Neysluvatn

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:20:03 (652)

2002-10-17 11:20:03# 128. lþ. 13.3 fundur 13. mál: #A neysluvatn# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:20]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég kem upp í stólinn til þess að lýsa yfir stuðningi við þá till. til þál. um neysluvatn sem hér er til umfjöllunar. Flm. tillögunnar er Katrín Fjeldsted, þingmaður Reykv. Ég vil segja að þessi tillaga lýsir sömu framsýni og mörg önnur mál sem þingmaðurinn stendur fyrir.

Við gerum okkur grein fyrir því að vatnið er auðlind, auðlind framtíðarinnar. Það var sagt áðan að stríð framtíðarinnar verði í kringum vatn, stríð nútímans er í kringum olíu. Þessi hugmynd er ekki fráleit vegna þess að við höfum einmitt rætt um að orkugjafi framtíðarinnar verði vetni, og vetni er unnið úr vatni. Það sem mér finnst þessi tillaga gera sérstaklega er að draga fram mikilvægi vatnsins og skapa umræður í samfélaginu um hvað vatnið er okkur dýrmætt.

Við höfum í áranna rás tekið vatninu sem allt of sjálfsögðum hlut. Í þáltill. kemur fram að notkun hvers einstaklings á dag er um 200 lítrar sem er mjög mikið. Í samanburði við t.d. Dani notum við helmingi meira vatn hér á landi en þessir nágrannar okkar, eins og kemur fram í greinargerðinni.

Það er líka mjög sláandi að bera saman umgengni okkar við vatnið annars vegar og umgengni fólks í þróunarlöndunum við vatn. Hér á landi getum við skrúfað frá og látið vatnið renna þangað til það er kalt sem kallar á ákveðna sóun meðan í sumum löndum, t.d. í Afríku, fer meginhluti dagsins hjá börnum og konum í að sækja vatn til neyslu. Við getum ímyndað okkar hvað vatnið er verðmætt í þeim löndum sem byggist einmitt á þessum skorti.

Tilraunir til útflutnings hafa verið gerðar hér á landi með vatn, og ekki með góðum árangri. Þær hafa yfirleitt mistekist og það væri þess virði að skoða hvers vegna það hefur gerst. En við höfum núna á síðustu árum séð að neysla á vatni hér á landi hefur aukist. Fólk kaupir vatn í flöskum. Þessi vatnsneysla hefur aukist verulega og fólk virðist vera tilbúið til þess að eyða miklum peningum í að kaupa vatn sem annars rennur nánast ókeypis úr krananum. Ef við berum t.d. verðið á vatnslítra í búðum saman við verð á bensíni á bensínstöðvum virðist vera hægt að selja kolsýrt vatn fyrir nánast helmingi hærra lítraverð en bensínið. Það segir okkur þá í krónum talið hvað við erum með verðmætt efni í höndunum.

Það kemur fram í greinargerðinni að neysla okkar á dag er um 200 lítrar sem þýðir 73 þús. lítrar á einstakling á ári hverju. Ef við leikum okkur að því að umreikna þetta og segjum að við notum 200 lítra á dag á 100 kr. lítrann sem væri búðarverðið --- það er náttúrlega óraunhæft --- erum við í rauninni að neyta vatns fyrir um það bil þá 20 þús. á dag. Við borgum núna á ári á mann 10--15 þús. kr. Það er alveg ljóst að við þurfum aðeins að taka til í okkar ranni varðandi viðhorf okkar til þessarar auðlindar. Þetta er auðlind á sama hátt og auðlindir annarra þjóða eru gull, járn, olía o.s.frv. Okkur ber að virða þessa auðlind á sama hátt og aðrir virða sínar auðlindir. En það þýðir hins vegar ekki að þó að við nýtum hana með þessum hætti útiloki það aðra nýtingu varðandi virkjanir, eins og kom hérna fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Ég vildi sem sagt með þessum örfáu orðum lýsa stuðningi við þá hugmynd sem liggur að baki þáltill. um neysluvatn. Ég mun styðja hana.