Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 14:16:59 (691)

2002-10-17 14:16:59# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Þetta er tillaga á þskj. 16, 16. mál þessa þings. Flm. ásamt mér eru aðrir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlunin feli í sér sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum og eftir atvikum tillögur til úrbóta:

kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgang að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,

aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,

kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,

aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,

kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipta í smáatvinnurekstri,

kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,

skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,

stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði af samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,

stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,

stöðu frumkvöðla,

stöðu uppfinningamanna.

Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2003 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti.``

Tímans vegna, herra forseti, rökstyð ég einstaka liði ekki nánar. Ég vil þó sérstaklega nefna annan liðinn, þ.e. aðgang smáatvinnurekstrar að fjármagni og aðstöðu gagnvart nauðsynlegri fjármálaþjónustu. Ég hygg að menn séu sammála um að ekki sé síst ástæða til að hafa áhyggjur af því að þar rekist atvinnurekstur í smáum stíl, frumkvöðlar, uppfinningamenn og aðrir slíkir, gjarnan á þröskulda sem jafnvel ríði tilraunum þeirra til stofnunar atvinnurekstrar að fullu.

Sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála á landsbyggðinni í þessum efnum. Það er óumdeilt að þar er erfiðara um vik að sækja fjármagn t.d. með veði í fasteignum. Tiltrú fjármálastofnana á slíka starfsemi á landsbyggðinni á sannarlega á brattann að sækja.

Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af aðgangi kvenna að fjármagni. Það eru ekki síst þær sem stofna gjarnan með hugviti og útsjónarsemi til smáatvinnurekstrar um þessar mundir. Þar getur verið á brattann að sækja.

Varðandi skattamálin vil ég nefna að þau snúa ekki aðeins að almennum skattalegum reglum þar sem smáatvinnurekstur getur í sumum tilvikum verið lakar settur, einfaldlega vegna þess að hann hefur minni möguleika til að nýta sér undanþágur og heimildir en atvinnurekstur í stærri stíl. Ég minni á að víða í löndum í kringum okkur er skattalegu hagræði beitt til að hvetja menn til stofnunar fyrirtækja, til að auðvelda þeim fyrstu skrefin í þeim efnum, m.a. með því að létta mönnum róðurinn vegna fjármögnunar rannsókna, þróunarkostnaðar og annars af því tagi.

Herra forseti. Ég held að það sé kunnara en frá þurfi að segja að frumkvæði einyrkja, brautryðjenda og uppfinningamanna og starfsemi smárra og meðalstórra fyrirtækja í vexti er drifkraftur og meginundirstaða framfara í efnahags- og atvinnumálum hvers lands. Þetta er orðin nokkuð óumdeild staðreynd og hefur mikið breyst í þeim efnum frá árunum eftir seinni heimsstyrjöld þegar hið almenna viðhorf var að fyrst og fremst umsvif stórfyrirtækja drifu áfram hagvöxt og síðan kæmu þeir molar sem af þeim borðum hrytu öðrum til góða. Þá var talað á vondu máli um ,,spin-off`` sem af starfsemi stórfyrirtækjanna leiddi. Menn trúðu því almennt að atvinnulífi hverrar þjóðar væri algjör lífsnauðsyn að eiga slík stórfyrirtæki og fátt gæti komið þar í staðinn.

Á árunum í kringum 1960 og fram undir 1980 tóku þessi viðhorf að breytast, fyrst vegna þess að kannanir sýndu að öfugt við það sem haldið var voru það smáfyrirtækin, ný fyrirtæki og smáfyrirtæki í vexti, sem lögðu til mestan fjölda nýrra starfa. Þá tóku viðhorfin talsvert að breytast í þessum efnum. Nú hefur það bæst við að mönnum er orðið ljóst að ekki bara ný störf heldur hvers kyns nýsköpun, þróun uppfinningar og framfarir í atvinnurekstri, eiga sér mjög gjarnan uppsprettu í starfsemi smáfyrirtækja, einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna. Nýsköpunin gengur þaðan upp á við í keðjunni, fyrirtækjakeðjunni ef svo má að orði komast, ýmist í gegnum það að slík fyrirtæki stækki og umsvif þeirra aukist hratt vegna uppfinninga, nýrra lausna sem menn hafa dottið niður á, eða vegna hins að stórfyrirtækin kaupa þessa þekkingu, kaupa framleiðsluleyndarmál og annað slíkt með því að kaupa upp smærri atvinnurekstur.

