Óhreyfð skip í höfnum og skipsflök

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:36:12 (656)

2002-10-17 11:36:12# 128. lþ. 13.4 fundur 14. mál: #A óhreyfð skip í höfnum og skipsflök# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég er meðflutningsmaður hennar að þessari tillögu í annað sinn. Ég álít fulla þörf á yfirliti yfir það hvernig búið er að skipum sem ekki eru lengur notuð og safnast upp í höfnum landsins af ýmsum ástæðum. Að sjálfsögðu koma alltaf upp einhver álitamál um hvernig eigi að farga skipum reynist það nauðsynlegt.

Samkvæmt OSPAR-samningnum, eins og hv. þm. réttilega nefndi, eru ákvæði um að enn sé leyfilegt að sökkva skipum samkvæmt ákveðnum reglum eftir að þau hafa verið hreinsuð af öllum spilliefnum og öðru. Ég held samt að við höfum ekki sótt um undanþágu frá þessum samningi. Ég er ekki viss um að við getum sökkt skipum öðruvísi en að fá sérstakt leyfi til þess eins og staðan er í dag.

Víða um heiminn er það svo, ég þekki alla vega staði, að á ákveðnum svæðum í hafinu hafa menn ákveðið að sökkva megi skipum. Þar hafa skapast athyglisverðar, fyrst og fremst fyrir atvinnukafara og jafnvel fólk sem er að æfa sig við köfun og vill öðlast þjálfun, þ.e. að fá að vera innan um þessi skip, æfa sig inni í þeim og aðgerðir sem lúta t.d. að björgun úr skipum og öðru slíku. Þetta hefur dregið að fólk sem hefur áhuga á þessum málum. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að skip á sjávarbotni skapi skjól fyrir fiska og botndýr þannig að flökin geti í raun auðgað og hjálpað lífríkinu í hafinu.

Auðvitað er þó ekki hægt að gera svona hluti nema undir mjög góðu eftirliti og samkvæmt ákveðnu skipulagi. Það verður aldrei svo að hægt sé að sökkva öllum skipum og verður heldur ekki leyfilegt. Það verður að finna aðra leið. Ég held að það sem hér er lagt til sé mjög þarft og þess vegna mæli ég eindregið með því að þetta mál verði rætt þannig í hv. umhvn. að menn nái einhverri niðurstöðu í því.

Ég er hins vegar líka á tillögu þar sem gert er ráð fyrir að heimilt sé að sökkva skipum. Ég tel að þetta geti vel farið saman og þá fyrst og fremst með þeim formerkjum að skipin séu hreinsuð af öllum þeim efnum sem ekki mega vera í hafinu eða geta spillt umhverfi þess. Þetta verður allt að fara saman.