Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:31:52 (668)

2002-10-17 12:31:52# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:31]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í umræðum hér á Alþingi í gær um stöðu löggæslumála í landinu kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að á síðustu fimm árum hefðu framlög til málaflokksins aukist um 30%. Þrátt fyrir þessa aukningu glíma flest sýslumannsembætti landsins við stöðugan fjárhagsvanda sem oftar en ekki bitnar á fjölda stöðugilda lögreglumanna á svæði embættanna.

Eitthvað virðist á reiki með það hvert þessi aukning framlaga hefur farið og það sem skiptir ekki minna máli; það verður ekki séð að það hafi verið gerð tilraun til að meta þarfir hvers löggæsluumdæmis og skipta heildarfjárveitingum í samræmi við það. Þaðan af síður virðist hafa verið tekið tillit til þess breytta umhverfis sem við búum við. Mikil aukning eiturlyfjaneyslu hefur haft í för með sér fjölgun afbrota og meira ofbeldi, meira álag á lögregluna.

Við höfum undanfarið heyrt sögur af ótrúlegu ofbeldi sem viðgengst í heimi eiturlyfjaneytenda, jafnvel án þess að það sé kært. Umræðan um það verður vonandi til þess að við viðurkennum þetta breytta umhverfi sem við búum við og grípum til réttra aðgerða.

Álag í starfi lögreglumanna hefur aukist gífurlega, án þess að fullt tillit hafi verið tekið til þess við ákvörðun um fjölda stöðugilda. Þetta á ekki bara við hér á höfuðborgarsvæðinu. Ástandið víða um land er afar erfitt og alvarlegt.

Fyrir stuttu síðan barst okkur þingmönnum Suðurlands bréf frá Lögreglufélagi Suðurlands. Félagssvæði þess nær yfir embætti lögreglustjóranna á Selfossi, Hvolsvelli, Vík og Höfn. Á öllum þessum stöðum hafa lögreglustjórar á síðustu árum lent í erfiðleikum með rekstur embætta sinna sem hefur bitnað á löggæslumálum, þannig að lögreglumönnum hefur fækkað hjá embættunum.

Í bréfi þeirra kemur m.a. fram að í Rangárvallasýslu var ekki mögulegt að framlengja ráðningarsamning við einn ófaglærðan lögreglumann 1. sept. sl. Það var gert í sparnaðarskyni. Fjórir lögreglumenn hafa verið þar að störfum síðan 1983 en eru nú þrír.

Það, hæstv. ráðherra, er algerlega óviðunandi. Umhverfið hefur ekki staðið í stað í Rangárþingi síðan 1983 frekar en annars staðar og kröfur um aukna löggæslu fylgja breytingunum. Íbúar sýslunnar eru rúmlega 3.200, fjöldi íbúa á bak við hvern lögreglumann í Rangárvallasýslu er 1.070. Þar hefur Íslandsmet Kópavogs verið slegið. Auk þessa er fjöldi sumarbústaða á svæðinu og vinsælir ferðamannastaðir. Starfssvæðið er stórt og álagið mikið.

Í Árnessýslu er sama staða. Þar hafa verið kynnt þau áform að 25 lögreglumenn verði að störfum í stað 27. Heilbrrn. borgar fjórar af þessum stöðum vegna sjúkraflutninga. Umdæmið þarna nær yfir 9.000 ferkílómetra. Íbúatalan u.þ.b. 12.300 og 5.000 sumarbústaðir sem flestir eru nýttir allt árið. Fjölsóttir ferðamannastaðir eru einnig á svæðinu.

Hjá embættinu á Selfossi hefur safnast upp fjárhagsvandi sem mæta á í fjáraukalögum þessa árs með 50 millj. kr. fjárveitingu. Þó með því fororði að gerðar verði ráðstafanir til þess að reksturinn verði í samræmi við fjárheimildina frá og með árinu 2002.

Þar sem ekki verður séð að rekstrargrunnur þessa embættis hafi verið leiðréttur frekar en annarra embætta hlýt ég að áætla sem svo að fækkun lögreglumanna þar geti orðið viðvarandi og álagið á starfandi lögreglumenn verði óviðráðanlegt, þjónusta við íbúa svæðisins skert og ófært að sinna þeim skyldum sem lögreglan hefur.

Á Höfn var einnig um fækkun að ræða nú í haust. Þar koma til með að starfa þrír lögreglumenn í stað fjögurra. Í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir fjölgun um eitt stöðugildi. En vegna fjárhagsvanda þess embættis verður að grípa til þessara ráðstafana. Þó er embættið vel rekið að mati Ríkisendurskoðunar.

Félagssvæði Lögreglufélags Suðurlands nær yfir u.þ.b. 31.000 ferkílómetra landsins. Íbúatala um 19.000 manns fyrir utan svokallaða dulda búsetu en reikna má með að íbúatalan tvöfaldist vegna sumarbústaðabyggðar. Eftir fækkun, starfa á svæðinu 33 lögreglumenn. Það er algerlega óviðunandi á sama tíma og nauðsyn á öflugri löggæslu á öllum sviðum hefur aukist þar eins og annars staðar.

Hæstv. ráðherra. Embætti lögreglustjóra á þessu svæði og mörgum öðrum hafa verið stórlega vanmetin hvað varðar fjár- og mannaflaþörf. Við höfum áður rætt vanda þeirra hér á Alþingi en ekkert hefur gerst. Þó ætti ráðuneytið að hafa til þess þekkingu og mannafla að meta þessa stöðu og bregðast við. Þeir lögreglumenn sem þarna starfa hafa gegnt störfum sínum einstaklega vel en álagið á þá er óhóflegt og ekki bjóðandi.

Þessi umræða er tekin hér vegna þess að langlundargeð Lögreglufélags Suðurlands er þrotið. Bréf þeirra einkennist ekki af upphrópunum heldur staðreyndum um stöðu löggæslumála. Því spyr ég:

Hvert er mat dómsmálaráðherra á stöðu löggæslumála á félagssvæði Lögreglufélags Suðurlands sem nær yfir embætti lögreglustjóra á Selfossi, Hvolsvelli, Vík og Höfn í Hornafirði? Ef það er mat ráðherra að það sé óviðunandi hvenær má vænta úrbóta?

Hver er staðan í Vestmannaeyjum og Keflavík?

Hver telur ráðherra að sé viðeigandi íbúafjöldi á bak við hverja stöðuheimild löggæslumanns á þessum stöðum, að teknu tilliti til þess landsvæðis sem embættin ná yfir og dulda búsetu?

Er það mat ráðherra að um verulega misskiptingu sé að ræða við útdeilingu fjármagns ríkisins til lögregluembætta. Ef svo er hvað verður gert til þess að leiðrétta þá misskiptingu?