Neysluvatn

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:12:49 (651)

2002-10-17 11:12:49# 128. lþ. 13.3 fundur 13. mál: #A neysluvatn# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:12]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað að hér er afar athyglisverð tillaga á ferðinni og vel unnin. Það er mikill fróðleikur í greinargerðinni eins og hér hefur verið drepið á og ég held þegar á heildina er litið sé hér um mjög þarfa tillögu að ræða sem fjallar um skynsamlega auðlindanýtingu. Og skynsamleg auðlindanýting er einmitt eitt af því sem mest var talað um á nýafstöðnu heimsþingi Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg. Þar var fjallar um það hvernig maðurinn hefur farið með auðlindir jarðarinnar, hvernig hann hefur sóað þeim og hvernig hann hefur í raun og veru níðst á þeim en jafnframt brýnt fyrir þjóðum heims hversu mikilvægt er að endurnýja kunningsskapinn og umgengnina við auðlindir veraldarinnar og vatn er svo sannarlega ein af mikilvægustu auðlindunum sem mannkynið þarf á að halda.

Eins og kemur fram í grg. tillögunnar er það skilgreint sem mannréttindi í sáttmálum Sameinuðu þjóðanna að eiga aðgang að vatni og einn þáttur þessa máls sem kemur mjög upp í hugann þegar ég lít yfir þetta svið, er einmitt staðan í þróunarlöndunum. Í grg. kemur fram að árið 2050 muni 4,2 milljarðar manna búa í löndum sem ekki geta séð fyrir því sem Sameinuðu þjóðirnar mæla með af vatni en það eru a.m.k. 50 lítrar af vatni á dag til matseldar, þvotta og drykkjar.

Mjög mikilvægt er þegar þetta mál er skoðað í heild sinni að líta til þróunarlandanna sérstaklega því að alveg eins og það væri gott og gilt og örugglega mjög arðbær og göfugur atvinnuvegur að flytja út vatn til þeirra landa í veröldinni sem geta keypt af okkur vatn, þá er það ekki síður göfugt að skoða þá möguleika að flytja vatn til þróunarlandanna í formi þróunaraðstoðar frá Íslandi til þróunarríkjanna. Hv. þm. Katrín Fjeldsted getur þessa í grg. með tillögunni en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki hefur verið kannað til hlítar hvort t.d. megi flytja og selja vatn með tankskipum til fjarlægari heimshluta eða hvort vatnsútflutningur gæti orðið liður í þróunaraðstoð Íslendinga.``

[11:15]

Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að vekja sérstaka athygli á þessum þætti málsins hér. Ég hefði jafnvel viljað sjá setningu af þessu tagi inni í hinum eiginlega tillögutexta því að ég tel að Íslendingar þurfi að taka aldeils vel í hnakkadrambið á sjálfum sér varðandi þróunaraðstoðina en eins og menn vita greiða Íslendingar miklu minna til þróunarhjálpar en þeir hafa þó sett sér sjálfir að markmiði. Íslendingar hafa samþykkt að greiða 0,7% af þjóðarframleiðslu sinni til þróunarhjálpar en þeir eru með 0,1% í þróunarhjálp eins og málin standa núna. Það virðist ekki hreyfast neitt og hefur ekki hækkað á síðustu árum. Hér gæti verið tækifæri fyrir okkur til þess að rétta þennan kúrs til muna þannig að ég tel mikilvægt að iðnn. eða hvaða nefnd sem fjallar um málið --- ég tel í sjálfu sér vel til fundið af hv. flm. að leggja til að hv. iðnn. fjalli um það --- fari sérstaklega ofan í þennan þátt tillögunnar og skoði þá mögulega hinn eiginlega tillögutexta með það fyrir augum hvort ekki væri hægt að setja hér upp eitthvert fyrirheit varðandi þróunarhjálpina.

Þá vil ég geta þess, herra forseti, að atvinnuvegur af því tagi sem hér gæti skapast fellur afar vel að hugmynd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hvað varðar sjálfbæra atvinnustefnu. Í mínum huga er þetta mun skynsamlegri nýting á náttúrulegum auðlindum en sala á raforku frá fallvötnunum okkar á útsöluprís til erlendrar stóriðju.

Enn eitt atriði langar mig að nefna, herra forseti, og það er sá þáttur í greinargerð tillögunnar þar sem fjallað er um meðferð okkar á þessari auðlind. Hv. þm. getur um innlendan vatnsskatt og gerir grein fyrir því að ekki sé greitt fyrir magn heldur eingöngu eftir rúmmáli húss. Enginn hvati er því í kerfinu til að spara vatn. Þetta tel ég líka að sé eitt af grundvallaratriðunum í tillögunni og ég held að umræðan megi einmitt gjarnan snúast um þennan hvata því að við Íslendingar sem höfum átt nóg af rennandi vatni í krönunum, í okkar minni í öllu falli, höfum haft tilhneigingu til þess að sóa þessari gífurlega dýrmætu auðlind. Ég held að það væri vel þess virði að við tækjum okkur tak í þeim efnum og færum að hugsa af meiri virðingu um þessa auðlind okkar. Alveg eins og við höfum sagt að þörf væri fyrir orkusparnaðarátak hér á landi er ekki síður þörf fyrir sparnað í vatnsnotkun. Það er bara mergurinn málsins að til þess að við gerum okkur grein fyrir dýrmæti auðlindanna okkar skiptir okkur máli að skoða neysluvenjur okkar. Neysluvenjur Íslendinga í þessu tilliti hafa litast af græðgi. Við höfum litið á vatnið okkar sem sjálfsagðan hlut en þegar okkur er stillt upp við vegg og við látin skoða málið út frá þeim sjónarmiðum og þeim atriðum sem hv. þm. Katrín Fjeldsted veltir hér upp í sinni góðu greinargerð förum við að hugsa um þetta á örlítið annan hátt. Ég tek heils hugar undir þá hvatningu sem hér má finna varðandi það að við setjum okkur einhvers konar vatnssparnaðarmarkmið, og ég tel það afar mikilvægt.

Eins og getið hefur verið um í ræðum þingmanna er vatn auðlind sem getur verið dýrmæt á svo mörgum sviðum. Ég tel að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar þurfi að skoða það á mjög breiðum grunni til þess að það geti fengið þá afgreiðslu sem það á sannarlega skilið.