Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:51:06 (684)

2002-10-17 13:51:06# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Saddam Hussein varð ekki harðstjóri, illmenni eða einræðisherra 11. sept. árið 2001. Hann hefur verið við völd í Írak frá 1979 og árið 1988, þegar efnavopnum var varpað á þorp og bæi í Kúrdistan, var hann látinn óáreittur af Bandaríkjastjórn og Bretastjórn. Þá var hann bandamaður þeirra í baráttunni við klerkaveldið í Íran og þá stóð taflið eilítið öðruvísi.

En hverjir eru bandamenn Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum helstir?

Ariel Sharon í Ísrael --- sem því miður virðist eiga þá ósk heitasta að með átökum í Írak megi beina athygli heimsins frá ástandinu í Palestínu og þar megi þá ganga milli bols og höfuðs á þeirri þjóð.

Saudí-Arabía --- ekki þekkt fyrir ást sína á lýðræði, stjórnin þar. Harðstjórar hafa margir kallað þá. Mesta olíuveldi í heimi.

Kúveit --- enn hafa konur ekki fengið kosningarrétt í Kúveit. Samt fóru Sameinuðu þjóðirnar í stríð fyrir 11 eða 12 árum síðan til að frelsa það land.

Hér býr margt að baki, herra forseti, og það er ekki svo einfalt að hægt sé að tengja stjórnina í Írak við hryðjuverkamenn eða hryðjuverkaárásir. Það að afvopna Írak er eitt mál og skyldi ekki rugla saman við að koma Saddam Hussein frá völdum eins og Jacques Chirac Frakklandsforseti benti okkur á í gær. Þessu tvennu þarf að halda aðskildu og það verður líka að vera þannig, herra forseti, að ef farið verður í stríð þarf að vera algjörlega ljóst hvernig eigi að standa að uppbyggingunni þegar því er lokið, hverjir eigi þá að komast til valda og hvort lýðræði og mannréttindi verði virk. Og við sjáum það því miður nú þegar í Afganistan að ríku þjóðirnar eru að kippa að sér hendinni þegar kemur að því að fjármagna þá uppbyggingu sem þar er nauðsynleg.