Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:32:12 (678)

2002-10-17 13:32:12# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þessi umræða kemst að í dag og hæstv. forsrh., starfandi utanrrh., fyrir að vera hér til svara en þannig stendur einmitt á að málið er á dagskrá öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, var þar á dagskrá á fundi í gær og er sömuleiðis á dagskrá fundar í dag eða á morgun.

Heimsbyggðin hefur undanfarnar vikur og mánuði með ugg í brjósti horft upp á stríðsundirbúning. Bandaríkjamenn virðast hafa ákveðið að ráðast inn í Írak og skipta þar um stjórn hvað sem til þarf og jafnvel hvort sem til þess fæst samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða ekki.

Nú er engin deila um það að Saddam Hussein er einn allra ógeðfelldasti harðstjóri okkar tíma og heimsbyggðin mundi væntanlega án undantekninga og þar á meðal einnig almenningur í Írak upp til hópa fagna því ef hann hyrfi frá völdum. En ekki er þar með sagt að það réttlæti að einstök ríki taki sér vald til einhliða aðgerða. Þvert á móti hafa flestar þjóðir lagst gegn slíku og þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu Bandaríkjamanna hefur þar ekki orðið mikil breyting á. Nú síðast hefur Alkirkjuráðið sent áskorun til öryggisráðsins þar sem tekið er svo djúpt í árinni að segja að árás á Írak yrði bæði ólögleg og ósiðleg. Írakska þjóðin hafi liðið nóg undir 11 ára viðskiptabanni og á þær hörmungar sé ekki bætandi.

Helsti stuðningsmaður Bandaríkjamanna í málinu hefur verið Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, þrátt fyrir umtalsverða andstöðu heima fyrir og skiptar skoðanir þar.

Nýlega hafa Frakkar, Rússar, Ítalir og fleiri þjóðir endurtekið og áréttað andstöðu sína við einhliða aðgerðir og við ályktun í öryggisráðinu sem heimilaði hernaðaraðgerðir fyrir fram.

Aðallega hafa verið færð tvenn rök fyrir því að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða gegn Írak. Þau fyrri að þeir séu að koma sér upp eða gætu mögulega komið sér upp gereyðingarvopnum verði ekki að gert og þau síðari að Írak virði ekki ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Viðskiptabann sem staðið hefur í 11 ár með miklum hörmungum fyrir almenning hefur þá, ef marka má þetta a.m.k. ekki skilað þeim árangri sem ætlunin var, að koma í veg fyrir að Írakar kæmu sér upp gereyðingarvopnum í gegnum viðskipti. Sömuleiðis hefur viðskiptabannið ekki leitt til þess að staða Saddams Husseins í írökskum stjórnmálum hafi veikst. Þvert á móti færa margir fram rök fyrir því að viðskiptabannið hafi einmitt tryggt hann í sessi.

Margir hafa áhyggjur af því að átök kynnu að breiðast út í Miðausturlöndum og ég vitna í því sambandi t.d. til stórfróðlegs erindis dr. Magnúsar Bernharðssonar, sérfræðings í málefnum Austurlanda og málefnum Íraks, sem hann hélt í Háskóla Íslands fyrir nokkrum dögum. Eins og áður sagði eru þessi mál á dagskrá Sameinuðu þjóðanna og nú dregur til úrslita um það með hvaða hætti öryggisráðið gengur frá þeim skilmálum sem vopnaeftirlitið fer eftir og hvort vilji Bandaríkjamanna nær fram að ganga um að heimiluð verði valdbeiting fyrir fram eða hvort beðið verður með slíkt þar til látið hefur verið á vopnaeftirlitið reyna. Í gær gaf utanríkisráðherra Noregs, Jan Petersen, norska Stórþinginu upplýsingar um afstöðu Norðmanna en þeir fara eins og kunnugt er með atkvæðisrétt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á þessu ári og þar var sérstök áhersla lögð á að allar aðgerðir þyrftu að eiga sér stoð í skýrum heimildum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil því óska eftir því, herra forseti, að gerð verði grein fyrir afstöðu ríkisstjórnar Íslands í þessu sambandi eftir því sem mögulegt er við núverandi aðstæður og hef leyft mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. forsrh., starfandi utanrrh.:

1. Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til hugsanlegrar innrásar Bandaríkjanna í Írak?

2. Hefur ríkisstjórnin tekið afstöðu til fyrirhugaðs tillöguflutnings Bandaríkjanna í öryggisráðinu um að hernaðaraðgerðir verði samþykktar fyrir fram (ein ályktun) og þetta byggir þá á því að Bandaríkjamenn héldu afstöðu sinni til streitu?

3. Hvernig metur ráðherra hættuna á því að innrás í Írak leiði til útbreiddra stríðsátaka í Miðausturlöndum sem gætu falið í sér þátttöku herskárra hópa frá mörgum ríkjum í þessum heimshluta og tilraunir til að draga Ísrael inn í ófriðinn? Ég minni á í því sambandi að öfugt við ástandið 1991 þegar Flóabardagi fór fram hafa Ísraelsmenn nú hótað því að svara fyrir sig.

4. Hvernig metur ráðherra áhrifin af mögulegri innrás í Írak sem m.a. yrði réttlætt með því að Írakar hefðu brotið gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðuna í deilu Ísraela og Palestínumanna í ljósi ítrekaðra brota Ísraelsstjórnar á ályktunum öryggisráðsins?