Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:10:41 (698)

2002-10-17 15:10:41# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þjóð minni vel og þess vegna hugsa ég nátt- og daglangt um að skipta um ríkisstjórn í landinu. Það er það besta sem getur komið fyrir þjóðina.

Hv. þm. hefur komist að því að ýmislegt gott getur komið frá Nazaret. Ýmislegt gott getur komið frá Brussel. Ég hef oft velt því fyrir mér þegar ég fylgist með því hvernig Evrópusambandið tekur ákvarðanir um stefnubreytingar og hrindir þeim síðan í framkvæmd að það er mjög margt líkt með áherslum um hvernig á að gera hlutina hjá Brussel og hjá þeim hugmyndasmiðum sem eru að baki VG.

Tökum t.d. þessa ágætu stefnu sem liggur fyrir í þessu þingmáli sem við ræðum hér. Þar er beinlínis verið að tala um að ríkið komi með virkum hætti með fjárframlögum og atbeina sínum til þess að byggja upp lítil fyrirtæki, m.a. á landsbyggðinni. Hvað er það sem Evrópusambandið gerir? Nákvæmlega þetta. Það hefur áratugum saman tekið þátt í því að leggja fram hugmyndir um hvernig eigi að byggja upp smáfyrirtæki á tilteknum svæðum sem eru veikburða í atvinnulegu tilliti, sett þangað mannskap og fjármagn. Ég veit þetta af eigin reynslu vegna þess að ég var á sokkabandsárum mínum ráðgjafi í tveimur löndum þar sem beinlínis var verið að vinna í krafti fjármagns sem kom frá Brussel til þess að byggja upp slík héruð.

Herra forseti. Ég segi að þær hugmyndir sem þarna eru eru um margt keimlíkar því sem ýmsir aðrir hafa velt fyrir sér. Það er einfaldlega þannig að um margt erum við sammála í mínum flokki og flokki hv. þingmanns. Hvort þetta gæti orðið eitthvað sem hægt er að vöndla saman í jákvæða stefnu fyrir þjóðina inn í framtíðina á eftir að koma í ljós. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé jákvætt að þessir tveir flokkar hafi þarna ákveðna svipaða áherslu um hvernig á að byggja upp varanlega velsæld í landinu án þess að hún byggist á endalausum sveiflum eins og við höfum séð síðustu árin.