Það liggur t.d. fyrir, herra forseti, að meira en helmingur af samanlagðri þjóðarframleiðslu allra Evrópulanda kemur frá slíkum litlum og meðalstórum aðilum, þeim sem kallaðir er á ensku SME, þ.e. Small or Mediumsize Enterprises. Stórfyrirtæki og fjölþjóðafyrirtæki leggja þarna til minni hluta af samanlagðri þjóðarframleiðslu, öfugt við það sem margir kynnu að halda. Kannanir, bæði austan hafs og vestan, hafa sýnt að allt að 70% nýrra starfa í hinu almenna atvinnulífi verða til í nýjum smáfyrirtækjum eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum í vexti. Þetta gerist þrátt fyrir alla þá athygli sem umsvif stórfyrirtækja og fjölþjóðafyrirtækja fá.

Ekki er síður, herra forseti, nauðsynlegt að líta til þess að atvinnurekstur í smáum stíl og starfsemi einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna, er drifkraftur hvers kyns nýsköpunar. Þar kemur margt til. Það sýnir sig að smáfyrirtæki eru viðbragðsfljót og aðlagast iðulega miklu fyrr breyttum aðstæðum en stærri fyrirtæki gera. Smáfyrirtækin eru fundvís á nýja möguleika og ný tækifæri. Þau skynja fyrr breyttar aðstæður á markaði og uppfylla þarfir sem öðrum hefur yfirsést.

Mikilvægi smáfyrirtækja í byggðaþróun á mögulegri atvinnuuppbyggingu í fámennari byggðarlögum er ótvírætt. Oft hafa orðið ævintýri og nánast kraftaverk í atvinnumálum, einmitt vegna þess að fólk hefur neitað að gefa upp búsetu í heimabyggðum sínum og farið út í að skapa sér sjálft atvinnu vegna þess að annað var ekki í boði. Þetta er atvinnuþróun af því tagi sem er drifin áfram af þörf viðkomandi aðila fyrir að skapa sér störf, tekjur og framfærslu.

Hinn megindrifhvatinn er það sem kallað er tækifæri, þ.e. þegar menn hafa atvinnu fyrir og eru ekki sérstaklega að hefja atvinnurekstur vegna þess að þeir þurfi að skapa sjálfum sér störf. Þau gætu þeir fengið hjá öðrum. Menn eygja hins vegar stundum tækifærin og grípa þau. Það þarf ekki að fara mörgum orðum, herra forseti, um hversu mikilvægt er að hlúð sé að hvers kyns starfsemi af þessu tagi, sérstaklega með hagsmuni minni byggða og byggðamála í huga.

Þá vil ég sérstaklega nefna frumkvæði kvenna í atvinnulífinu. Það kemur að sjálfsögðu ekki síst fram í gegnum stofnun nýrra fyrirtækja og smáfyrirtækja þar sem konur eygja með útsjónarsemi sinni tækifæri í viðskiptum sem aðrir hafa ekki nýtt. Ísland er að sjálfsögðu engin undantekning. Í því samandi má nefna fjölda fyrirtækja sem konur hafa aðallega verið í forsvari fyrir eða hafa byggt upp á undanförnum árum og áratugum. Þar má nefna ýmis svið viðskipta, m.a. ferðaþjónustu, menningu og listir, handverks- og smáiðnaðarframleiðslu, ráðgjafarþjónustu ýmiss konar og framleiðslustarfsemi, svo sem á snyrti-, lyfja- og heilsuvörum. Nýlega var í einu af blöðum landsmanna fjallað um merkilegt framtak ungrar konu við útflutning á þurrkuðu fiskroði sem lúxusfæðu fyrir gæludýr. Þar er gott dæmi um hugkvæmni og hvernig menn geta gert sér mat úr góðri hugmynd. Í sjálfu sér er þar að þakka hugviti og þekkingu fyrst og fremst þar sem hráefnið sem til fellur var ekki hátt skrifað, a.m.k. ekki áður.

