Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:23:33 (702)

2002-10-17 15:23:33# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Flm. (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 18, um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni, sem við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, flytjum. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun vöruverðs og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni síðastliðin tíu ár og bera saman við þróunina á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili. Nefndin kanni jafnframt hvaða þættir hafa helst áhrif á vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar og hvar skilur á milli.

Nefndin kanni alveg sérstaklega og meti:

a. áhrif þungaskatts á vöruverð og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á vöruverð á landsbyggðinni,

b. áhrif þungaskatts á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á rekstrarskilyrði þeirra.``

Lagt er til, herra forseti, að nefndin móti tillögur sem hafi að markmiði að draga úr áhrifum þungaskatts á vöruverð og jafni rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja í sambandi við flutningskostnað milli landsvæða. Einnig er lagt til að sérstaklega verði kannað hvort breyta megi og jafna muninn í gegnum skattkerfið til að ná þessu markmiði.

Herra forseti. Þessi tillaga er afar brýn. Ég hef hér sagt er hún tvíþætt. Annars vegar beinist hún að því að kanna hvað hefur áhrif á vöruverð á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið og hins vegar rekstrarskilyrði fyrirtækja.

Ég ætla í innganginum að fyrri ræðu minni um þetta mál að snúa mér fyrst að því sem snýr að vöruverði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að þar er mikill munur. Mesti munurinn er m.a. vegna hins svimandi háa flutningskostnaðar sem nú er um þessar mundir og hefur farið stighækkandi undanfarin ár.

Í þessari þáltill. er birt, máli okkar til stuðnings, í töflu 1, verðkönnun sem ég gerði í 27 verslunum í sumar. Þetta eru verslanir jafnt hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Í þessari verðkönnun minni á 10 vöruflokkum, þekktum vöruflokkum sem við vorum viss um að væru til í flestöllum ef ekki öllum búðum, mátti sjá, herra forseti, allt að 108% mismun milli landsbyggðarverslunar og höfuðborgarverslunar. Algengast er að munurinn sé í kringum 70--100%.

Máli mínu til stuðnings bendi ég á útreikninga, sem fylgja þáltill. þessari, á verðinu sem landsbyggðarverslunin fær frá birgjum og heildsölum á höfuðborgarsvæðinu, hvað ríkissjóður fær út úr því í virðisaukaskatt, hvert innkaupsverð viðkomandi verslunar er og jafnframt hver áætlaður flutningskostnaður er. Rétt er að taka það fram að oft er það svo að framleiðendur eða heildsalar borga flutninginn út á land en auðvitað kemur það fram í vöruverði. Þetta sýnir hvað kaupmaðurinn í landsbyggðarversluninni sem selur þessar vörur fær í raun lítið fyrir sinn snúð, fyrir umsetningu sína. Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, að ástæðan fyrir háu vöruverði úti á landi er ekki álagning kaupmanna þar. Þeir eru ekki sælir af álagningu sinni. Þar ræður mestu hátt innkaupsverð og svimandi hátt flutningsgjald.

Í töflu 2 má sjá að kostnaður við að flytja 1 kg af sykri út á land, á svona meðalstað skulum við segja, meðalflutningskostnaður, getur verið um 14 kr. á kíló þó viðkomandi kaupmaður hafi fengið sérstakt afsláttartilboð. En framlegðin sem hann hefur út úr því að selja þetta kíló af sykri er ekki nema 12 kr. Með öðrum orðum, herra forseti, flutningsaðilinn fær meira, sama má segja um ríkissjóð, út úr þessu en kaupmaðurinn.

Ég vil halda þessu til haga og fara í gegnum þessar töflur þó að of langt mál sé að fara út í að nefna einstakar krónutölur. Þarna er hins vegar hreint út sagt hrikalegur munur á vöruverði. Þegar maður skoðar svo gjaldskrá fyrirtækisins Flytjanda, sem er fylgiskjal með þessari þáltill., getum við séð að það að flytja 300 kg af vöru samkvæmt gjaldskrá frá Reykjavík til Raufarhafnar kostar 28,30 kr. á kíló. Það getur átt eftir að versna enn meira. Ef við erum að flytja þessar vörur á Bakkafjörð eða Vopnarfjörð kostar það tæpar 33 kr. á kíló eða um 30 kr. á Miðausturland.

