Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:56:21 (676)

2002-10-17 12:56:21# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:56]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er bara allt saman í ári góðu lagi. Löggæslan á Suðurlandi, þrátt fyrir bréfin frá formanni lögreglufélagsins á svæðinu og varaformanni sem eru nú, hv. þingmenn, starfandi þar .... (Dómsmrh.: Það er verið að bæta úr því.) Þeir eru starfandi þar. Ég er búin að heyra í eitt eða tvö ár frá hæstv. ráðherra að þetta sé allt saman í góðu gengi, sómasamlega staðið að málum. Það er bréf (Gripið fram í.) hér frá formanni lögreglufélagsins og varaformanni. Þið eruð líklega, hv. þingmenn, læs. Að ég skuli fara og kynna mér þetta betur! Ég veit bara ekki í hvaða veröld þið (Gripið fram í.) lifið. Haldið þið að formaður (Gripið fram í.) og varaformaður lögreglufélagsins á öllu Suðurlandi skrifi svona bréf með þeim tölum sem þar eru bara að gamni sínu? Og til hvers, eins og hv. þm. Kristján Pálsson sagði, að kjafta upp óánægju með löggæsluna? (KPál: Já.) Halda hv. þingmenn að svona bréf séu skrifuð til að kjafta upp óánægju með stöðu löggæslumála á Suðurlandi? (KPál: Sýslumenn eru ...)

Ég held að hv. þingmenn ættu að mæta á vinnustöðum hjá þessum mönnum með slíkan málflutning (Gripið fram í.) og athuga á hvern hátt þeim yrði mætt. Ég minni á, virðulegi forseti, samþykkt sveitarfélaga á Suðurlandi sem hv. þingmenn hafa örugglega líka kynnt sér varðandi þessi mál. Að koma síðan hér og segja: ,,Þetta er örvænting stjórnarandstöðu. Það er hundur sem hefur unnið fín verk í Eyjum.`` Þetta er málflutningur sem er engum sæmandi. Að koma svona fram, virðulegi forseti, við bréf sem send eru, það er hvers skömm. Hugsi hver fyrir sig.