Herra forseti. Hið ánægjulega við frumkvæði smáfyrirtækjanna, frumkvöðlanna og uppfinningamannanna, og ekki síst kvenna í atvinnumálum, byggist oft á því að skapa verðmæti úr hlutum sem áður fóru forgörðum eða voru ekki nýttir. Það má t.d. segja það um áðurnefnda fiskroðsvinnslu og verðmæti unnin úr íslenskum jurtum og jarðefnum, ekki síst í lyfja-, snyrtivöru- og heilsuvöruframleiðslu. Brandarar margra sem talað hafa af fyrirlitningu um íslensk fjallagrös, hundasúrur og annað því um líkt, fara fyrir lítið þegar höfð er í huga sú tölulega staðreynd að fjöldi fyrirtækja, ekki síst þeirra sem stofnuð hafa verið af konum, gerir sér mikil verðmæti úr íslenskum náttúruefnum, grösum, jurtum og jarðefnum. Þau hafa komið vörumerkjum á kortið og á alþjóðlegan markað.

Herra forseti. Menn í nálægum löndum hafa auðvitað þegar og fyrir löngu gert sér grein fyrir mikilvægi þessara þátta, að hlúa að frumkvöðlastarfi, uppfinningum og smáatvinnurekstri. Það hafa menn að sjálfsögðu gert á Íslandi einnig en ég hygg að það sé meira en tímabært að koma þeim málum betur og myndarlegar á dagskrá en hingað til hefur verið gert og láta þess sjá stað, ekki bara í veikburða tilraunum til atvinnuþróunar úti í einstökum byggðarlögum eða hjá opinberum stofnunum, eins og Iðntæknistofnun og Byggðastofnun, heldur líka í umræðum hér á hinu háa Alþingi og í stefnumótun þar um.

Í Evrópusambandinu er m.a. í gildi sérstakur sáttmáli um smá og meðalstór fyrirtæki, European Charter for Small Enterprises heitir það á ensku. Nýlega var það samþykkt í Norðurlandaráði, að frumkvæði atvinnumálanefndar Norðurlandsráðs þar sem ræðumaður á nú reyndar sæti, að samþykktur verði sérstakur norrænn sáttmáli fyrir smá fyrirtæki, frumkvöðlafyrirtæki og uppfinningamenn. Efnahags- og atvinnumálaráðherrar Norðurlandanna samþykktu einmitt drög að þessum sáttmála á fundi sínum 7. okt. sl. Þó að hér sé ekki um að ræða ýkja viðamikið plagg er þarna settur ákveðinn rammi um stuðning stjórnvalda við þessa starfsemi. Með því er auðvitað fyrst og fremst verið að undirstrika mikilvægi þessa. Menn viðurkenna að fyrir efnahagslega velsæld, hagvöxt og örugga atvinnu á komandi árum og áratugum munu smáfyrirtæki og vöxtur í litlum og meðalstórum fyrirtækjum skipta sköpum. Þar ráða ekki hinar einföldu, stóru pakkalausnir sem allt of margir setja því miður allt sitt traust á og trúa á í blindni.

[14:30]

Herra forseti. Ég var að koma af ráðstefnu í Ósló þar sem Norræni iðnþróunarsjóðurinn og Norðurlandaráð stóðu fyrir mikilli ráðstefnu um þessi málefni. Þar voru fluttir stórfróðlegir fyrirlestrar af lærðum mönnum í þessum efnum, bæði norrænum, breskum, bandarískum, kanadískum og fleiri þjóða fræðimönnum. Eitt var þeim öllum sameiginlegt. Enginn sem þarna tók til máls efaðist um að þekkingin mundi skipta sköpum í atvinnulífi og velsæld þjóða á komandi árum og áratugum, þ.e. hugvit og frumkvæði í litlum fyrirtækjum sjálfstæðra uppfinningamanna og frumkvöðla var talið gera gæfumuninn. Með öðrum orðum setja menn ekki traust sitt á að fjölþjóðafyrirtæki eða stórfyrirtæki leggi til hrygglengjuna í þessum efnum.

Ég get ekki neitað því, herra forseti, að mér varð á að hugsa stundum, á þessari ráðstefnu, á þriðjudag og miðvikudag, að margir ónefndir menn sem blanda sér stundum í umræður um þessi mál hér á Íslandi hefðu mátt vera þarna og nema þennan fróðleik. Hér er að mínu mati enn ónógur skilningur á mikilvægi þessa hluta atvinnulífsins og allt of mikil blind trú á hinar stóru lausnir.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. iðnn. þar sem um atvinnuþróunar- og byggðamál er að ræða.