Herra forseti. Ég ítreka, vegna þess að þetta eru lágar tölur í sjálfu sér, að þetta eru hrikalegar tölur sé litið til flutningskostnaðar. Nú er gjaldskrá eitt og raunveruleikinn annar. Í mörgum tilfellum hafa flutningsfyrirtæki sem betur fer gefið flutningsaðilum einhvern afslátt en hann er þó ekki alltaf voðalega mikill. Hér er ég bara með, af því að staðreyndirnar eru oft bestar, reikning frá ákveðinni verslun á landsbyggðinni sem sýnir svart á hvítu að það kostar tæpar 5 þús. kr. að flytja 155 kg af matvöru frá Reykjavík til viðkomandi staðar, þ.e. um 32 kr. á kg. Upp á þetta hljóðar reikningurinn. Þetta eru staðreyndir.

[15:30]

Því vil ég segja, virðulegi forseti: Gjaldskrá er eitt og raunveruleikinn annað. Hann er því miður þessi. Um raunveruleikann í sambandi við flutningskostnað er hægt að taka ótal mörg dæmi. Eins og ég sagði áðan ætla ég á eftir að ræða um þennan flutningskostnað gagnvart rekstrarskilyrðum fyrirtækja og nefna nokkur dæmi. Þetta vildi ég sagt hafa um vöruverðið. Ég hvet til þess að þessi tafla verði skoðuð. Varðandi hlutfallsverðmismun milli landsbyggðarverslunar og höfuðborgarverslunar, sama hvort það er á Frón-mjólkurkexi eða grænum baunum, er hann um 100%.

Verðmismunur þessi er skuggalegur og það sem ég nefndi áðan um hvað kaupmaðurinn fær er gríðarleg matarkista fyrir ríkissjóð. Ríkissjóður fær fúlgur í nafni flutningskostnaðar, í formi þungaskatts, olíugjalds, dekkjagjalds og hvað öll þessi gjöld heita. Þetta er þvílík matarkista að auðvelt væri að setja hluta þessa fjár í einhvern jöfnunarsjóð til þess að jafna flutningskostnað út á land og jafna þar með vöruverð sem er ein brýnasta aðgerð í byggðamálum, þ.e. að jafna rekstrarskilyrði fyrirtækja. Við getum líka kallað það að bæta rekstrarskilyrði fjölskyldna og heimila, þ.e. að lækka vöruverð.

Virðisaukaskattur sem er greiddur af allri vöru til ríkissjóðs er rúm 12%, reiknað frá vörunni. Tafla 3 í þessari þáltill. sýnir lægsta og hæsta vöruverð. Þar kemur í ljós, herra forseti, sem kemur í raun og veru ekki á óvart að ef þessir 10 vöruflokkar væru keyptir þar sem varan er ódýrust, sem er í þessu tilviki á höfuðborgarsvæðinu, mundu þeir kosta 2.090 kr. Ef þessir sömu vöruflokkar eru keyptir í landsbyggðarverslun þar sem við getum tínt til hæsta verðið mundu þeir kosta 3.379 kr. Mismunurinn á hæsta og lægsta verði er 1.289 kr. eða 62%.

Þá kem ég að virðisaukaskattinum, þessum mikla tekjustofni ríkissjóðs. Landsbyggðarbúinn sem þarf að kaupa þessar vörur á 3.379 kr. borgar 471 kr. í virðisaukaskatt til ríkisins meðan höfuðborgarbúinn sem kaupir við lægsta verði borgar rétt um 300 kr. Mismunurinn er rúmar 170 kr., þ.e. 58%. Ríkissjóður fær 58% meira af þessum 10 vöruflokkum hjá þeim sem búa úti á landi, búa við þetta háa vöruverð, vegna allra þáttanna sem hafa gert það að verkum að gjöldin sem ég nefndi áðan hafa hækkað og hækkað, þungaskatturinn, olíugjaldið, allir skattarnir og hvað þetta nú allt saman heitir.

