Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 14:50:56 (695)

2002-10-17 14:50:56# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Nokkur orð aftur í lokin á þessari umræðu, ef þetta eru lokin. Það hefði að vísu verið fróðlegt, ég tek undir það með síðasta ræðumanni, að heyra viðhorf fulltrúa eða talsmanna fleiri stjórnmálaflokka um þetta mál. Ég vona að það beri ekki að skilja sem áhugaleysi á viðfangsefninu þó að fleiri blandi sér ekki í umræðuna.

Út af fyrir sig er það ekki nýtt að þessir hlutir fái minni athygli á Íslandi en vera skyldi. Maður verður kannski ekki hvað síst undrandi þegar maður fer að kynna sér hvernig þessi mál standa í nálægum löndum, þegar maður áttar sig á hversu gríðarlegur munur er á þeirri athygli sem frumkvöðlastarfi, nýsköpunarstarfi og uppbyggingu atvinnurekstrar í smáum einingum, er sýndur í nágrannalöndunum borið saman við það sem er á dagskrá hér á landi. Vil ég þó taka það skýrt fram, herra forseti, að ég er ekki að varpa rýrð á það ágæta starf sem ýmsir aðilar reyna að vinna af veikum mætti hér innan lands. Nefni ég þá sérstaklega atvinnuþróunarfélög landshlutanna eða byggðanna. Þar er vissulega reynt en af miklum vanefnum að leggja lið ýmiss konar nýsköpunarstarfi. Ég nefni líka Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og frumkvöðlasetur og frumkvöðlastarfsemina þar. Stofnaðir hafa verið sjóðir og hrint af stað ýmsum verkefnum en ekki alltaf kannski orðið mikil eftirfylgni í þeim efnum.

Við höfum, eins og hér kom fram, reynt með ýmsum hætti að leggja lið atvinnusköpun og nýsköpun með fjölbreytni í atvinnumálum að leiðarljósi, m.a. margvíslegum tillöguflutningi á þingi. Við höfum, svo nokkuð sé nefnt eftir minni, flutt hér tillögur um aðgerðir til endurreisnar skipaiðnaði. Við höfum flutt tillögur um breiðbandsvæðingu landsins til að bæta aðstæður manna til fjarskipta og til að vera þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og upplýsingatækninni. Við höfum flutt tillögur sem lúta að hagsmunum sementsframleiðslunnar, stofnstyrkjum til áframeldis kaldsjávarfiska, mótun sjálfbærrar atvinnustefnu, þessa tillögu sem hér er á dagskrá og og fleira mætti nefna.

Eins og ég segi, herra forseti, er það kannski ekki síst það sem ég tel að við þurfum að gera í umræðum um þessi mál hér, að koma því á dagskrá með sambærilegum hætti og fyrir löngu er búið að gera í nágrannalöndunum, og eftirfylgni af hálfu stjórnvalda. Ég nefndi hér, en kannski hefur það farið fram hjá mönnum og ég minnist þess varla að hafa heyrt það í umræðum um atvinnumál á Íslandi áður, að nú er svo komið að það er bæði til evrópskur sáttmáli og norrænn sáttmáli um málefni atvinnurekstrar í smáum stíl. Ég held að þeir séu ekki til á íslensku. Ég hef þá a.m.k. ekki í höndunum. Hefði svo verið hefði ég látið birta þá sem fylgiskjöl með þessari þáltill. The European Charter for Small Enterprises er núna tveggja til þriggja ára gamall sáttmáli ef ég man rétt, og er talsvert viðamikið plagg þar sem meginreglur eru lagðar niður, þar sem línur eru lagðar fyrir aðgerðir og þar sem tekið er á og fjallað um hluti eins og menntun og þjálfun, hvernig hægt sé að gera fólki ódýrara og auðveldara að stofna fyrirtæki, bæta lög og reglur, auka tækniþekkingu, aðgang að netinu og upplýsingasamfélaginu, nýta innri markaðinn, skatta, fjármál og fleira í þeim dúr. (Gripið fram í: ESB?) Og glaðnar þá kannski yfir manni og manni þegar þeir átta sig á að þetta mál er m.a. á dagskrá í Evrópusambandinu. Það kannski dugar til að kveikja þann áhuga að einn og einn maður hafi sig hér upp í ræðustólinn úr því að þetta er að einhverju leyti ættað úr eða sótt í smiðju Evrópusambandsins.

En það er ekki reyndar bara það, herra forseti, heldur hefur víðar verið unnið margvíslegt starf af þessu tagi. Ég nefni þar sérstaklega auðvitað Norðurlöndin sem ég hygg að að öðrum ólöstuðum, og næst á eftir löndum eins og Kanada, Hollandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Nýja-Sjálandi, hafi verið í fararbroddi í þessum efnum. Þessa sér m.a. stað í atvinnustefnu Norðurlandanna og þessa sér stað í þessum nýja norræna sáttmála sem heitir upp á dönsku, með leyfi forseta, Nordisk charter for små innovativ virksomheder, iværksættere og selvstændige opfindere og er á ágætri dönsku.

