Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 14:39:12 (693)

2002-10-17 14:39:12# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, og það eru allir hv. þm. þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem standa að þessari þáltill. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta sem tveir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, hafa sagt hér.

Þó langar mig, herra forseti, til að koma því hér aðeins að í umræðuna sem hefur verið að gerast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði frá því sem gerst hefði á vettvangi Evrópusambandsins og Norðurlandaráðs en það var afar athyglisvert sem íslenskir þingmenn sem sóttu heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fengu að heyra hjá frjálsum félagasamtökum og baráttusamtökum sem hana sóttu. Stuðningur við fyrirtæki af smærra taginu var eitt af því sem félagasamtökin lögðu hvað mesta áherslu á í umræðunni um atvinnustefnuna.

Þegar grannt er skoðað, herra forseti, er sannleikurinn auðvitað sá að stórfyrirtæki veraldarinnar sem hafa í auknum mæli verið að hasla sér völl, ekki hvað síst í þriðja heiminum síðustu árin, hafa verið að eyða lággróðri atvinnulífsins í þessum löndum. Það er auðvitað það sem þjóðir þriðja heimsins ekki hvað síst súpa núna seyðið af. Þessi yfirgangur stórfyrirtækjanna hefur verið studdur af stórum stofnunum Vesturlanda, má þar nefna Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann. Sömuleiðis hafa mjög öflugar fjármálastofnanir lánað stórfyrirtækjum fjármuni til að leggja undir sig nánast heilu atvinnusvæðin í þróunarlöndunum. Afleiðingar þessarar yfirtöku stórfyrirtækjanna eru fyrst og fremst þær að lággróðurinn deyr. Litlu bændurnir flosna upp. Litlu iðnaðarfyrirtækin leggjast af. Allur smáiðnaður og smærri fyrirtæki eiga virkilega undir högg að sækja.

Í ýmsum löndum hefur þetta gengið svo langt að þjóðirnar sem þessi lönd byggja eru mjög uggandi og finnst í sjálfu sér sem þær séu kúgaðar af stórfyrirtækjunum. Þessi umræða er í gangi vítt og breitt um heiminn núna og var vakin veruleg athygli á henni á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Meðal þeirra baráttumanna sem sóttu þá ráðstefnu var fræg baráttukona frá Indlandi, Vandana Shiva, sem gerði ráðstefnumönnum grein fyrir því að þegar við tökum ákvörðun um að versla, hvort sem við kaupum vöru eða þjónustu, verðum við öll að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif ákvörðun okkar hefur. Hún hefur ekki bara áhrif á okkur sem kaupendur þjónustunnar eða kaupendur vörunnar. Okkar ákvörðun hefur áhrif út fyrir það.

Vandana Shiva sagði söguna af sjálfri sér, þegar nælonkjólarnir flæddu yfir Indland þegar hún var að vaxa úr grasi. Hún og systur hennar langaði að eignast nælonkjól. Þær spurðu mömmu sína á endanum, í tilefni af afmæli Vandana Shiva, hvort þær mættu kaupa sér nælonkjóla. Móðir þeirra svarði: ,,Að sjálfsögðu megið þið kaupa ykkur nælonkjóla en ég vil samt að þið hafið eitt í huga áður en þið takið þá ákvörðun. Ef þið takið ákvörðun um að kaupa nælonkjól eruð þið að sjá til þess að ríkur Vesturlandabúi geti keypt sér einn Mercedes Benz í viðbót, en ef þið kaupið ykkur indverskan shari, handofinn úr indverskri bómull sjáið þið til þess að indversk móðir geti gefið börnunum sínum að borða í kvöld.``

Þetta er einmitt þýðing þess að standa við bakið á smærri iðnaði, smáfyrirtækjum og þeim atvinnurekstri sem á beinar rætur í hvaða samfélagi sem er. Þetta er ástæða þess að við eigum að sporna við yfirgangi stórfyrirtækjanna. Tillagan sem hér er á borðum okkar styður lággróðurinn. Hún eykur möguleika fjölbreytilegs atvinnulífs og vinnur gegn brjálaðri stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er þess vegna öflugt mótvægi við þá atvinnustefnu sem ríkisstjórnin hefur keyrt hér fram af miklu offorsi. Þess vegna fullyrði ég, herra forseti, hér er um afar kröftuga tillögu að ræða sem gæti gagnast smærri fyrirtækjum og miðlungsstórum fyrirtækjum um allt land.