Herra forseti. Ég vil kasta þeirri spurningu fram á hinu háa Alþingi hvort jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé ekki brotin á landsbyggðarbúum með þessum dæmum. Ég tel svo vera vegna þess að við mismunum með þessari skattheimtu og vegna þess hvernig virðisaukinn kemur þarna inn í lokin. Þessi krónutölulegu áhrif virðisaukaskatts valda sem sagt þessu mikla misræmi með öðrum þáttum. Flutningskostnaðurinn veldur því að kostnaðarverð til ákvörðunar á endanlegu söluverði á vörum fjarri framleiðslu og innflutningshöfn verður miklu hærra. Áhrifin eru þau sem ég nefndi áðan að virðisaukinn leggst á hærri grunn og þar með fær ríkissjóður þessar svimandi háu tölur af matarkörfu heimilanna úti á landi, margfalt hærra hlutfallslega en gerist þar sem karfan er ódýrust.

Herra forseti. Rétt í lokin á umræðu um vöruverð á landsbyggðinni vil ég segja að það þekkist í nokkrum vöruflokkum að flutningsjöfnun sé beitt. Nægir þar að nefna olíu. Olía kostar það sama hvarvetna, og bensín kostar það sama í Reykjavík og á Raufarhöfn. Sement er líka í flutningsjöfnun. Morgunblaðið og Dagblaðið kosta sama hvort sem það er á Akranesi, í Reykjavík eða á Vopnafirði. Mjólkin er yfirleitt á sama verði. Og síðast en ekki síst, ríkisvaldið ákvað á sínum tíma að hafa eina gjaldskrá á símanotkun um allt land þannig að jöfnunaraðgerðir eru þekktar.

Ég segi, herra forseti: Að stærstum hluta er þetta þungaskattinum að kenna og að stærstum hluta er þetta núverandi ríkisstjórnarflokkum að kenna vegna þess að þeir hafa með aðgerðum sínum, og aðgerðaleysi líka, stuðlað að stórhækkun þungaskatts sem hefur farið þráðbeint út í verðlagið. Það sýna töflur og gögn sem við höfum verið að skoða frá 1996 til dagsins í dag.

Hér í lokin á þessum fyrsta inngangi mínum vil ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ef menn vilja bregðast við bráðavanda í byggðamálum á Íslandi þarf að ganga rakleitt í aðgerðir til þess að jafna, minnka eða breyta því formi sem er á þungaskatti og þeim sköttum ríkisins sem gera það að verkum að hinn hái flutningskostnaður er orðinn að veruleika. Þetta væri það skjótvirkasta til þess að jafna lífskjör í landinu. Jöfnun lífskjara er eitt brýnasta byggðamálið í dag gagnvart íbúum landsins. Það er með öðrum orðum, herra forseti, ekki hægt að una við það að íbúi á norðausturhorni landsins þurfi að greiða rúmar 30 kr. á hvert kíló sem flutt er til hans af matvöru svo hann geti dregið fram lífið. Þetta er ósanngjörn skattheimta. Það er mjög ósanngjarnt hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur komið fram við landsbyggðarfólk á undanförnum árum. Þetta atriði sem ég hef hér nefnt er eitt stærsta atriðið í mínu máli ef frá eru skilin atvinnumál og breyting á þessum höfuðatvinnuháttum okkar.

Í næstu ræðu minni á eftir ætla ég að koma inn á samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu en þar hafa ýmsar strúktúrbreytingar í flutningskostnaði gert það að verkum að fyrirtækin sitja langt frá því við sama borð, og miklir erfiðleikar eru að koma upp í fyrirtækjarekstri í landsbyggðinni núna vegna þessa svimandi háa og hækkandi flutningskostnaðar.