Í Svíþjóð, svo að dæmi sé tekið um það hvernig unnið er að þessum málum þar, er rekin heil stofnun sem einbeitir sér að rannsóknum á smáfyrirtækjum og frumkvöðlastarfsemi. Hún er skammstöfuð ESBRI, Institutet för Entreprenörskaps- och småföretagsforskning. Þessi stofnun einbeitir sér að rannsóknum á þessu sviði, gefur út ársfjórðungslegt tímarit og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Í Bretlandi er um alþjóðlegt starf að ræða. Þar er gefið út árlegt rit sem skammstafað er GEM og stendur fyrir upp á enskuna --- mér þykir leitt að þurfa að vaða hér á milli tungumála, herra forseti, en því miður er það svo að þessi litteratúr er ósköp einfaldlega ekki til á íslensku (Gripið fram í: Á ég að þýða fyrir þig?) --- þetta stendur fyrir Global Entrepreneurship Monitor. Þetta er ársrit þar sem kortlagt er hvernig þátttökulöndin, sem fjölgar ört núna ár frá ári í þessu samstarfi, standa að málum í þessum efnum, hvað þau eru að gera til þess að styðja við bakið á frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í atvinnulífi með sérstakri áherslu á atvinnurekstur í smáum stíl. Mér er kunnugt um að Ísland er að koma inn í þetta starf og verður væntanlega með í ársritinu fyrir 2002 í gegnum þátttöku Háskólans í Reykjavík í þessu samstarfi, og er það vel. Þá fáum við að sjá hvernig Ísland stendur sig á þessum kvarða.

Í Danmörku, svo að eitthvað sé nefnt, er árleg verðlaunasamkeppni þar sem sjónum er sérstaklega beint að frumkvöðla-, nýsköpunar- og upplýsingastarfi, og horft til uppfinningamanna og sjálfstætt starfandi aðila í þeim efnum. Fleira mætti telja í þessum dúr, herra forseti.

Ég nefni þetta fyrst og fremst hér til að draga athyglina að því hversu mikið er að gerast í þessum efnum í löndunum í kringum okkur og hversu mikilvægt er að við Íslendingar tökum á í þessum efnum en sitjum ekki gaddföst í einhverri áratugagamalli og úreltri þungaiðnaðarstefnu sem flestar aðrar þjóðir hafa fyrir lifandi löngu horfið frá í þeim skilningi að menn treysta ekki á atvinnuuppbyggingu á slíkum sviðum sem uppsprettu hagvaxtar og nýrra starfa á komandi árum og áratugum.

Nýleg norsk rannsókn, herra forseti, má kannski verða mönnum aðeins umhugsunarefni í þessum efnum þegar verið er að bera saman hin ólíku verðmæti, annars vegar hin efnislegu og hins vegar hin huglægu, þau sem liggja í hugviti og mannauði þjóðanna. Það var reynt að slá á það máli hvernig þessir hlutir vægju saman í Noregi og niðurstaðan varð sú að hugvitið og mannauðurinn sem Norðmenn eiga, þessi 4,5 milljóna þjóð, væri 15 sinnum verðmætari --- en hvað? --- en allur olíuauður Norðmanna sem er óunninn og það sem þeir hafa lagt fyrir í olíusjóðnum. Fimmtán sinnum verðmætara en olían er mannauðurinn og hugvitið í Noregi. Ætli okkur mættu ekki verða þessi hlutföll og margt fleira til umhugsunar. Nú veit ég ekki hvernig þetta er nákvæmlega reiknað eða fundið út og hversu mikil nákvæmnisvísindi þetta eru en það skiptir varla öllu máli, það sem hér er svo sláandi eru þessar gjörólíku stærðargráður. Og þetta eru ekki útreikningar út í loftið, þetta er mat færustu manna á því hvað hvor þátturinn um sig muni skila í framtíðarhagsæld í Noregi, þekking og mannauður annars vegar og olíuverðmætin hins vegar. Matið er að þarna séu hin huglægu verðmæti 15 sinnum verðmeiri en sjálft svartagullið.

[15:00]

Þetta held ég, herra forseti, að við verðum að skoða. Við þurfum svo sem ekki að sækja vatnið yfir lækinn í þessum efnum. Það er ósköp einfaldlega staðreynd að þegar skoðað er hvaða greinar íslensks atvinnulífs vaxa hraðast þessi árin og koma í raun og veru mest á óvart eru það eiginlega allt saman þekkingarbundnar greinar. Það eru að verða til ótrúleg verðmæti allt í einu úr þekkingu sem Íslendingar hafa byggt upp og úr fyrirtækjum sem einstaklingar koma á framfæri með hugviti sínu. Það eru ekkert óskaplega mörg ár síðan Íslendingar hófu t.d. útflutning lyfja yfir höfuð, og einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að ein helsta vaxtargrein í íslensku atvinnulífi og íslenskum iðnaði væri lyfjaútflutningur. Hann hefur vaxið með ótrúlegum hraða síðustu árin, og Íslendingar eru á góðri leið með að eignast stórveldi á því sviði þar sem er hagkvæm og vel rekin lyfjaframleiðsla sem nýtir sér markaðsmöguleika þegar sérleyfi falla niður á lyfjum eftir að einkaleyfatímabili uppfinningaaðilanna lýkur.

