvatn sem hv. flm. Katrín Fjeldsted hefur mælt fyrir er að mínu viti hið besta og mikilvægasta mál. Í upphafsorðum tillögunnar segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi samþykkir að beina því til ríkisstjórnarinnar að

a. neysluvatn verði skilgreint sem auðlind í lögum.``

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það að eiga gott og ríkulegt neysluvatn er ekki endilega sjálfgefið. Við finnum það ef við förum um lönd erlendis að þá er það alls ekki svo. Því er ekki sjálfgefið að þetta geti varað, ekki heldur hér á landi. Tillagan miðar að því að neysluvatn verði skilgreint sem auðlind sem snýr ekki bara að skilgreiningu heldur líka að verndun þess, þ.e. þegar við erum með aðgerðir í einu eða öðru formi sem geta haft áhrif á gæði, stöðu og varanleika neysluvatnsins, þá ber okkur að sýna formlega og skipulega varúð. Ég hygg að það sé nú svo að við göngum hér á landi nokkuð ógætilega um vatnið okkar.

Tillagan er einmitt til þess að skerpa á því að þetta sé auðlind sem okkur beri að vernda og varðveita og nýta til komandi kynslóða eins og segir í grg. með tillögunni. Þetta er ekki aðeins auðlind fyrir okkur heldur líka auðlind á heimsvísu. Við erum hér verndarar, varðveisluaðilar mestu auðlindar heims sem er ferskt vatn. Það er því fyllilega tímabært að það njóti þeirrar skilgreiningar og þeirrar stöðu í lögum. Það er síðan annað mál að hve miklu leyti og hvenær við getum hafið útflutning á þeirri auðlind okkar á sjálfbæran hátt, útflutning til annarra landa. Ég er viss um að það er aðeins spursmál um tíma, um tækni og um markaðssetningu, ekki hvort heldur hvenær. Ég tel því mikilvægt, herra forseti, að Alþingi líti ekki aðeins á mikilvægi þessa máls sem auðlindar heldur horfi líka til þess hvernig nýta mætti þá auðlind til þess að efla útflutning og atvinnulíf hér á landi.

Það væri fyllilega athugandi að Alþingi beitti sér hreinlega formlega fyrir því að fram færi úttekt á útflutningsmöguleikum á vatni. Við eigum að vísu þar nokkra sögu að baki en allt hefur þetta verið bundið þeim þrepum og þröskuldum sem frumkvöðlar verða fyrir þegar verið er að hefja nýjan rekstur og kannski ekki heldur þá ratað á þær réttu markaðsleiðir sem leitt hefðu til árangurs. Við megum ekki láta þar deigan síga. Við eigum að sækja fram. Þetta er ein mesta auðlind okkar og þess vegna væri alveg athugandi að ríkissjóður kæmi beint eða óbeint að því að veita fjármagn bæði til rannsókna og markaðsathugana og ef það leiddi til jákvæðs árangurs, að koma slíkum atvinnurekstri á legg.

Við erum að gera annað eins varðandi virkjanir og ýmsar aðrar atvinnugreinar, ríkið leggur fram stórfé bæði í formi beinna fjárframlaga og ríkisábyrgða og þess vegna er fullkomlega eðlilegt að einnig væri komið að því að kanna og standa að möguleikum um uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á okkar hreina vatni.

Ég tel, virðulegi forseti, að ef þessi tillaga fer til iðnn., sem mér finnst vera skiljanlegt af vissum ástæðum, henni var vísað til umhvn. á sl. ári og á vegum umhvn. komu umsagnir frá þeirri hlið um málið, en þegar farið er að líta á þetta sem atvinnumál jafnframt, þá er eðlilegt að iðnn. fái málið til umfjöllunar hvað það varðar án þess þó að verið sé að binda það að vistunin sem auðlind verði á sviði Orkustofnunar. Mér finnst að þess vegna mætti hugsa sér að stofnanir á vegum umhvrn. tækju á málinu, auðlindinni sem slíkri. En þetta er ekki aðalmálið heldur að finna málinu hraðan, öruggan og góðan framgang. Ég vil ítreka það að hv. flm. Katrín Fjeldsted sem leggur tillöguna fram hefur unnið hana afskaplega vel og greinilega og þar kemur skýrt fram sá vilji sem flutningsmaður leggur til við þingið, að neysluvatn verði skilgreint sem auðlind í lögum og það er grundvallaratriði.