Óhreyfð skip í höfnum og skipsflök

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:51:54 (662)

2002-10-17 11:51:54# 128. lþ. 13.4 fundur 14. mál: #A óhreyfð skip í höfnum og skipsflök# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:51]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Í sumar höfðu menn samband við mig sem hafa mikinn áhuga á að taka að sér að eyða þessum skipum eða farga þeim með einhverjum hætti. Það eru fyrirtæki hér á landi sem geta gert þetta og eftir því sem þeir segja þá er þetta allt í sjálfu sér auðvelt. Þetta kostar peninga og er enginn gróðavegur eins og er, en hugsanlega væri hægt að finna það betur út ef nefnd yrði sett í málið sem skoðaði einhverjar sérstakar leiðir sem væri hægt að fara til að gera þetta hagkvæmara og það væri í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að slík nefnd skoðaði þetta mjög vel ofan í kjölinn.

En varðandi það hverju þarf að eyða af þessum skipum og hverju ekki þá geri ég mikinn mun á því hvort sökkt væri skipum sem eru byggð úr timbri eða stáli eða skipum sem eru byggð úr plasti eða jafnvel áli. Það er grundvallarmunur á þessu tvennu. Eins og ég sagði áðan, ég sé ekkert ónáttúrulegt eða umhverfisspillandi við það að sökkva skipum sem eru úr stáli og úr timbri, hreinsuðum, á hafsbotn þar sem menn vita nákvæmlega hvar þau eru og þau eru ekki fyrir neinum. Þetta getur aftur á móti skapað tækifæri og möguleika sem geta auðgað bæði mannlífið og dýralífið. Og auðvitað mundum við helst vilja að þetta gæti allt farið saman.