Önnur grein sem hefur vaxið ævintýralega er auðvitað ferðaþjónustan. Hún hefur mikla kosti í þeim skilningi að hún dreifir afrakstri sínum mjög víða um samfélagið. Hún er tiltölulega mannaflsfrek og vöxtur á því sviði kemur þar af leiðandi mjög víða við, hríslast út um allan þjóðarlíkamann og styrkir þá innviði sem við höfum byggt upp í samgöngum, þjónustu o.s.frv. Raftækniiðnaður, lyfja-, heilsu- og snyrtivöruiðnaður og margs konar framleiðsla úr íslenskum náttúruefnum, grösum, m.a. fjallagrösum sem sumir hafa feilað sig á að tala háðslega um úr þessum ræðustóli, vex mjög hratt. Ég hvet menn til þess að vera dyggir lesendur Hagtíðinda og skoða hvernig einstakir flokkar útflutningsgreina þróast þar milli ára. Það er mjög fróðleg lesning, herra forseti, þar sem er vöxtur á ferðinni á ýmsum sviðum atvinnulífs sem menn hefði ekki órað fyrir fyrir 5--15 árum, t.d. allur sá fjölbreytti rafeindaiðnaður og þjónustuiðnaður sem núna vex mjög hröðum skrefum og varð ekki til sem útflutningsgrein í þessu landi fyrr en fyrir svona fyrir 10--20 árum.

Að lokum, herra forseti, nefni ég aftur roðið. Það er svo sláandi skemmtilegt að velta fyrir sér t.d. þeim tveimur fyrirtækjum, þótt ólík séu að stærð, sem núna eru að þreifa fyrir sér með útflutning, verðmæti úr fiskroði, og sýnir okkur hvað hægt er að gera með hugviti og útsjónarsemi. Þar er annars vegar um að ræða það fyrirtæki sem ég nefndi og er nú sennilega orðið frægt eftir umfjöllun Morgunblaðsins þar sem er um að ræða útflutning á þurrkuðu fiskroði sem gæludýrafóðri, lúxusfóðri. Snakk heitir það víst --- ég veit ekki hvort til er betra íslenskt orð yfir það --- fyrir gæludýr og gæti vel átt eftir að leggja Bandaríkjamarkað að fótum sér. Við skulum bara vona að svo verði. Hins vegar er það sútað fiskroð sem hráefni í hágæðatískuvörur sem fyrirtæki norður á Sauðárkróki, í tengslum við Loðskinn, sútunarfyrirtæki þar, hefur verið að ná ótrúlegum árangri við að markaðssetja, sútað og í sumum tilvikum litað fiskroð sem hráefni í framleiðsluvörur frægustu tískuhúsa heimsins. Er þá ekkert lítið sem hangir á spýtunni ef menn koma ár sinni eitthvað þar fyrir borð.

Herra forseti. Ekki síst í ljósi þess líka að oft þarf svo lítið til að gera gæfumuninn í sambandi við stuðning við veikburða uppbyggingu af þessu tagi, sem eðli málsins samkvæmt oft er þegar smáu fyrirtækin eiga í hlut, held ég að okkur sé skylt að fara rækilega yfir það hvernig þessi mál standa hér á landi. Á því vantar betri kortlagningu. Fyrir því hef ég nokkuð ríka sannfæringu. Ekki þarf að ræða lengi við fólk hér og þar í þjóðfélaginu sem er að velta einhverjum möguleikum fyrir sér til þess að átta sig á hversu ráðvilltir menn oft eru varðandi það hvaða aðstoð þeim standi til boða, hvert þeir eigi að snúa sér og þar fram eftir götunum. Þarna getum við tekið miklu betur á. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er þjóðhagslega skynsamlegt, rétt og væri okkur farsælt að beina meiri athygli að þeim þáttum málsins. Og þótt ekki væri nema til þess að við stæðum að okkar leyti skammlaust að því að hrinda í framkvæmd þeim markmiðum, bæði evrópskra og norrænna sáttmála, sem við tengjumst og ég hef gert grein fyrir. Allt ber að sama brunni og ég held að það sé tímabært að Alþingi fyrir sitt leyti fjalli um þessi mál og geri þeim skil. Hvort sem það verður með því að samþykkja nákvæmlega þessa þáltill. eða eitthvað í þá áttina vona ég a.m.k. að nægur áhugi sé fyrir hendi til þess að málið sofni ekki svefninum langa.